Vandinn við hið ómetanlega

Í Fréttablaðinu í dag lýsir Knútur Bruun lögfræðingur Myndstefs því áliti sínu að Ólafur Elíasson, við gerð ljósmyndaverks sínu um jeppa í ám, sé „nú farinn að nálgast það ansi mikið að taka höfundarverk annarra; þessara ljósmyndara. Það er alveg á mörkunum að það sé hægt að gera það án þess að á leyfi”. Síðar í blaðinu kemur fram að Ásbjörn Óttarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks hafi gagnrýnt listamannalaun í umræðu á Alþingi : „Af hverju geta þessi listamenn ekki farið að vinna og komið sér í eðlilega vinnu eins og allt venjulegt fólk?” Það er svo sem ekki augljóst hvað þessar fréttir eiga sameiginlegt, nema auðvitað að þær fjalla báðar um listir og listamenn. Þó er svo að báðar byggja þær á sömu forsendum, eða fordómum – því að sá jarðvegur sem þær eru sprottnar úr byggir á sífellt meiri erfiðleikum í samfélagi voru við það hvernig eigi að bregðast við því ómetanlega.

Frá sýningu á verkum Errós sem nú stendur yfir í Hafnarhúsinu. Þegar verkin voru gerð, un 1959, hafa þau varla þótt pappírsins virði. Nú, án þess að þau hafi nokkurn tíma verið seld, taljast þau ómetanleg fyrir íslenskan almenning að njóta.

Þegar lögfræðingur Myndstefs, sem eru samtök sem eiga að gæt réttinda myndhöfunda segir það á mörkunum að listamaður, myndhöfundur, geti tekið höfundarverk annarra án leyfis, þá erum við einmitt að kljást  við kjarnann í þessu vandamáli. Knútur, sem hefur um áratugi fjallað um réttindi listamanna, getur ekki á afgerandi hátt skorið úr um hvort Ólafur hefði þurft að biðja um leyfi eða ekki. Hvernig stendur á því, þar sem réttindi og höfundarréttur listamanna eru tryggð með lögum, lögum sem Knútur hefur sótt stíft að sé fylgt í gegn um árin?

Skýringin á því liggur í hinu ómetanlega. Franski heimspekingurinn Jean-Luc Nancy telur að í hagkerfishugsun samtímans, þar sem auðhyggja er óneitanlega ráðandi hugmyndafræði, sé mönnum í auknum mæli erfiðara um vik þegar við þeim blasa auðæfi sem eru ómetanleg. Skoðun Nancy er sú að viðamikill og mikilvægur hluti mannlegs lífs felist í því sem ekki er hægt að leggja mælikvarða á, því sem er ómetanlegt. Á meðal þess sem það á við telur Nancy meðal annars vera ást, list og hugsun. Hér sé um þætti sem gefa lífinu gildi, en ekki sé hægt að meta hvert það gildi er í raun. Auðhyggjan, eða kapítalisminn, knúin rökhyggju, hneigist á hinn bóginn til
að reyna að fella allt mannlegt líf og breytni undir sama mælikvarðann — peninga. Peningar eru sá mælikvarði sem tilraun er gerð til að fella allt
mannlegt undir, í ljósi hagkvæmni og skipulags. Menn reyna eins og þeir geta að fella fleira og fleira undir þennan mælikvarða, alveg óháð því hvort það sé annaðhvort mögulegt eða æskilegt.

Því er ekki að neita að peningar eru öflugt og hagnýtt tæki, og að notkun þeirra auðveldar margvíslegar tegundir mannlegra samskipta. Á hinn bóginn er þó nauðsynlegt að líta til þess að allt verður ekki undir sama mælikvarðann fært, og að það sem við teljum oft það mikilvægasta í lífinu er iðulega það bæði þrátt fyrir, ef ekki beinlínis vegna þess að það fellur ekki undir mælikvarða fjármagnsins. Hér erum við að ræða um andlegt ríkidæmi eða verðmæti, ást, list og hugsun. Það er ekki nóg með að þessi verðmæti séu ómetanleg, heldur er það svo að þegar litið er fram hjá því þá veldur það vandræðum í annars góðri og skipulegri framkvæmd auðvaldskerfisins. Það að auðvaldið sættir sig ekki við að allt er ekki hægt að setja undir sama hatt hefur í gegn um tíðina valdið hvað mestum vandræðum innan þess kerfis. Það er vegna þessa, meðal annars, sem að smásmugulegir listmunir geta, án sýnilegrar ástæðu, sveiflast gífurlega til í verði, jafnvel svo að ljósmynd sem fyrir örfáum árum þótti alls ekki merkileg að neinu leyti er allt í einu orðin meir en 150 milljóna króna virði. Það er ekki vegna þess að hún sé verðlaus. Það er vegna þess að í grunninn er verðmæti hennar ómetanlegt. Vegna þess getur það gerst að verð sem hún er seld á fjúki skyndilega upp úr öllu valdi.

Það að listin, eða að minnsta kosti sú list sem einhvers er virði, er í grunninn ómetanleg, hefur í auknum mæli skapað vandkvæði innan verðmætakerfisins sem í auknum mæli leitast við að meta allt á grundvelli peninga. Þetta hefur meðal annars lýst sér í því að verk sem í upphafi hafa verið verðlagðar á lágu verði, eða hafa þótt svo ómerkileg að engum datt í hug að kaupa þau, geta skyndilega vakið athygli, og í kjölfarið selst fyrir óskaplega háar upphæðir. Fyrr á tímum skeði það oft að snillingarnir sem gerðu þessi ómetanlegu listaverk lifðu áfram í fátækt á meðan þeir sem höfðu keypt þessi ómetanlegu verk fyrir lágar upphæðir hirtu afraksturinn af snilligáfu listamannanna. Það var af réttlætiskennd, þessvegna, sem löggjafinn setti lög til að tryggja snillingunum hluta í hagnaðinum sem hvenær sem er og skyndilega gat orðið til. Á því byggja höfundarlögin, að höfundar og ættingjar þeirra njóti þess í þeim örfáu tilvikum sem verk þeirra verðleggjast upp úr öllu valdi.

Það er þetta sem liggur að baki höfundarverndinni sem Knútur Bruun er að vinna að. En í því tilviki verður þó einnig ljós helsti agnúinn sem er á þessu kerfi : Það er nefnilega síður en svo auðvelt að meta hvenær eitthvað sem einhver gerir verður í raun að höfundarverki, hvað þá að meta hvenær höfundarverkið verður ómetanlegt. Það er nefnilega svo að oft á tíðum er ekki ýkja mikill munur á hlut sem verður til fyrir ætlan höfundar, eða sem verður til fyrir tilviljun, í öðru en listrænum tilgangi. Á sama hátt er í eðli sínu ómögulegt að búa til mælikvarða um snilligáfu, um það hvenær verk einhvers verður í raun og veru ómetanlegt – það gefur auga leið : ef hægt er að fella verkið undir einhverskonar mælikvarða, þá verður verkið ekki lengur ómetanlegt.

Til að auðvelda sér þetta – það að þurfa að meta ómetanleika hvers verks fyrir sig, án mælikvarða – þá hafa menn iðulega brugðið á það ráð að fella heilu greinarnar undir höfundarhugtakið, og þar með undir listhugtakið, óháð innihaldi. Þannig verða öll málverk í eðli sínu ómetanleg listaverk, og höfundarvarin. Að sami marki verða allar ljósmyndir taldar vera ómetanleg listaverk, og höfundarvarin að sama marki.

Þetta virkar einfalt, og skynsamlegt, þar til að jaðartilfellin hrannast upp og það að listamenn eru í eðli sínu öllum skilgreiningum og mælikvörðum andsnúnir – skiljanlega. Það er vegna þessa sem menn komast í bobba þegar venjuleg veggmálning, sem enginn taldi list, verður allt í einu ómetanlegt listaverk þegar Ívar Valgarðsson er búinn að rúlla gífurlega oft yfir sama flötinn og skera afraksturinn niður í kubba, kubba sem hljóta verðgildi sitt á handahófskenndan hátt eins og önnur listaverk. Það er einnig þess vegna þegar Knútur Bruun kemst í bobba þegar hann þarf allt í einu að verja ljósmynd sem svo augljóslega var víðsfjarri því að vera listaverk eða meðvituð listræn athöfn, sem einmitt höfundarverk. Í tilviki Ívars þá var það samhengið sem gerði málninguna að listaverki. Í tilviki Ólafs Elíassonar á það sama við um ljósmyndirnar. Þær voru einskis virði og víðsfjarri öllum hugmyndum um höfundarverk þar til þeir sem tóku þær sáu þær í verki Ólafs. Þegar ljósmyndirnar voru sýnilega orðnar ómetanlegar rak ljósmyndarann sem tók tækifærismyndina í rogastans, og taldi að ef til vill ætti hann rétt á að fá hlutdeild í ómetanlegu verðgildi verksins. Gallinn var bara sá að Ólafur hafði farið framhjá markaðnum með verðgildi verksins. Ólíkt öðrum verkum, sem eru seld fyrir handahófskennda upphæð, þá hafði Ólafur gefið verkið almenningi, án þess að nein tilraun hefði verið gerð til að búa til verðmiða á það. Þannig var verkið óneitanlega ómetanlegt án nokkurra tenginga við peningakerfið.

Og þar komum við að hinu málinu. Það er nefnilega menningarleg hefð fyrir því að stjórnvöld hér og þar og allsstaðar hafa haft talsverðan skilning á vandamálum sem tengjast því þegar reyna á að fella ómetanlega hluti undir jafngildisstefnu markaðarins. Vegna þessa hefur mörgum þótt æskilegt að losa listamenn og hugsuði (ég veit ekki með elskendur) undan þeirri áþján sem því fylgir að vera að markaðssetja það sem í grunninn er ekki markaðsvara. Fyrr á tímum var algengt að þjóðhöfðingjar, og aðrir höfðingjar, tækju listamenn og heimspekinga undir sinn verndarvæng og héldu þeim uppi þannig að þeir gætu áhyggjulausir sinnt list sinni eða hugsun, án þess að hafa áhyggjur af framfæri sínu. Þessir listamenn og hugsuðir gátu þá unnið verk sín af heilindum, og sannfæringu, í þágu heildarinnar. Mörg þeirra tónsmíða, málverka, bygginga og höggmynda sem unnar voru á þennan hátt voru því aldrei seldar. Þær féllu í hlut þeirra sem studdu listamennina, eða í hlut almennings sem gat notið þeirra, og urðu að lokum öllum til yndis – en það er það sem það ómetanlega er yfirleitt : fólki til yndis, ómetanlegs yndis.

Oftast voru það opinberir aðilar sem stóðu af slíkum höfðingsskap, þótt dæmin um einkaaðila hafi einnig verði fjölmörg. Besta dæmið um slíkt er vitaskuld þegar Theo Van Gogh keypti um árabil öll málverk Vincents bróður síns. Honum fannst nauðsynlegt að bróðir sinn gæti áhyggjulaus haldið áfram að gera ómetanleg listaverk og hélt honum þessvegna uppi. Til þess að særa hann ekki lét hann sem að verkin seldust á markaði, væru tæk markaðsvara, sem þau vitaskuld voru ekki. Vincent náði því að vinna ötullega að list sinni í skjóli bróður síns. Theo, hins vegar, átti eftir að uppskera ríkulega eftir að Vincent var allur, vegna þess að af einhverjum ástæðum kom að því að aðrir en hann báru skynbragð á hversu ómetanleg málverki voru og voru þessvegna tilbúnir til að greiða háar upphæðir til að fá að njóta þeirra.

Í lýðræðisríkjum nútímans hefur hlutverk prinsins eða konungsins, að styðja við sköpun þess ómetanlega, orðið í auknum mæli á könnu ríkisvaldsins, sem deilir fé úr sameiginlegum sjóðum til uppbyggingar samfélagsins. Hluti af þeirri uppbyggingu er að hlúa að listum og hugsun, því sem er ómetanlegt, að gera listamönnum mögulegt að vinna að listsköpun sinni án þess að hafa áhyggjur af því hvort markaðurinn setji einhverja handahófskennda upphæð á verkin þannig að þeir geti framfleytt sér. Þegar menn gera ómetanlega hluti, eins og Van Gogh, þá er engan veginn hægt að treysta því að markaðsöflin nái að styðja við þá. Reynsla sögunnar sýnir það að auk markaðarins verður almenningur, ríkið, einnig að koma að málum og styðja við list og hugsun. Það er eina leiðin til að ástin fái blómstrað!

Það má því vera ljóst að þegar hið ómetanlega er til umfjöllunar, koma úrlausnarefnin nú sem fyrr til með að vera flókin og margbreytileg. Enn sem fyrr verður að meta gildi verka á forsendum hvers og eins, þar er ekki hægt að setja skýra mælikvarða, eins og hvort um ljósmynd eða málverk er að ræða. Að sama skapi verður samfélagið, ef það á að geta vaxið og dafnað á andlega sviðinu, einnig að halda áfram að hlúa að hinu ómetanlega og gefa fólki færi á því að skapa þannig hluti, listaverk og heimspekihugleiðingar. Það er eitthvað orðið skrýtið við samfélag sem telur bara vinnu sem snýr að því að framleiða söluvarning og að sýsla með peninga „eðlilega vinnu fyrir venjulegt fólk”. Samfélag þar sem lífið er þess virði að lifa því verður einnig að gera ráð fyrri því að eðlilegt fólk hafi áhuga á því að vinna, eðlilega, við það að skapa ómetanleg gæði. Það er nefnilega oft ekki fyrr en löngu síðar að uppgötvast hvert af þessu eðlilega fólki reynist í raun vera þeirri gáfu gætt að búa til hluti sem reynast ír reynd algerlega ómetanlegir. Hvar værum við stödd ef Theo, í stað þess að styðja við bróður sinn, hefði þvingað hann til að fá sér „eðlilega vinnu eins og eðlilegt fólk”?

One thought on “Vandinn við hið ómetanlega

  1. Tímabær umræða um höfundarrétt….og ekki má gleyma Geirfuglsmálinu í því samhengi.
    Hlutverk Myndstefs er að gæta réttinda listamanna, og var varið mörgum árum og miklum fjármunum að byggja það starf upp, klipið af fjárframlögum til SÍM til að það kæmist á koppinn, svo segja má að myndlistarmenn hafi stutt við stofnun þess nær eingöngu, með því að það eitt listamannasamtaka sætti sig við skerðingu framlaga til að Myndstef gæti orðið til og þjónað öllum listgreinum.
    Eftir að Myndstef komst á koppinn hefur það aðeins rekið 2 mál fyrir dómstólum, en oft hafa verið send bréf og ábendingar sem tekið hefur verið tillit til af þeim sem brotið hafa eða gengið nærri höfundarrétti skjólstæðinga Myndstefs. Ef lesin eru höfundréttarlögin kemur fljótt í ljós að listgreinar eru þar misvel varðar, og ef til vill á myndlistin óræðastan réttinn. Af hverju það er, er ekki gott að segja, ef til vill okkar venjubundna áhugaleysi um okkar mál þar til það brennur á, eða kannski frekar því að í myndlist hefur verið unnið með “tilvísanir” í annarra verk meira en í mörgum öðrum listgreinum. En “tilvísun” í höfundarverk annars listamanns er einn hlutur, leyfi er annar hlutur. Þarf alltaf leyfi?
    Ég held að við myndlistarmenn þurfum kannski sjálf að ræða þessi mál og skoða þau, áður en við getum farið fram á lagasetningar, en ef þörf er á einhverjum lagasetningum, sem ég held að sé, þá þurfi að skilgreina svolítið betur hvað um ræðir. Nútíma listamenn hafa líka notað verk eldri meistara sem skírskotanir eða í ákveðna endurvinnslu af annarri gerð, Erró er nærtækt dæmi og ég man sérstaklega eftir einni amerískri listakonu sem sýnd voru verk eftir í Listasafni Íslands (Close up – bandarísk samtímalist / opnunarsýning á Listahátíð 2004), en viðkomandi málaði nákvæmar kópíur af þekktum verkum 20. aldar og presenteraði einfaldlega sem nákvæmar kópíur (stærð, litur, efnismeðferð). Eins og sagði í kynningu : “Sherrie Levine gerir til dæmis gjarnan eftirmyndir af verkum frægra karlkyns listamanna, en með endurtekningunni reynir hún að má út þá áru sem er einkennandi fyrir hið einstæða listaverk. Í list sinni smeygir hún sér inn í veldi karla og sáir efasemdum um það sem listasagan stendur fyrir.” Reyndar ekki mikil list að mínu mati og ekki veigamikil hugmynd heldur, en þótti það gjaldgeng að vera sýnd á viðurkenndum sýningarstöðum um heim allan. En fyrst og fremst var hugmyndafræði verkanna skýr og ekkert óljóst eða launungarmál hvað listamaðurinn var að gera. Það er annað en þegar látið er í veðri vaka að um frumlega sköpun sé að ræða, þegar í raun er um eftirhermuverk að ræða, jafnvel þó óafvitandi sé, eða verk sem byggir meðvitað á öðru verki án þess að listamaðurinn bæti miklu við hugmyndafræðilega. Í þriðja lagi er svo þekkt að svipaðar hugmyndir koma upp á sama tíma, án þess að um nokkur tengsl milli listamanna sé að ræða, hugmyndin er líkt og “í loftinu” og fæðist samtímis hjá fleirum.
    Í skála Ferðafélags Íslands hefur í mörg ár verið myndaalbúm sem sýnir margar þær bifreiða sem fest hafa í Krossá og fleiri ám á Þórsmerkursvæðinu. Í albúmið hefur verið bætt myndum jafnt og þétt og er stór skemmtun að fletta því og sjá hvað vötnin geta verið varasöm, bæði fyrir ókunnuga og kunnuga, en þarna er t.d. mynd af einum alvanasta rútubílstjóranum inn í Mörk á bólakafi í Gígjökulskvíslinni og fékk hann viðurnefið “kafbáturinn” á eftir. Það er líka eitthvað sérstaklega heillandi við það að skoða myndaalbúmið þar sem maður getur horft út á staðinn þar sem myndirnar voru teknar, og kallað fram myndina af bíl á kafi í sínu rétta umhverfi.
    Ég geng oft með erlenda ferðamenn Laugaveginn, frá Landmannalaugum inn í Þórsmörk, og hef það alltaf fyrir sið að sýna þeim umrætt myndaalbúm, því það segir svo margt sem ekki er hægt að útskýra, fyrir utan hvað það er frábært fyrirbæri sem tilheyrir þessum stað- hreinræktað, sjálfsprottið, organískt alþýðulistaverk sem varð til vegna óskipulagðrar samvinnu ferðafólks, öðru ferðafólki um íslensk öræfi til skemmtunar. Fyrir um það bil tveimur árum (minnir mig) sá ég Ólaf Elíasson fletta af ákefð í gegnum þetta albúm, en hann var þá líka nýkominn Laugaveginn inn i Mörk og var í skála FÍ eins og ég. Skildi ég vel hrifningu hans, enda margbúin að njóta þessara mynda.
    Þegar ég svo sá verkið hans í Listasafni Íslands “Cars in Rivers” gat ég ekki varist því að hnykla aðeins brúnir…….hugsi enn á ný yfir því hvar mörkin liggja varðandi höfundarrétt og kröfunni um frumleika og þess að með myndverki leggi listamaðurinn eitthvað meira til verksins en eingöngu það sem er bein skrásetning eða t.d. vísað til í verkinu, t.d. höfundarverk annars, skrásetning á náttúrufyrirbærum eða annað slíkt. Ég skal viðurkenna að mér fannst myndaalbúmið í skála FÍ miklu betra “verk” en verk Ólafs, enda sjálfsprottið og fullkomlega einlægt. Verk Ólafs er soldið spjátrungslegt og “displaced” á neikvæðan hátt fyrir mér sem þekki þetta svæði og þetta myndaalbúm svona vel. Og þegar maður veit að þessi heimsfrægi listamaður, sem ég virði fyrir margt sem hann hefur gert, hefur ekki einu sinni haft fyrir því að biðja ljósmyndarana sem tóku myndirnar um leyfi eða sagt frá því hvernig verkið varð til, þá verður maður enn meira hugsi yfir því hver er höfundur að hverju……….og hver ætti helst að hafa skilning á höfundarrétti og virða hann eða geta uppruna, en þessi heimsþekkti listamaður? Nema hann vantreysti annað hvort eigin frumleika eða ofmeti hann, eða sé kominn í þá stöðu að eftirspurn eftir verkum hans sé orðin það mikil að hann grípi hugmyndir annarra og geri að sínum, mjög meðvitað………og leysi málið eftirá með gjöfum eins og núna er raunin.
    Ég get ekki samþykkt að Ólafur sé höfundur að þessu verki, en ég get samþykkt að hann hafi fært sameiginlegt verk annara manna í skemmtilegan og frambærilegan búning, þó það hafi verið miklu betra verk þar sem það varð til og í þeim búning sem Ólafur sjálfur sá það fyrst og hreifst af. Hefði hann getið um uppruna verksins hefði hann líka verið á öruggari grundvelli, þá hefði hann sagt “sjáið hvað ég fann, er þetta ekki stórkostlegt” og um leið gefið hinum upprunalegu myndasmiðum kreditið með sér, bent á þetta forvitnilega, sjálfsprottna orginalitet.
    Ég hef nú í fjölmiðlum lýst skoðun minni á eftirhermuverki Todd McGrain á Reykjanesi, en get bætt því við að ég skil svo sem ágætlega að það sé erfitt fyrir marga að skilja að hugverk er eign og nýtur ákveðinnar verndar sem slíkt. Jafnvel hugverk sem er myndlistarverk. Allt of lítil umræða er um slíkt hér á landi. Íslendingar hafa þess vegna sama viðhorf til eignaréttar hugverka og Kínverjar, telja í lagi að stela þeim og kópiera, svo lengi sem þeir sleppa við málsóknir.
    Geirfugl er geirfugl og útliti hans fær enginn breytt. En hugverk sem notar geirfugl sem inntak eða tákn er annars eðlis og engin þörf á að slík verk séu svo gott sem eins.
    Íslendingar eiga langt í land með allt sem snýr að höfundarrétti hugverka. Forrit er t.d. líka hugverk sem nýtur verndar sem eign höfundar síns. Hægt er að sækja um alþjóðlegt einkaleyfi á forriti og vernda það þannig fyrir hermikrákunum. Ekki er hægt að sækja um einkaleyfi á listaverki, en reiknað með því að alvöru listamenn vilji frekar vera taldir frumlegir í sköpun en hermikrákur. Öfugt við geirfuglinn þá eru hermikrákur ekki í neinni útrýmingarhættu. En það er okkar að þekkja þær.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: