Um möguleika kvikmyndagerðar í kreppu

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að rekstrargrundvöllur kvikmyndagerðar á Íslandi hefur orðið fyrir umtalsverðum skakkaföllum í kjölfar bankahrunsins í október 2009. Fyrirtæki og fjárfestar, sem áður gátu fjárfest að einhverju leyti í kvikmyndagerð, hafa þurft að draga fjármagn til baka. Þyngri þraut er þó án efa umtalsverður niðurskurður á fjármagni frá opinberum aðilum til kvikmyndagerðar, bæði í skertum framlögum frá Kvikmyndasjóði og í talsvert minni þátttöku Sjónvarpsins í innlendri dagskrárgerð. Við þetta bætist að kvikmyndaiðnaðurinn á Íslandi hefur lengi verið nátengdur auglýsingamarkaðinum og mörg fyrirtæki hafa rekið sig með því að vinna á báðum sviðum. Með hruni auglýsingamarkaðar hefur því rekstrargrundvöllur stærstu framleiðslufyrirtækjanna versnað til mikilla muna. Það er því áhugamönnum um kvikmyndun mikið áhyggjuefni í hvert stefnir.

1 Heimild úr ‘Otros mundos: Un ensayo sobre lel nuevo cine argentino’ eftir Gonzalo Aguilar.
Yfirlit yfir fjölda kvikmynda í fullri lengd sem framleiddar voru í Argentínu á árunum 1997-2004.1

Nú er það svo að árið 2002 lentu Argentínumenn í bankahruni, svipað og Íslendingar, og í álíka kreppu í fjármögnun kvikmyndagerðar eins og Íslendingar nú. Í Argentínu hafði kvikmyndagerð verið í mikilli sókn, með öflugum stuðningi ríkisvaldsins frá 1997, og ástæða til að ætla að kerfishrun með hruni einkageirans og um 50% skerðingu á styrkjum til kvikmyndagerðar yrði iðnaðinum reiðarslag. Vegna þessa er áhugavert til þess að líta að iðnaðurinn í Argentínu reyndist fullfær um að standast áhlaupið – þótt lítillega drægi úr uppgangi árið sem kreppan skall á, var það aðeins að litlu leyti og strax í kjölfarið efldist hann um allan helming, svo vel að tveimur árum eftir hrunið var framleiðsla kvikmynda orðin 50% meiri en hún hafði nokkurn tímann áður verið í landinu. Nú er það svo að aðstæður í Argentínu eru að mörgu ólíkar því sem þær eru hér á landi, en samt veltir maður því fyrir sér hvort það sé eitthvað sem við Íslendingar getum lært af reynslu Argentínumanna, um það hvernig hægt væri að standa uppi með öfluga kvikmyndagerð þrátt fyrir áföllin.

Íslenska kvikmyndavorið

2 Graf byggt á upplýsingum á vef Kvikmyndasjóðs Íslands, www.kvikmyndamidstod.is.

Kvikmyndagerð á Íslandi hefur tekið mikinn kipp undanfarin ár, í skjóli öflugri fagvitundar og bætts styrkjaumhverfis. Eftir fyrstu bylgju kvikmynda á 9. áratugnum kom þó nokkur lægð í kvikmyndagerð fram yfir miðjan 10. áratuginn. Það var þá sem stuðningur opinberra aðila við kvikmyndagerð fór fyrst að eflast fyrir alvöru, og síðan 2002 hafa ekki verið framleiddar færri en 5 kvikmyndir í fullri lengd á ári hverju. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem einhver stöðugleiki hefur verið í iðnaðinum, eins og sést best á meðfylgjandi grafi. Þótt saga kvikmyndagerðar í Argentínu nái mikið lengra aftur en hún gerir hér, en þar hefur verið rekin nokkuð öflug kvikmyndagerð frá því á millistríðsárunum, þá má segja að uppgangur hennar eftir 1997 sé nokkuð sambærilegur við uppgang Íslensrar kvikmyndagerðar. Þótt góður árangur hafi náðst í Argentínu undanfarin ár, þá eru tölur þaðan þó nokkuð eðlilegri en hér á landi. Argentínubúar eru um 40 milljónir, þannig að 2005 var framleiðslan ein mynd á hverja 650.000 íbúa, eða svo. Ef kvikmyndagerð á Íslandi væri miðuð við sama mögulega áhorfendahóp þá væri eðlilegt að framleiða hér á landi eina kvikmynd annað hvert ár! Auk þess eru argentískar myndir seljanlegar óbreyttar í öllum löndum þar sem spænska er töluð, ólíkt íslenskunni, þannig að það er ekki líku saman að jafna um markaðsstæður. Hins vegar kemur á móti að Argentina er allmiklu vanþróaðra land en Ísland; á meðan Ísland hefur verið á eða nálægt toppi í þróunarstuðli á þessari öld hefur Argentína verið á milli þrítugusta og fimmtugasta sætis í heiminum skv. hagtölum. Þannig að efnahagslegur styrkur Íslendinga var og er mikið meiri en Argentínumanna, þrátt fyrir kreppuna.

Efling kvikmyndunar í Argentínu í miðri kreppu

En, það kemur þó ekki í veg fyrir að kvikmyndagerð í Argentínu tókst á farsællegan hátt að standa af sér jafn slæma ef ekki verri efnahagskreppu en Íslendingar standa frammi fyrir núna. Og það er í því samhengi sem það er áhugavert að skoða aðstæður þar: Hvað var það sem gerði kvikmyndagerð í Argentínu mögulegt að ekki bara verjast hruni í kreppunni, heldur að eflast til mikilla muna strax í kjölfarið? Í nýlegri bók sinni, um kvikmyndagerð í Argentínu á nýliðnum árum, veltir breski menningarfræðingurinn Joanna Page einmitt fyrir sér þessari spurningu.3

3 Bók Joanna Page kom út í fyrra og ber titilinn ‘Crisis and Capitalism in Contemporary Argentine Cinema’.

Helstu niðurstöður hennar eru að það séu trúlega margir þættir sem leiddu til þess að uppgangur kvikmyndunar sem hófst eftir miðjan tíunda áratuginn hélt áfram og efldist frekar en hitt við hrunið og kreppuna. Hún tekur til nokkur atriði sem skipta máli.

(1) Í fyrsta lagi það að þótt fjárveitingar til kvikmyndunar hafi verið skertar um allt að 50% í kreppunni, hafi undirstaðan sem sköpuð var með öflugum stuðningi við kvikmyndagerð upp úr 1995 verið það góð að aðstaða kvikmyndagerðarmanna vegna annars en fjármangns hafi alltaf verið tryggð. Svoköllu kvikmyndlög (Ley del ciné) sem tóku gildi 1995 studdu við kvikmyndagerð á marga vegu, meðal annars með verulega auknu fjármagni, en einnig með því að byggja upp og styðja við kvikmyndahús sem einbeittu sér að argentískum kvikmyndum og með því að skylda almenn kvikmyndahús til að sýna argentískar kvikmyndir.

(2) Annar þáttur, sem að mati Joanna skipti miklu máli, var gífurlegur uppgangur kvikmyndaskóla upp úr 1995, en úr þeim skólum sem stofnaðir voru þá hafa komið margir af áhugaverðustu kvikmyndagerðarmönnunum um og eftir kreppuna. Þar á meðal eru margar konur, en hlutfall kvenleikstjóra er hátt í hópi þeirra sem eru að gera kvikmyndir í Argentínu nú til dags.

(3) Þriðji þátturinn er uppgangur kvikmyndahátíða í Argentínu, sem tryggja argentískum kvikmyndaáhugamönnum aðgang að áhugaverðum og sjaldséðum alþjóðlegum kvikmyndum, samhliða því að kynna argentískar myndir á alþjóðavettvangi.

(4) Fjórða atriðið er mikil efling í gagnrýnni og kryfjandi umfjöllun um kvikmyndir, í tengslum við skólana og öflug kvikmyndatímarit. Þetta eru allt þættir sem áttu sinn þátt í að byggja upp kvikmyndamenninguna á árunum fyrir kreppuna, og sem gerðu það að verkum að kvikmyndagerð átti lífæð í gegn um kreppuna. Þessir þættir í sameiningu leiddu til þess að menn högðu tamið sér öflugan, skýran, og oft einfaldan frásagnarmáta í kvikmyndaformi, sem fékk að þróast í skjóli stuðnings stjórnvalda og menningarstofnana.

(5) Þegar kreppan skall á urðu viðbrögð manna þess vegna þau að þeir hættu ekki að gera kvikmyndir þótt kreppti að peningalega. Þeir lögðu jafnmikið í myndirnar hvað vinnu og metnað áhrærði, en breyttu hins vegar framleiðsluferlinu til að mæta ástandinu. Menn hættu í miklum mæli að gera dýrar kvikmyndir og nýttu sér í staðinn hráa möguleika kvikmyndamiðilsins, tóku margir á 16 mm filmu eða nýttu sér stafrænt vídeó, gerðu myndir um samtímann og líðan fólksins, sterkar sögur þar sem sviðsmyndin var borgin og fátækar sveitirnar. Page vitnar í Ismail Xavier sem segir að kvikmyndagerðarmennirnir hafi „breytt fátækt í tákn, í því hvernig þeir túlkuðu vanþróað ástand og misskiptingu auðæfa”. Kvikmyndagerðarmenn gerðu í raun erfiðleikana og kreppuna að styrk sínum, og fyrir vikið hafa argentískar kvikmyndir sjaldan vakið eins mikla athygli um allan heim.

Ísland: kvikmyndamenning og aðstaða

Ef við berum þessar forsendur Argentínumanna saman við það sem er að gerast hér, þá er ljóst að í sumum þáttum stöndum við, sem betur fer, vel. Í öðrum þáttum eru hins vegar hættumerki sem þörf er á að fylgjast með og sem þarf að taka á hið fyrsta ef við ætlum að tryggja íslenskri kvikmyndagerð framgang.

(1) Við höfum byggt upp gott styrkjakerfi um kvikmyndun og höfum á þann hátt stutt við öfluga þróun í íslenskri kvikmyndagerð undanfarin ár. Þar hefur vel verið stutt við framleiðsluna. Hér hefur orðið á skerðing eins og staðan er núna, sem er áhyggjuefni, sér í lagi vegna þess að sumt af öðru sem studdi við kvikmyndun Argentínumanna í kreppu er ekki til staðar hér. En hingað til hefur verið vel hlúð að framleiðslunni hér á landi. Á hinn bóginn höfum við brugðist illilega í því að efla aðgengi að íslenskum kvikmyndum. Kvikmyndasafn Íslands er eini vettvangurinn fyrir íslenskar kvikmyndir eftir að frumsýningu þeirra lýkur, önnur kvikmyndahús hafa engar skyldur gagnnvart íslenskum myndum. Kvikmyndasafn hefur ávallt búið við þröngan kost, og þess vegna eru sýningar þar fáar og stopular, oftast ekki nema tvisvar í viku. Safnið er auk þess staðsett í Hafnarfirði og er þessvegna fjarri hringiðu atburðanna og flestum þeim sem með réttu ættu að teljast helsti markhópur þess. Helsta hlutverk safnsins hingað til sem það hefur getað sinnt að marki snýr að varðveislu kvikmynda. Hér á landi er hinsvegar knýjandi þörf á lifandi miðstöð sem sýnir íslenskar bíómyndir frá síðustu 30 árum í reglulegum sýningum, helst daglega, auk þess að sinna kynningu á erlendum fágætum myndum. Það eru margir möguleikar í stöðunni. Skemmtilegast væri að sjá Austurbæjarbíó í þessu hlutverki en einnig mætti ímynda sér að hluti Háskólabíós fengi slíkar skyldur sér á herðar. Það mætti hæglega virkja nemendur í kvikmyndafræðum í Háskóla Íslands auk áhugamanna um kvikmyndun í Listaháskóla (eða nemendur á Kvikmyndasviði, fyrr e
n síðar!) til að koma að skipulagi og framkvæmd reglulegra sýninga þar sem alltaf væri aðgangur að íslensku efni.

(2) Það er á hreinu að íslendingar hafa allt annað en staðið sig í því að fóstra menntun kvikmyndagerðarmanna. Lengi hefur verið rætt um að stofna kvikmyndadeild í Listaháskólanum, en aldrei orðið neitt úr verki. Hér á landi eru þrír skólar á framhaldskólastigi sem sinna vel undirbúningsnámi undir kvikmyndun. Flensborgarskóli og Borgarholtsskóli útskrifa nemendur í fjölmiðlatækni, sem er gott nám í tækniforsendum kvikmyndunar og fjölmiðlunar og prýðis undirbúningur undir frekara nám. Kvikmyndaskóli Íslands hefur einnig lengi boðið upp á grunnnám í kvikmyndun, en hefur því miður aldrei haft burði til að þróa nám sitt svo það uppfyllti kröfur háskólanáms í kvikmyndun, þrátt fyrir að hafa lagt fram metnaðarfullar áætlanir í þá átt. Það liggur beinast við að Listaháskóli Íslands bætti kvikmyndun við öflugt nám í hönnun, myndlist, tónlist og leiklist – þar eru tengdar greinar sem myndu án efa eflast við að hafa kvikmyndun sér við hlið. En eftir stendur að á sviði menntunar stöndum við íslendingar höllum fæti, a.m.k. í samanburði við Argentínumenn, og það er afar mikilvægt að við bætum úr því sem fyrst. Reynsla Argentínumanna sýnir að með öfluga menntun innanlands getur fátt stöðvað sköpunarmátt ungs hugsjónafólks í kvikmyndun!

(3) Kvikmyndahátíð í Reykjavík hefur undanfarin ár eflst og dafnað og er orðin afar mikilvægur póstur í kvikmyndalífi íslendinga. Þar eiga íslendingar kost á því að sjá það besta og áhugaverðasta í heimskvikmyndunum, og þar höfum við séð margar áhugaverðar argentískar kvikmyndir undanfarin ár. Kvikmyndahátiðin er ungum sem öldnum viss gluggi út í umheiminn og afar mikilvægt að við styðjum við hana þegar kreppir að. Ég veit ekki hvernig horfur eru fyrir áframhald hennar og fjárhagslega stöðu. Rekstur hennar var ekki auðveldur fyrir kreppu, en ef við ætlum að tryggja kvikmyndun á Íslandi þá er afar mikilvægt að verja kvikmyndahátíðina. Þar er búið að byggja upp mikla reynslu og orðstír, bæði hér á landi og í útlöndum, sem alls ekki má fara forgörðum. Argentínumenn héldu rekstri sinna mikilvægustu kvikmyndahátíða, í Mar del Plata og Buenos Aires, ótrautt áfram í dýpstu lægðum kreppunnar og það er mjög mikilvægt að við gerum slíkt hið sama.

(4) Í gagnrýnni umfjöllun um kvikmyndir stöndum við höllum fæti, a.m.k. samanborið við Argentínumenn. Trúlega er þetta þáttur sem tengist ástandinu í kvikmyndamenntun – án öflugs skóla vantar bakhjarl fyrir öfluga umræðu. Þótt kennsla sé hafin í kvikmyndafræðum í Háskóla Íslands er hún enn sem komið er ekki nægjanlega sterk – þar skortir meðal annars á öflugan stuðning við kvikmyndafræðilegar rannsóknir í samhengi við kennsluna. Þótt talsvert sé fjallað um kvikmyndir í prent- og útseningarmiðlum er það að mestu leyti á léttu nótunum – dægurumræða – sem skilar ekki miklu í því að efla kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu. Þó er vísir kominn að alvarlegri umræðu í vefmiðlum, þar eru komin af stað alvöru umræða og þar er um að ræða miðil sem gæti verið hagkvæmur til útgáfu. En þar vantar hinsvegar stórlega stuðning rannsókna til að skerpa á umræðunni og auka dýpt hennar. Hér þarf að vinna mikið verk, og þá trúlega farsælast ef það færi saman við eflingu á menntun í hagnýtum þáttum kvikmyndagerðar á háskólastigi.

(5) Það er ljóst að stofnanir íslenskrar kvikmyndunar í heild, hvað varðar aðstöðu og menningu, eru ekki eins sterkar og þær voru í Argentínu fyrir kreppu. Á hinn bóginn er kvikmyndun á Íslandi samt öflug og framleiðsla kvikmynda undanfarin ár hefur verið hreint ótrúleg miðað við mannfæðina í landinu, og miðað við það að aðstæður eru ekki eins og best verður á kosið. Þetta vekur manni vonir um að hér sé til staðar sú áræðni og kraftur sem þarf til að fylgja fordæmi Argentínumanna, halda áfram að gera góðar og, ef að líkum lætur, enn betri kvikmyndir einmitt þegar aðstæður eru hvað erfiðastar. Nú þarf að búa til góðar sögur, nýta sér ástandið, ekki hætta að gera kvikmyndir þótt fjármagnið sé lítið.

Horft til framtíðar

Staðan núna er sú að við erum að vinna öflugar heimildarmyndir um ástandið og forsendur þess; við erum að vinna góðar gamanmyndir sem taka á þjóðfélaginu og forsendum þess á lúmskan hátt; við erum enn að vinna góðar frásagnarkvikmyndir um líf fólksins í landinu, þótt þær tengist ekki endilega kreppunni og forsendum hennar sem slíkri. Það sem á skortir er hins vegar að vinna góð handrit að kvikmyndum sem taka á kreppunni og djúpum rótum hennar á hugmyndaríkan, mannlegan og einfaldan hátt. Lágstemmdar myndir sem byggja á góðum leik, sterkri sögu, einfaldri og útsjónarsamri sviðsetningu. Myndir sem taka í raun á rótum vandans. Ef okkur tekst að gera þannig myndir, sem byggja á þekkingu og hugviti frekar en dýrri framleiðslu og tækni, þá eigum við möguleika á að komast öflugri og reynslunni ríkari úr þessum öldudal.

Og síðan þarf strax að leggja áherslu á þrennt til framtíðar: (1) Að byggja sem fyrst upp íslenskt framleiðslukerfi á ný, bæði með tilliti til Kvikmyndasjóðs og Sjónvarpsins; (2) Að setja lög og skapa aðstöðu sem tryggir að ávallt sé gott aðgengi að kvikmyndum íslenskrar kvikmyndasögu í almennum sýningum miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu; (3) Að leggja strax til fjármagn í að koma á fót öflugri kvikmyndadeild við Listaháskólann; það er eina raunhæfa leiðin til að tryggja áframhaldandi uppgang kvikmyndunar hér á landi til frambúðar!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: