Forsíða símaskrárinnar frá 2000–2010

Forsíða símaskrárinnar á sína sögu en hún hefur tekið miklum og örum  breytingum á þessari öld.

Árið 2000 hafði skapast sú hefð að skreyta forsíðu símaskrárinnar með mynd af sígildu listaverki eftir meistara íslenska módernismans er sýndi einhverja náttúruperlu eða náttúruímynd.  Árið 2000 prýddi hins vegar eldheit Reykjavíkurmynd Ásgríms Jónssonar forsíðu skrárinnar.

 

Árið 2002 þóttu það tíðindi þegar verk eftir Kristínu Jónsdóttur frá Munkaþverá urðu andlit símaskrárinnar sakir þess að listaverkin voru eftir konu, en karlarnir höfðu einokað símaskrána fram til þessa.

 

Ári síðar voru það svo Vestmannaeyjamyndir Júlíönu Sveinsdóttur sem römmuðu inn nöfn allra landsmanna sem áttu síma.

 

Árið 2004 gerðist svo undraverður hlutur, eitthvað sem mönnum hafði ekki órað fyrir í upphafi aldarinnar.  Listaverk eftir lifandi listamann, samtímalistamann, voru prentuð á baksíðu og forsíðu skrárinnar.  Sá útvaldi var Hrafnkell Sigurðsson og myndirnar voru af tjöldum sem standa í líki fjalla í snævi þakinni náttúru.

 

Myndir Hrafnkels þótti sigur fyrir íslenska samtímalist eins og hún lagði sig.    Ég man vel eftir því að aðrir listamenn tóku í höndina á honum (ég líka) og óskuðu honum til hamingju með heiðurinn að vera með listaverk sitt á símaskránni. Hann var jú fulltrúi okkar allra gegn íhaldsseminni og í langan tíma á eftir var Hrafnkell umtalaður sem „listamaðurinn utan á símaskránni”.  Mig minnir meira að segja að Gallerí i8 hafi haldið sérstakt teiti til heiðurs Hrafnkeli og nýju símaskránni.

En upphafningin stóð stutt yfir og ári síðar var forsíðunni hent inn í Listaháskóla Íslands þar sem nemendur máttu spreyta sig á henni næstu 2 árin og sá/sú sem þótti eiga bestu forsíðuna fékk einhverja nokkra þúsundkalla fyrir. 

 

Árið 2008 og 2009  kom það í hlut hins snjalla teiknimyndahöfundar Hugleiks Dagssonar að gera símaskrána skemmtilega.  Á einni forsíðunni teiknaði hann Jólaköttinn en á hina villtar kýr.   Þetta voru einstaklega óaðlaðandi forsíður en að sama skapi einu símaskrárnar sem ég hef flett í gegn, mér til gamans.

 

Í dag kom út símaskráin 2010.  Fyrir forsíðu hennar var efnt til almennrar samkeppni. Niðurstaðan úr 1530 innsendum tillögum var að hafa krakkalegt Crayola krot sem segir „mundu mig, ég man þig”.

 

Og allt í einu sakna ég íhaldsseminnar framan á símaskránni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: