Hugleiðingar um David Byrnes “Moral Dilemmas” á Listahátíð, áhrifamáttur fjölmiðla og “dumbing down”

Stórstjarnan David Byrne fyrrum meðlimur hljómsveitarinnar Talking Heads var með eftirminnilega innsetningu á Listahátíð í ár.  “Moral Dilemmas” eða siðferðisklípa á íslensku er verk sem samanstendur af stærðar plaggötum á upplýsingastöndum Reykjavíkurborgar og innihalda valspurningar.  Spurningarnar koma áhorfanda óþægilega á óvart og ganga svo langt að koma honum í nokkurs konar siðferðisklípu.  Hann fær ónot í magann, og uplifar einhvers konar siðferðisklípu.  Hvað er rétt og rangt að gera við tilteknar aðstæður?  Eitt verkið er málað í sterkum gulum lit.  Á ofanverðri mynd eru bláar öryggismyndavélar og fyrir neðan stendur skrifað rauðum stöfum “Bróðir þinn er bankamaður sem hefur hagnast á hruninu.  Hann býður þér hluta af ágóðanum”  Þú  A) Segir yfirvöldum frá honum B) Gefur hluta þinn til góðgerðamála C) Hafnar gjöfinni en þegir.  Ekkert eitt svar er lausn við spurningunni.  Ekkert svar er rétt eða rangt.  David Byrne hittir naglann á höfuðið með pólitískri ádeilu.  Í okkar litla samfélagi þar sem svo til allir þekkja alla þá þekkjum við eflaust einhverja sem hagnast hafa á hruninu hvort sem það er bróðir okkar, systir, mágkona, mágur, nágranni eða vinur vina okkar.

Þrátt fyrir að Siðferðisklípa vísi óhikað í samfélagsumræðu síðustu mánuða á Íslandi ætla ég ekki að fara út í þá sauma hér en sný mér frekar að tæki listamannsins, auglýsingamiðlinum.  Barbara Kruger er listamaður sem notar einnig auglýsingamiðilinn sem tæki við listsköpun og er hún einn sá þekktasti.  Verk hennar einkennast af áhrifamiklum texta sem ná að fanga áhorfandann óvænt sem reynir svo að komast til botns í því hvað listamaðurinn er nákvæmlega að segja.  Þannig koma bæði David Byrne og Barbara Kruger af stað vangaveltum um áhrifamátt auglýsinga og fjölmiðla.

Stjórnvöld í nýfrjálshyggju samfélögum dagsins í dag hafa í auknum mæli fært völd yfir fjölmiðlum á frjálsan markað og takmarkað þannig áhrifamátt sinn og vald til að hafa áhrif á og leiða menningu sem mótar sjálfsmynd almennra borgara.  Hugleiðingar um “dumbing down” er ágætis viðvörun um hvað getur gerst ef gengið er of langt eða þegar stjórnvöld láta menninguna afskiptalausa.
“Dumbing down” samfélagsþróun hefur gengið hvað lengst í löndum þar sem óheft markaðshyggja hefur ráðið ríkjum og afskiptaleysi stjórnvalda af markaði og menningu er viðtekin hefð.  Bandaríkin eru eitt dæmi um slíka þróun en einnig Ítalía, sér í lagi í tíð Berlusconi.  Mynd Morgan Spurlocks er merkileg í þessu samhengi og er ádeila á Mcdonaldsvæðinguna í Bandaríkjunum.  Í heilan mánuð borðar Spurlock ekkert annað en Mcdonalds hamborgara.  Varðandi “dumbing down” menningu á Ítalíu er heimildarmyndin Videocracy eftir sænsk-ítalska Erik Gandini ómissandi.  Mynd um menningu og fjölmiðla Ítalíu en þar er Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu svo til einráður um fjölmiðlana.

Siðferðisklípa David Byrne er eftirminnilegt verk.  Það vekur upp áleitnar spurningar sem eiga fullt erindi í samfélagsumræðu dagsins í dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: