Júróvisjónkjólalist

Mér fannst fyndin en líka skrítin fréttin í Fréttablaðinu af bréfi Lindu B. Árnadóttur, fagstjóra fatahönnunar LHÍ, þar sem hún drullaði yfir kjólana sem þær stöllur Eva og Ragnhildur klæddust í úrslitakeppni í forkeppni Júróvisjón.

Maður veit svosem ekki hvort fréttin slíti eitthvað samhengi í textanum hennar Lindu en hún segir kjólana vera þá ljótustu sem hún hafi séð í sjónvarpinu. Það er svosem gott og gilt.  Tvennt sló mig samt. Annars vegar þegar blaðið hefur eftir Lindu að þetta sé ekki hennar persónulega álit heldur væri bréfið byggt á faglegum forsendum. 

Ég mundi hins vegar halda að ljótustu kjólar sem einhver hefur séð í sjónvarpi sé persónulegt álit?  Hvernig er hægt að gefa „smekksdóm”  án þess að skoða eigin tilfinningar gagnvart því sem maður sér?  „Fegurðin býr ekki í hlutnum sjálfum heldur í þeim sem á hann horfir”, svo ég vitni í David Hume (og Immanuel Kant).

Einnig sló mig setningin: „Þau hjá RUV bera ekkert skynbragð á hvað er gott þegar kemur að sjónlistum”.  Þetta er tvímælalaust rétt hjá Lindu, Ég er samt óviss um hvort  kvöldkjóll Júróvisjónkynnis falli undir sjónlistir, eða að þær Eva og Ragnhildur hafi klæðst þeim á listrænum forsendum.  Þetta var varla hugsað sem „art that you wear” -dæmi?

Reyndar játa ég að listheimskerfið hefur umturnast frá því að við skilgreindum hinar fimm fögru listir sem málaralist, höggmyndalist, byggingarlist, skáldskaparlist og tónlist.   Það er annað módel í gangi, kannski áþekkt og á dögum Tómasar af Aquino þegar málverk og höggmyndir voru undir sama skilgreiningarkerfi og skósmíðar og eldamennska?  En þá var auðvitað ekkert til sem hét „sjónlistir”.

Myndin sem fylgir er af kjól eftir Steinunni Sigurðardóttur frá sýningunni á kjólum hennar í Listasafni Reykjavíkur – Kjarvalsstöðum.  Fyrirsætuna þekki ég ekki.

3 thoughts on “Júróvisjónkjólalist

 1. Kannski við það bætandi að mín skoðun er sú að enn sé ekkert til sem heitir „sjónlistir“, heldur hafi það verið einhverskonar miðjumoðshugtak sem var ætlað að sameina „myndlist“, sem nýtur að einhverju marki listrænnar virðingar en ekki að sama skapi efnahagslegrar, og „hönnun“ sem þykir stundum ekki með afbrigðum listræn en á móti óneitanlega hagræn. Tilhneigingin var sú að búa til sjónlist til að reyna að gera myndlist að meiri markaðsvöru og hönnun listrænni með því að setja bæði í sömu körfuna. Svo einföldun sé tekin þá er þetta tilraun til að gera myndlist meira „kúl“ í 2007 stíl, og hönnun meira „artí“ ég veit ekki í hvaða stíl.
  Annars eru hönnun og myndlist nokkuð vel aðgreind í hugsun þótt stundum komi til undanvillingar sem þá eru góðra gjalda verðir. Vitaskuld eru hugtökin háð því samhengi sem þau eru í, stundum er allt sem fólk gerir raðar í kringum sig orðið að hönnun. Stundum er allur smekkur, hversu smekklegur sem hann er, orðinn að myndlist. En þessvegna er enn mikilvægara að setja orðin vel í samhengi þegar þeim er beitt og láta hlutina njóta sannmælis á eigin forsendum. Láta góða myndlist njóta sín sem myndlistar og góða hönnun njóta sín sem hönnunar en ekki reyna að steypa þeim í sama mót, það er til þess að missa sjónar á því góða á báðum sviðum.
  Um kvöldkjólana, þá er ég með það á hreinu að þeir falla undir kjólasaum, sem er gömul og virðingarverð iðngrein. Hvort þeir teljist hönnun, sem „meðvituð og skipuleg aðgerð til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt“, svo vitnað sé í hönnunarfræðinginn Victor Papanek, skal ég setja í hendur á sérfræðingum, og í þeim hópi hlýtur Linda að teljast marktækur fulltrúi.
  Annars er ég á þeirri skoðun að prófessorar og lektorar í Listaháskólanum mættu vera frjálslegri með faglegt álit sitt, og mættu koma oftar fram með slíkt á rökstuddan hátt. Í framhaldinu vil ég því skora á Lindu að skrifa vandaða grein þar sem hún færði frekari rök fyrir faglegu áliti sínu.

 2. Sennilega er hugtakið “sjónlistir” búið til að koma til móts við gildi LHÍ. Eyðing aðgreiningar er í hávegum haft á þeim bæ. Fyrst með eyðingu deildaskiptinga og nú miðla.
  Hins vegar finnst mér við þurfa að staldra við og spyrja hvort að skilyrðin séu þau að pláss sé fyrir eitthvað sem heitir sjónlistir í dag þótt þessi skilyrði hafi kannski ekki verið áður til staðar. Svipað eins og ég bendi á í textanum að þá voru einu sinni þau skilyrði að málverk, höggmyndir og skósmíðar voru undir sama hatti. Síðan breyttist listheimskerfið eða skilgreiningakerfið (og það er alltaf að breytast) og kannski er svo komið að hægt sé að sjá kjólasaum og vídeóinnsetningu lenda í sama kerfi. Ég sé það þó ekki í hendi mér.
  Hins vegar má vel vera að eitthvað sem heitir “sjónlistir” muni taka við eða hafi þá þegar tekið við af “Fagurlistum”, því í raun eru ekki lengur skilyrði fyrir fagurlistir í dag. Fagurfræði er eingöngu partur af núverandi listheimskerfi og ekki einu sinni nauðsynlegur partur.
  Í raun er fagurfræði meira “relevant” í hönnun en hún er í samtímalist, enda fer það fyrir brjóstið á Lindu að kjólarnir séu ljótir. Það skiptir ekki máli hvort listaverk sé ljótt eða fallegt í dag.
  Ég er sammála þér að meira ætti að heyrast frá prófessorum. Myndlistardeildin er algerlega “dormant” þegar kemur að því að tjá skoðanir. Goddur er sá eini sem tjáir sig opinberlega um myndlist en hann er prófessor við hönnunardeildina!

 3. Hæhæ
  Ég byrjaði að fylgjast með þessu máli mér til gamans en svo hefur það vakið mig óvænt til umhugsunar um ábyrgðarhlutverk RÚV gagnvart listum og hönnun.
  Linda sendi nýlega svar á Facebook sem mér finnst mjög gott. Og svo sendi hún smá viðbót aftur í dag.
  Ég verð að segja að mér finnst mjög flott og hugað hjá Lindu að segja afdráttarlaust hug sinn í þessu máli. Mér finnst RÚV alveg mega “step up” í sínum málum. Það væri vel hægt á metnaðafullan og einfaldan hátt án nokkurs aukins kostnaðar.
  Virðing – Vægi – Verðmæti
  Svör Lindu:
  Er fatahönnun fag þar sem um eiginlega þekkingu er að ræða?
  Wednesday at 5:22am
  Það er skemmtilegt hvað það hefur valdið miklum usla það að ég skuli hafa sent Evu Maríu á RÚV e-mail um að mér þættu ákveðnir kjólar í útsendingu RÚV vera ljótir.
  Ég hef til dæmis eignast fullt af nýjum vinum á Facebook og ég fékk haturssímtal frá starfsmanni RÚV.
  Við komandi starfsmaður RÚV tjáði mér það að ekki mætti segja að tíska væri góð eða vond, öll tíska væri sömu gæði, aðeins væri um persónulegan smekk hvers og eins að ræða.
  Málið er að í þessu viðhorfi liggur einmitt sá vandi sem að fatahönnuðir á Íslandi þurfa að glíma við. Samfélagið virðist ekki skilja að fatahönnun er fag og þar er um sérþekkingu að ræða sem hefur ekkert að gera með persónulegan smekk.
  Á Íslandi eru miklir fordómar gagnvart fatahönnun og fagið almennt álitið kerlingarföndur og hégómi. Þess vegna vil ég prófa að máta þessa hugmynd á annanrri grein t.d. bókmenntum.
  Gæti fólk fallist á þá hugmynd að engar bókmenntir eru betri en aðrar? Er Laxnes og Séð og Heyrt jafngott en það er aðeins persónulegur smekkur fólks sem dæmir. Ég held ekki. Það eru voða mikið sömu þættir sem gera góðar bókmenntir, góðar og góða fatahönnun, góða. Það eru þættir eins og efnistök, tækni, innsæi, þekking á faginu, heilindi og einlægni.
  Þessi starfsmaður RÚV sagði mér einnig að ég gæti ekki leyft mér að hafa sterkar skoðanir á fatahönnun þar sem að ég sé í kennarastöðu og megi því ekki gagnrýna.
  Fólk sem þekkir til faginu og þekkir þá skóla sem að bestir eru vita að þetta virkar ekki svona. Þeir skólar sem að skila bestu fatahönnuðum út í fagið eins og til dæmis Central Saint Martins eru með stjórnendur sem að eru frægir fyrir hárbeytta gagnrýni og jafnvel dómaskap.
  Luise Wilson sem er yfir MA námi í St. Martins og hefur gert þann skóla þann bestan í heimi kom hingað til Íslands í vor til þess að vera prófdómari á útskriftarverkefnum BA nema í fatahönnun við LHÍ. Hún fékk nýlega orðu frá Bretadrottningu fyrir framlegg sitt til breskrar fatahönnunar. Hún er þekkt fyrir að liggja ekki á skoðuum sínum og notaði hún við prófdæminguna orð eins og “horror”, “ugly” og í eitt skipti “vomit-inducing”. Hennar karakter er náskildur öðrum Bretum eins og Simon Cowell og Gordon Ramsey sem hika ekki við að gagnrýna hart og eru jafnvel með dónaskap en málið er að við trúum þeim. Það er komin tími á það hér á Íslandi að fólk megi opna munninn og segja sína skoðun.
  Þetta e-mail sem ég sendi á Evu Maríu og ég hefði aldrei sent ef að ég hefði ekki verið búin að þekkja hana í 20 ár var samt sem áður aðallega gagnrýni á gæðastjórnun RÚV. Mér hefur ekki fundist RÚV standa undir menningarlegu hlutverki sínu síðastliðin ár.
  Ef að við ímyndum okkur að RÚV (þ.e. sjónvarp, útvarpið er margfalt betra) sé stærðfræðingur sem hefur það hlutverk að miðla landsmönnum stærðfræði þá hafa dæmin sem lögð hafa verið fyrir landsmenn verið þau allra einföldustu eins og 1+1=2 og 2+2=4. Ef að RÚV væri metnaðarfullur stærðfræðingur þá myndi hann leggja aðeins erfiðari dæmi fyrir landsmenn jafnvel þott það myndi þýða að menn þyrftu að leggja aðeins meira á sig til þess að skilja og að aðeins færri skildu dæmin.
  Varðandi fréttina í Fréttablaðinu, sem ég hef reyndar ekki séð vegna þess að ég er í útlöndum, þá er það miskilningur að ég hafi verið að setja út á hár og förðun þetta umrædda kvöld. Ég var meira að tala um ljóshærðar þulur sem oft eru frekar skrýtnar á litinn og hafa farið fyrir brjóstið á mér. Og hvernig er það, hefur RÚV aldrei ráðið dökkhærða þulu?
  Er útlitið ljóshærð og með vafasamn húðlit réttasta útlit íslenskra kvenna?
  Hvernig væri að ráða þulu sem er af erlendu bergi brotin?
  Ég vil nefnilega vandaðar og fjölbreyttar ímyndir fyrir börnin mín.
  Er RÚV raunveruleikasjónvarp?
   Today at 12:12pm
  Ég hef fundið mig knúna til þess að tjá mig aðeins meira um ”stóra kjólamálið” og málefni RÚV.
  Svo virðist sem sjálfhverfan sé allsráðandi þarna hjá þeim á RÚV. Þær stöllur Eva María og Ragnhildur Steinunn komu fram í fréttum Stöð 2 þar sem þær sögðu að þær mættu vera í alveg eins ljótum kjólum og þeim sýndist.
  Þær virðast halda að þær séu stjörnur í raunveruleikaþætti.
  Ef þær geta verið í eins ljótum kjólum og þeim sýnist þá væntanlega geta þær talað eins vonda íslensku og þeim sýnist og fjallað um það efni sem þeim sýnist. Þær virðast halda að þetta sé bara þeirra persónulega og ábyrgðarlausa einkaflipp og hvað sem svo sé að gerast þarna úti þá komi þeim það ekki við.
  Ef að menningarleg ábyrgð RÚV er engin og starfsfólkið ætlar að halda áfram að vera í sínu sjálfhverfa raunveruleikaþætti, þá mælist ég til að þeir stilli útsendingartakkann á “off” og hlífi allavega okkur hinum sem fáum þetta sent heim í stofu við þessu. Verst er að við erum neydd til að borga fyrir þetta.
  Mér finnst þó einkennilegast að í “stóra kjólamálinu” sér enginn að þetta er fyrst og fremst spillingarmál. Birta Björnsdóttir, sem hannaði kjólana og hefur setið ein að þessum RÚV verkefnum í mörg ár er dóttir útsendingarstjórans og tengdadóttir yfirsminkunnar. Ég hef reynt að koma því að í þessari umræðu en fengið lítinn hljómgrunn en það er líklega vegna þess að samkvæmt viðhorfum íslendinga eru kjólar kerlingaföndur og hégómi og þess vegna ekki séð sem eiginleg vinna eða verkefni jafnvel þó að upphæðirnar sem um eru að ræða séu líklega ekki langt frá því sem þær voru í málinu sem hafði að gera með dóttur bæjarstjórans í Kópavogi.
  Ég hef ekkert neitt á mót Birtu sjálfri eða hennar fyritæki. Það gera allir hönnuðir og myndlistarmenn vond verk og læra af reynslunni. Allir kvikmyndagerðarmenn hafa gert slæma mynd en það er einmitt myndin sem þeim tókst ekki að selja til sýningar í sjónvarp.
  Væri ekki stórkostlegt ef RÚV yrði vettvangur sem kæmi á framfæri því besta sem er að gerast í listum og hönnun. Í hverri viku fengjum við að sjá vandaða hönnun frá íslenskum hönnuði sem væri kannski kynntur sérstaklega. Ef bara fjölmiðlar á Íslandi myndu skilja hve mikil áhrif þeir gætu haft í uppbyggingu þessarar ungu greinar. Það gætu einfaldlega skapast fleiri störf í faginu. Ef þeirra stuðnings nyti við.
  Linda Björg Árnadóttir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: