Barbagreindirnar

Þegar fjölgreindakenning Howard Gardners kom til skjalanna árið 1983 vafðist fyrir mörgum að tala um margar greindir og ólík greindarsvið vegna viðtekinna viðhorfa um að greind skuli eingöngu miða við rökvísi. Þessi viðhorf um að miða hæfni manna við eina greind voru svo rótgróin að í íslenskri tungu er ekki einu sinni gert ráð fyrir því að setja greind í fleirtölu, og að tala um „greindir” er röng málfræði þótt það kunni að vera réttara viðhorf.  Sakir þessa rótgrónu viðhorfa fékk Gardner, sem er sálfræðingur, fremur báglegar viðtökur frá kollegum sínum og öðrum fræðimönnum sem létu greind manna skipta sig máli.  Aftur á móti tóku kennarar honum fagnandi vegna þess að í þeirra starfsgrein var „kommon sens” að ekki væri hægt að meta greind allra út frá einum mælikvarða.  Þeir höfðu kynnst ólíkum greindum í kennslustofunni.

Gardner skiptir greindum mann niður átta hluta og eru á misjöfnu stigi hjá hverjum og einum.  Greindirnar eru;  málgreind, rök- og stærðfræðigreind, rýmisgreind, tónlistargreind,  líkams- og hreyfigreind, félags- og samskiptagreind, sjálfsþekkingargreind og umhverfisgreind.

Fjölgreindakenning Gardners er viðurkennd í dag þótt hún sé vissulega umdeild og stefna sumra skóla er jafnvel mótuð út frá henni. 

 

 

Heilum áratug áður en Gardner kynnti fjölgreindirnar birtu Anette Tison og Talus Taylor fyrstu bækurnar um Barbapapa og urðu þær vinsælar um heim allan. Ein þessara bóka heitir Skólinn hans Barbapapa og segir frá því þegar Barpapapa stofnar skóla til að koma til móts við ólíkar þarfir barna.  Barbapapa  taldi nefnilega eina aðferð ekki duga í kennslu. „Öll börn eru ólík”, segir Barbapapa við skólayfirvöld.  „Sum hafa gaman af fuglum, önnur tónlist eða að mála myndir. Og þeim sem hafa gaman af bílum finnst skemmtilegt að læra hvernig þeir virka”.[1]   Út frá þessari einföldu hugmyndafræði setti hann á stofn skóla og Barbafjölskyldan sá um kennsluna sem gekk líka þetta svakalega vel, enda býr hver einasti fjölskyldumeðlimur yfir fagvitund sem snertir fjölgreindirnar.

 

• Barbapapa og Barbamama hafa félags- og samskiptagreind, sem er hæfileikinn til að eiga góð samskipti við aðra. fá aðra til að líða vel, lesa í aðra og hafa samkennd með tilfinningum annarra.

• Barbavís hefur málgreind,  sem er hæfileikinn til að tjá sig, að geta skrifað vel eða talað vel.

• Barbakær hefur rýmisgreind, sem er hæfileikinn til sjón- og rúmskynjunar og vinna með liti, lögun og form.

• Barbaljóð hefur tónlistargreind, sem er hæfileikinn til að skapa og njóta tónlistar.

• Barbasnjall hefur rök- og stærðfræðigreind, sem er hæfileiki til að vinna með tölur, rökfræði og kerfi.

• Barbafín hefur sjálfsþekkingargreind, sem er hæfileikinn til friðsældar, markmiðssetningar og sjálfsskoðunar.

• Barbaþór hefur líkams- og hreyfigreind, sem við  notum þegar við hreyfum okkur og iðkum íþróttir.

•Barbavænn hefur umhverfisgreind, sem er  hæfileikinn til að greina og meta og vinna með hluti og dýr í náttúrunni.

 

Þessi líkindi á milli hæfni meðlima Barbafjölskyldunnar og greinda í fjölgreindakenningunni eru meira en lítið kynleg svo ætla mætti að Gardner hafi byggt rannsóknir sínar á bókum Tison og Talus.  Ég hallast meira að segja að því að tala um Barbagreindir fremur en fjölgreindir þar sem bækurnar eiga talsvert forskot á Gardner.  Ég býst hins vegar við að Tison og Talus hafi bara látið „kommon sens” duga þegar þau settu Barbagreindirnar niður á blað á meðan Gardner fór fræðilegu leiðina.

Einnig í www.smugan.is


[1] Annette Tison & Talus Taylor: Skólinn hans Barbapapa. Þuríður Baxter þýddi. Iðunn, 1977.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: