Siðferði listamannsins

Þær voru áhugaverðar vangaveltur Hólmfríðar Gísladóttur um siðferði afþreyingarneytandans í Morgunblaðinu 25.02.10.  Þar deilir hún viðhorfum sínum til ýmissa frægra manna sem hafa brjótið af sér.  Hún talaði um Roman Polanski sem á yfir sér dóm fyrir nauðgun og segir „Polanski hefur ekki enn axlað ábyrgð á því sem hann gerði og ég hreinlega fæ mig ekki til að horfa á myndir hans.” 

Ég hef lesið  brot úr dómskjölum Polanskis, en blaðamaður birti þau í pistli fyrir nokkru.  Glæpur Polanskis er óafsakanlegur og ekki efi í mínum huga að hann eigi, og hafi fyrir löngu átt, að taka út refsingu fyrir afbrot sitt þótt hann geri góðar kvikmyndir (svona yfirleitt).  Það er ekki málið.  Ástæðan fyrir því að ég henti saman hugleiðingum út frá grein Hólmfríðar er hins vegar setning hennar; „[…] og ég fæ mig ekki til að horfa á myndirnar hans”.

Slítum við ekki listina frá afbrotum listamannsins?  Ræðst það kannski af eðli afbrota hans eða hvort hann axli ábyrgð?

Á laugardaginn var í Róm opnaði sýning á 24 málverkum eftir Caravaggio í tilefni þess að 400 ár eru liðin frá andláti hans.  Um 50.000 manns höfðu pantað sér miða á sýninguna áður en hún opnaði.  Ef það er eitthvað sem mig langar að sjá í listinni þetta árið þá er það þessi sýning. Ég hreinlega kikna undan Caravaggio. Fegurðin í verkum hans er næsta óbærileg. Caravaggio var hins vegar þekktur á sínum tíma fyrir að vera agressífur drykkjuhrútur og það sem verra var þá drap hann mann í reiðikasti og þurfti að flýja Rómarborg yfir til Möltu.  Þar lenti hann einnig í átökum sökum skapofsa, þannig að við getum sagt að hann hafi ekki axlað ábyrgð.

Caravaggio var morðingi en líka meistari birtuskilanna (chiaroscuro) og gerði einhver fallegustu málverk sem til eru og mörg hver sýna mjög ofbeldisfullar ímyndir.

Fegurð var lengi vel sett í samhengi við siðferði, löngu áður en við fórum að nota hana til að meta listgildi hluta.  Stóuspekingar flokkuðu t.d. fegurð innan siðfræðinnar en ekki listar, s.br. hið sanna, góða og fagra. 

Hins vegar verður siðfræði seint teflt fram sem mælikvarða á listgildi og svo ég endurtaki orð Símonar Jóh. Ágústssonar í hinni ágætu bók  List og fegurð;  -„Það er ekki markmið listarinnar að gera okkur að betri mönnum.”  List kann að fá okkur til að horfa á hluti með öðrum augum, en breytir ekki endilega siðferðiskennd okkar.  Menn sem mála fallegar myndir eða búa til góðar kvikmyndir (svona yfirleitt) geta samt verið „skíthælar”, ef svo má að orði kveða.

Myndirnar sem fylgja eru: (uppi) Roman Polanski, (miðja) Judith hálsheggur Holofernes eftir Caravaggio, 1599 og (niðri) Davíð með höfuð Golíats eftir Caravaggio, 1610. 

3 thoughts on “Siðferði listamannsins

  1. Þetta er áhugaverð pæling hjá þér Ransu, og á við mikið víðar. Það er til dæmis sumum erfitt að vinna með hemspeki Martin Heidegger eða Paul de Man vegna tenginga þeirra við nasistaflokkinn. Sama á við um bókmenntir Jorge Luis Borges sem var í slagtogi með illræmdustu herforingjastjórn Argentínu. Svo er áhugavert að færri fordæma Sergei Eisenstein eða Alexandr Rodchenko, sem vitaskuld unnu í samvinnu við ríkisstjórn Stalíns. Það er auðvitað tvennt ólíkt, hvernig heimspeki eða listir hefur áhrif á siðferði eða vinnur með siðferðileg álitamál, eða siðferðileg breytni listamannsins sjálfs. Svo eru til listamenn eins og Baudelaire eða Andy Warhol, sem litu svo á að siðferðileg breytni þeirra, sem andóf við borgaralegu samfélagi, væri samofin listaverkum þeirra; þarna erum við tala um lífstíl sem list, ekki satt?

  2. Jú, Warhol var á lífstílslistamaður og ekki má gleyma Joseph Beuys í því sambandi.
    Kvikmyndin Birth of a nation eftir DW Griffith er líka merkileg samanber siðfræði og list. Þetta er í raun fyrsta stórmynd kvikmyndasögunnar, oft kölluð Birth of cinema, og er stórbrotin mynd sem væri vafalaust einhversstaðar í efstu 5 sætum á lista alþjóðlegra kvikmyndagagnrýnanda yfir bestu myndir kvikmyndasögunnar ef ekki væru atriði í myndinni sem lyktuðu af þvílíkum rasisma að það hálfa væri nóg.
    Í tilfelli Griffiths er það myndefnið eða listaverkið sjálft sem fer yfir viss mörk í garð blökkumanna, enda varð kvikmyndin til þess að Ku Klux Klan samtökin voru endurlífguð eftir að hafa legið niðri 100 ár, eða svo. Slík voru áhrifin.
    Á þá að upphefja slíka list vegna þess að hún brýtur blað í kvikmyndasögunni eða að reyna að fela hana sakir þess að hún fer yfir viss siðleg mörk?
    Griffith ætlaði sér aldrei neitt illt, að eigin sögn.
    (Þetta er efni í annað blogg).

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: