Umbrot og myndskreyti

Á sýningunni Koddu sem opnuð var í Nýlistasafninu um nýliðna helgi var listaverk þar sem búið var að taka eintak af bók og endurvinna það með „blandaðri tækni“. Svo sem ekkert sérstakt við gjörninginn, nema hvað um var að ræða nokkuð augljósa vísun í vinnuaðferðir Dieters Roth. Verkið var auk þess unnið í afar dýrt eintak af bókinni Flora Islandica sem gefin var út af bókaforlaginu Crymogea fyrir tveimur árum. Bókin var í reynd endurprentun af myndskreytingum Eggerts Péturssonar við Íslenska flóru sem gefin var út fyrir rúmum tveimur áratugum. Á vefsíðu forlagsins segir m.a. þetta um bókina:

Nú eru flóruteikningar Eggerts Péturssonar í fyrsta sinn gefnar út í heild sinni í upprunalegri stærð á einni bók. Afraksturinn er ein glæsilegasta útgáfa á verkum íslensks listamanns fyrr og síðar. Teikningunum er raðað í grasafræðilegri röð og hverri teikningu fylgir texti Ágústs H. Bjarnasonar um viðkomandi háplöntu. [sjá nánar á: http://www.crymogea.is/Baekurnar/NyjustuUtgafur/FloraIslandica/]

Nú ber svo við að bókaforlagið sem gaf út umrædda bók bað um að listaverkið þar sem bókin hafði verið notuð yrði fjarlægt af sýningunni vegna þess að forlagið taldi að það að nýta hana á þennan umbreytta hátt væri brot á sæmdarrétti Eggerts Péturssonar, en hann er sá sem gerði myndskreytingarnar. Það sérkennilega gerðist síðan í framhaldinu að stjórn Nýlistasafnsins ákvað að verða við þessari beiðni og fjarlægði listaverkið af sýningunni.

Sæmdarréttur

Lög um höfundarétt eru (í orði kveðnu) sett til þess að tryggja listamönnum, eða höfundum verka, vissa stjórn yfir verkunum og endurgerð þeirra. Þetta felur m.a. í sér að ekki má gera eintök af útgefnum verkum á leyfis höfundar. Rétturinn til eintakagerðar er í höndum höfundar. Þetta felur í sér að ekki má gefa út afrit af verkum án leyfis, né birta myndir af verkum höfundar án þess að greiða samtökum listamanna fyrir.
Eitt atriði höfundaréttar er nefnt „sæmdarréttur” og felur í sér að ekki megi skrumskæla „original” listaverk þannig að það vegi að heiðri og æru listamanns. Þessi réttur kemur fram í fjórðu grein íslenskra laga um höfundarétt:

Óheimilt er að breyta verki höfundar eða birta það með þeim hætti eða í því samhengi, að skert geti höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni. [sjá nánar: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1972073.html]

Er þess að vænta að það séu þessi ákvæði sem Crymogea ber fyrir sig, og sem stjórn Nýlistasafnsins ákvað að taka tillit til við ákvörðun sína.

Bók verður að listaverki

Í sýningunni á Nýlistasafninu hafa listamenn tekið eitt af 500 útgefnum eintökum bókarinnar, sem óneitanlega er höfundarverk Eggerts, og umbreytt þessu ákveðna eintaki í listaverk á afar afdrifaríkan hátt. Greinilegt er að útgefanda Eggerts þykir þetta geta „skert höfundarheiður hans eða höfundarsérkenni”.
Það sem í reynd hefur átt sér stað í Nýlistasafninu er það að búið er að taka eitt eintak bókarinnar og eyðileggja það sem bók. Þessi bók sem var til sýnis í Nýlistasafninu bar eftir breytinguna með sér afar fátt sem tengdi hana við verk Eggerts. Ætla má af því sem aðstandendur sýningarinnar sögðu að markmið verksins hafi verið gagnrýnið, ekki á teikningar eða vinnu Eggerts við myndlýsingar, heldur á það að í kjölfar hruns hafi verið gefin út dýrasta bók aldarinnar þar sem hvert eintak kostaði tugi þúsunda. Það að eyðileggja eintak af þessari ákveðnu bók var ekki beint gegn Eggerti heldur gegn vissri hugsun í þjóðfélaginu, og til þess að benda á að sú hugsun væri ennþá við lýði í þjóðfélaginu eftir hrun.

Aðlöguð listaverk

Það sem átti sér stað í Nýlistasafninu var því greinilega það sem almennt er kallað „aðlögun” listaverks í íslenskum lögum. Á sama hátt og réttur höfundar til þess að stýra eintakagerð og birtingu verka sinna er tryggður í höfundarlögum, þá er einnig skýrt tekið fram að aðrir listamenn megi nýta eintök af verkum annarra við gerð nýrra verka. Þegar þetta á í hlut tryggja höfundarlögin rétt þess sem breytti verkinu ekki síður en rétt þess sem gerði upphaflega verkið. Sá sem aðlagar verk á rétt á því í hinni breyttu mynd þess, og ef breytta verkið er „nýtt og sjálfstætt” þá taka lögin það skýrt fram að þá sé „hið nýja verk óháð höfundarétti að hinu eldra”. Þessi réttindi listamanna eru tryggð í fimmtu grein höfundalaga:

Sá, sem þýðir verk, aðhæfir það tiltekinni notkun, breytir því úr einni grein bókmennta eða lista í aðra eða framkvæmir aðrar aðlaganir á því, hefur höfundarétt að verkinu í hinni breyttu mynd þess. Ekki raskar réttur hans höfundarétti að frumverkinu.

Nú hefur verk verið notað sem fyrirmynd eða með öðrum hætti við gerð annars verks, sem telja má nýtt og sjálfstætt, og er þá hið nýja verk óháð höfundarétti að hinu eldra. [sama vísun]

Alvarleg aðför að höfundarétti !

Að mínu mati er sú aðgerð sem gerð var á tilteknu eintaki á bók Eggerts Péturssonar afar mikil breyting á tilteknu eintaki. Í reynd er bókin notuð sem grunnur fyrir fullkomlega nýtt listaverk; það er fátt sem stendur eftir af upphaflegu bókinni nema umgjörðin – sem er einmitt punkturinn í gagnrýnni áherslu veksins. Það er ansi langsótt að ætla að höfundar verksins í Koddu hafi hafi það markmið að leiðarljósi að „skerða höfundarheiður eða sérkenni” Eggerts við gerð og framsetningu verksins. Þvert á móti notuðu þeir sér bókina og afar umfangsmikla umgjörð hennar til að gera fullkomlega „nýtt og sjálfstætt” verk. Út frá lögunum er skýrt að sú aðgerð raskar í engu höfundarétti Eggerts að bók sinni, enda erfitt að sjá hvernig nýja verkið gæti gert það. Lögin tryggja hinsvegar höfundarétt að hinu nýja verki á óyggjandi hátt, og þá staðreynd að það sé „óháð höfundarétti að hinu eldra”.
Vegna þessa er krafa Crymogeu og ákvörðun stjórnar Nýlistasafnsins um að taka verkið af sýningunni alvarleg aðför að höfundarétti þeirra sem gerðu verkið í Nýlistasafninu. Verkið er klárlega „nýtt og sjálfstætt” og tengist ekki höfundarverki Eggerts beint á neinn hátt. Höfundar verksins í Nýlistasafninu eru þeir einu sem mega höndla með höfundarétt þess. Það að fjarlægja verkið tryggir á engan hátt „höfundarheiður og sérkenni” Eggerts Péturssonar, en er hinsvegar aðför að höfundarheiðri þeirra sem gerðu verkið sem fjarlægt var.
Ég vil því skora á stjórn Nýló að virða heiður höfunda og setja verkið upp á ný til sýningar. Ég skora einnig á stjórn Nýló að biðja höfunda verksins og aðstandendur sýngarinnar afsökunar á frumhlaupi sínu og aðgerðum, sem stangast greinilega á við höfundalög.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: