Módel fyrir samtímalistasöguna

Í vikunni sem leið hélt ég fyrirlestur í viðskiptadeild HÍ.  Lesturinn fjallaði um breytt módel eða listkerfi sem notast er við til að skrá samtímalistasögu.

Ég hef hugsað mér að melda lesturinn annarsstaðar í breyttri mynd og vonast til að hann þróist út frá umræðu sem skapast á hverjum stað.

 

Í 250 ár höfum við metið listgildið út frá módeli sem sem byggir á forrómantískri fagurfræði og frumkvöðlahugmynd (Sjá t.d. Listkerfi nútímans eftir Paul Oscar Kristeller og  Likeness and Being: The image before the era of art eftir Hans Belting).  Þetta módel varð undirstaða þess að við gátum skráð sannfærandi listasögu (sem kann samt að vera kolvitlaus) og var notað sem viðmið til að ákvarða mikilvægi listamanna í listasögunni.  Þetta módel er nú úrelt þar sem fagurfræði og frumkvöðlahugmynd er ekki lengur mælikvarði á listgildið.  Við höfum nú annað listkerfi og annarskonar pýramídastrúktúr.

 

Í nýlegri bók, The $ 12 million stuffed shark: The Curious economics of contemporary art , leggur Breski hagfræðingurinn Don Thompson til nýtt viðmið og stigveldi sem hann kallar „gallerípýramídann”.  Pýramídinn virkar þannig að listamaður byrjar að sýna hjá litlu lókal galleríi og stígur svo upp þrepin.  Eftir því sem hann kemst að hjá betri galleríum á hann betri möguleika á safnasýningum (galleríin eru brú yfir til safnanna) og um leið styrkist staða hans í samtímalistasögunni og verðgildi á verkum hans hækka. 

 

Thompson nefnir 20 gallerí á toppi pýramídans, Gagosian, White Cube, Pace Wildenstein o.fl.  þetta eru galleríin sem höndla listamenn eins og Damien Hirst, Neo Rauch, Luc Tuymans, Gerhard Richter, Tracey Emin, Cindy Sherman og Jeff Koons.

 

Thompson fullyrðir að ef listamaður er ekki vörumerktur hjá galleríi þá er hann ómerkingur í listheiminum.

 

Í þessu vekur áhuga minn, sem myndlistarmann og gagnrýnanda, að skrásetning á listasögunni er ekki í höndum sömu stétta og áður. Þ.e. að í eina tíð gegndu gagnrýnendur og listfræðingar lykilhlutverki í skrásetningunni en eftir að listmarkaðurinn tók kipp á níunda áratugnum og óx síðan með ógnarhraða hafa hlutverk og völd innan listheimsins færst til.

Gagnrýnendur og listfræðingar hafa í raun ekkert um þetta ferli að segja. Stigveldið ræðst algerlega af markaðnum og skrásetning samtímalistasögunnar byggist þar af leiðandi á velgengni listamanna á listmarkaði og ferilskrá þeirra.  Listgildið, sem áður var metið út frá fegurðargildi, miðast nú við markaðsgildi og skráning samtímalistasögunnar er í höndum sýningarstjóra, galleríista og listaverkasafnara.

3 thoughts on “Módel fyrir samtímalistasöguna

  1. Þetta er áhugaverð pæling og margt til í þessu. Hér má m.a. finna ástæður fyrir oft litlausu og lítið ógnandi listaáferð í borgum á borð við New York og London. Hins vegar er spurning hvort þetta eigi eins við í löndum þar sem fjármagnsvaldið er ekki eins yfirþyrmandi, eins og á Norðulöndum og í Kanada. Þar ímynda ég mér að fagstofnanir séu enn visst mótvægi við fjármagnsstýrðu öflin. Væri e.t.v. áhugavert, Ransu, að fá úttekt þína á stöðunni hér á landi í þessu samhengi, til samanburðar.

  2. Ég nefndi einhverntímann í pistli (og gerði það einnig í frágreindum fyrirlestri) að íslensk listasaga byggist upp á staðgenglum. Þ.e. að Jón Stefánsson er staðgengill fyrir Mattisse því hann er sá íslendingur sem kemst næst því að mála eins og hann. Finnur Jónsson er okkar Kandinskíj o.s.frv. Þannig er frumkvöðlapýramídinn. Við miðum skrásetninguna við alþjóðlegt módel þar sem Jón og Finnur eru í raun ómerkingar en eru efstir í okkar “lókal” pýramída.
    Það er alltaf “lókal” listasaga í löndum eins og Kanada, Noregi, Króatíu eða Íslandi. Hún miðar samt við alþjóðlegt módel.
    Ég held að við séum að horfa á þessar makaðsvæddu viðmið aðeins seinna hér á landien annarsstaðar. Þ.e.a. samband sé á milli velgengni á alþjóðlegum listmarkaði og stöðu í íslenskri samtímalistasögu. En einkennin eru til staðar, t.d. í úttektinni á “Icelandic art today” sem var gerð af fagstofnunum til þess að markaðssetja íslenska myndlist, í vali á listamönnum á Carnegie síðastliðin ár, Feneyjar tvíæringurinn (Fulltrúar okkar tvíæringinn eru ekki lengur valdir vegna heiðursins heldur vegna þess að þeir fagna þegar einhverri velgengni á alþjóðlega vísu og tvíæringurinn er væntanlegur stökkpallur, dýpra inn í alþjóðlegan listheim) en mér var sagt af galleríista nokkrum sem starfar á alþjóðlegum grundvelli að galleríin leggi meiri kostnað í kynningu á sínum listamönnum á tvíæringnum en þjóðirnar sem senda þá leggja í sýningarkostnað.
    Í þessum þáttum tel ég að merkja megi að Ísland sé ekki undanskilið þessum markaðslega mælikvarða á listgildið sem snertir líka fagstofnanir. En vissulega erum við áfram með einhverja “lókal” listasögu.

  3. Þetta finnst mér spennandi málefni. Markaðurinn gleypti hákarlinn og við fylgdumst með. Eitthvað klikkað við þetta allt eins og t.d. þegar demantahauskúpan seldist á uppboðinu. Svo spillt en ævintýralega hástemmt. Meira eins og hauskúpan væri að kaupa ómerkilega seðla sem höfðu þykjustunni verðmætagildi, væru bara tákn. Um leið veit maður að aðeins 8 klst. flug í austur, vestur og suður af Lundúnum gerir einn seðill gæfumuninn upp á líf og dauða, mat,lyf og lækningu barna.
    Mér finnst myndlistin og matið á henni í svo mörgum lögum, þversum og langsum. Eiginlega eins og köflótt skotapils.
    Þegar ég skoða myndlistarblöð eða myndlist á netinu þá er ég agndofa yfir fjölbreytileika myndlistarinnar, myndanna.
    Svo hættir maður aldrei að falla í stafi yfir eldri myndlist áður en listin varð merkjavara. Ég meina egypska og persneska list. Mér leiðast merkjavörur og ég er ekki alveg sátt við þá staðreynd að myndlist er merkjavara. Hvernig er hægt að dýpka, efla, hina “fagurfræðilegu” upplifun á myndlist og hætta þessum búðaleik. Ég hef látið mér detta í hug myndlistarsamsýningu þar sem höfunda verkanna væri ekki getið með nafni.

Skildu eftir svar við Ransu Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: