Róið á röng mið

Þann 25. nóvember síðastliðinn lagði Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, fram þingsályktunartillögu, undirritaða af honum sjálfum, Ásbirni Óttarssyni, Arndísi Soffíu Sigurðardóttur, Björgvini G. Sigurðssyni, Gunnari Braga Sveinssyni, Jóni Gunnarssyni, Ragnheiði E. Árnadóttur, Sigmundi Erni Rúnarssyni, Sigurði Inga Jóhannssyni, Tryggva Þór Herbertssyni, Unni Brá Konráðsdóttur og Vigdísi Hauksdóttur, um að fela mennta- og menningarmálaráðherra að koma upp íslenskri handverksdeild í Listaháskóla Íslands. 

 

Það er virðingarvert hjá þingmönnunum að vilja efla handverkskennslu á Íslandi og er ég sammála því sem segir í greinagerð með tillögunni að: „það [hafi] skort á að þessum verkmenntaþætti sé sinnt í íslenska skólakerfinu en hann er ýmist sjálfsprottinn eða líður fram mann fram af manni í hefðum, reynslu og verksviti.[1]  Hins vegar er tillaga um handverksdeild í Listaháskóla Íslands vita vonlaus frá upphafi því Listaháskóli Íslands er ekki stofnun til að sjá um kennslu á: „prjónlesi, útskurði, rennismíði, járnsmíði [eða] mótun í leður og bein” .[2]   

 

Listhugtakið hefur verið notað til að aðgreina skapandi greinar frá verkgreinum allt frá dögum endurreisnarinnar.  Á miðöldum, eða fyrir daga endurreisnarinnar, var myndlist álitin eingöngu tæknilegs eðlis og greinar á borð við veflist, málaralist og höggmyndalist voru í flokki með skósmíðum, fjölleikum, eldamennsku, og veiðum, svo eitthvað sé nefnt.[3]  Þetta voru greinar sem talið var unnt að kenna hverjum sem er.  Ímyndunarafl, frumleiki eða listrænt sjálfræði var ekki með í myndinni.  Eftir að listinni var gefinn fagurfræðilegur mælikvarði og fagurlistirnar fimm (málaralist, höggmyndalist, byggingalist, skáldskaparlist og tónlist) urðu til, héldu handverk og listir hvor sína leið.

 

Listaháskóli Íslands styðst við fagurlistirnar þegar kemur að sundurgreiningu deilda. Byggingarlistin fellur undir hönnunarsvið skólans en tónlist og myndlist eru sjálfstæðar deildir og þeirri síðarnefndu er þó ekki skipt niður í samræmi við fagurlistirnar líkt og gert var í Myndlista og handíðaskólanum á sínum tíma.  Ef eitthvað þá er frekar hvatt til þverfaglegrar listsköpunar sem brýtur upp listkerfi fagurlistanna og fjarlægist handverkið enn meira en nokkru sinni áður, enda er fagurfræði ekki lengur einráður mælikvarði á listgildið.  Hugmyndagildið vegur nú þyngra, ef við á annað borð setjum fegurðargildi og hugmyndagildi á vogaskálarnar.  

 

Listaháskóli Íslands kennir ekki handverk.  Tillagan um að koma upp íslenskri handverksdeild í skólann mun því ekki fá meðbyr hjá háskólasamfélaginu þegar hún verður send þangað til umsagnar, þ.e. ef hún kemst svo langt.   Þetta er vanhugsuð tillaga og víst er að þingmennirnir hafa ekki ráðfært sig við forsvarsmenn listaháskólans, hvorki rektor né deildarstjóra myndlistardeildar eða hönnunarsviðs.  Listaháskóli Íslands er sjálfseignarstofnun sem starfar á framlagi ríkisins. Það er samt ekki í verkahring alþingis eða mennta- og menningarmálaráðherra að kveða á um stefnu skólans í listkennslu.  Hvað þá að stofna þar deildir.  Að því leyti eru vinnubrögð Árna og félaga vægast sagt einkennileg.

 

Ég vil samt ekki draga úr mikilvægi þess að efla kennslu í handverki. Þvert á móti vona ég að þingmennirnir haldi því markmiði til streitu.  Þeir þurfa bara að róa á önnur mið en Listaháskóla Íslands.  Sennilega væri Tækniskólinn, sem stendur í ströngu við að mennta landann í ýmsum iðn- og verkgreinum, best til þess fallinn að halda utan um handverksdeild og kenna tæknina við útskurð, járnsmíði og mótun í leður og bein.  Enn betra væri þó ef þingmennirnir tækju forystu í að stofna nýjan skóla, Handverkskóla Íslands.  Þá fyrst gætu listir og handverk fengið að vaxa á Íslandi í friði frá hvoru öðru.

 

 

Jón  B. K. Ransu

 

 

 

Heimildir


[1] Árni Johnsen:  Tillaga til þingsályktunar. http://www.althingi.is/altext/139/s/0328.html /  25/11/2010/sótt 09/01/2011.

[2] Sama síða

[3] Shiner, Larry: The Invention of Art  – A Cultural History. University Chicago Press, 2001.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: