Stjórnlagaþing og taktískar atkvæðagreiðslur

Í grein sem Sverrir Jakobsson ritar  Fréttablaðið í dag hefur hann áhyggjur af því að vi kosningar til Stjórnlagaþings komi vinsældir til með að ráða
miklu. Annars vegar vegna þess að kjósendur eigi þess lítinn kost að kynna sér minna þekkta frambjóðendur til þingsins, sem er sannarlega áhyggjuefni þegar um 500 eru í kjöri. Hins vegar telur Sverrir að aðferð við sætisúthlutun við kosningar til Stjórnlagaþings sé líkleg til að hvetja til „taktískra” kosninga vegna þess að fólk óttist að atkvæði þess hafi
annars „ekkert vægi”. Þessvegna, segir Sverrir, verði „freistandi fyrir kjósanda að setja þjóðkunnan einstakling í fyrsta eða annað sæti til að vera viss um að atkvæði sitt hafi vægi”. Þótt vinsældarslagsíðan sem stefnir í sé
áhyggjuefni, þá er hitt hinsvegar rangt hjá Sverri, að framkvæmd kosninganna sé líkleg til að skekkja niðurstöðuna umfram það. Aðferðin, yfirfæranlegt atkvæði (Single Transferable Vote) hefur einmitt ekki þennan ókost í fö með sér.

Það eru til margar aðferðir við svonefnt „persónukjör” þar sem kjósendur eiga þess kost að forgangsraða þeim sem þeir vilja kjósa. Margar þessara aðferða eru gallaðar á þann hátt sem Sverrir lýsir. Það á hins vegar ekki við um þá aðferð sem notuð verður við kosningu til Stjórnlagaþings. Yfirfæranlegt atkvæði (Single Transferable Vote) er nefnilega með réttu sú aðferð við persónukjör þar sem kjósendur geta einmitt kosið eftir sinni sannfæringu í fullvissu um að hvernig sem þeir greiða atkvæði sitt kemur það ætíð til með að hafa fullt vægi. Þar sem þessi aðferð er nytt við kosningar er reyndin sú að allt að 97-8% atkvæða hafa fullt gildi við val á fulltrúum, ólíkt til dæmis listakosningum á Íslandi þar sem oft er svo að meira en tíundi hluti atkvæða hefur ekkert vægi við val á frambjóðendum.

Ástæða þessa mikla vægis yfirfæranlegs atkvæðis er sú að hvort sem
valdir eru vinsælir eða óvinsælir frambjóðendur í fyrstu sætin hættir atkvæðið yfirleitt ekki að hafa áhrif fyrr en þa hefur nýst að fullu. Það er grundvöllur yfirfærslunnar, atkvæðið heldur áfram að færast niður eftir forgangslista kjósandans þar til það hefur nýst að fullu.

Dæmi um kosningu „vinsælla” í fyrstu sætin

Ef við tökum sem dæmi kjósanda sem velur vinsæla aðila í fyrstu sætin þá sjáum við að þar getur atkvæðið haft veruleg áhrif talsvert niður forgangslista kjósandans. Gefum okkur að kjósandi hafi valið fulltrúa A, B og C í fyrstu þrjár línurnar, og síðan minna vinsæla fulltrúa M og N í fjórðu og fimmtu. Segjum svo að sérhver af A, B og C fái í kosningunni fimmfalt fleiri atkvæði en þarf til að ná kjöri. Þá fer svo með atkvæði þessa kjósanda að A fær 1/5 af atkvæði hans, eða nóg til að ná kjöri. 80% atkvæðisins færist síðan yfir á frambjóðanda B. Ef hann hefur einnig, þegar hér er komið, hlotið fimmfalt fleiri atkvæði en þarf, verður 1/5 þess sem eftir er af atkvæði kjósandans eftir hjá honum, eða 16% (1/5 af 80%). Þá eru eftir
64% af atkvæði þessa kjósanda, sem færist yfir á C. Ef C er einnig það vinsæll að hafa fengið fimmfalt fleiri atkvæði en þarf, þá verður eftir hjá honum 1/5 af því sem eftir er af atkvæði kjósandans, eða um 13% (1/5 af 64%). Þá verða eftir 51% af atkvæðinu, eða rúmlega helmingur, sem fer yfir á frambjóðanda M, þann sem var í fjórða sæti á lista kjósandans. Þegar hér er komið sögu hefur þessi kjósandi átt þátt í kjöri þriggja vinsælla aðila, en helmingur af atkvæði hans nýtist samt sem áður M. Ef við gefum okkur að M nái nú kjöri með rétt rúmlega þeim fjölda sem þarf, segjum með einungis um 10% umframatkvæði, þá nýtist megnið af 51% atkvæðinu hjá M, og einungis 1/11 hluti verður til skiptanna, eða um 5% af öllu atkvæðinu. Þessi atkvæðahluti fer þá yfir á N og nýtist honum í átt að kjöri.

Af ofangreindu dæmi má sjá að atkvæði kjósanda sem velur vinsæla
frambjóðendur í fyrstu kosti nýtist fyrst til að kjósa þá, en flyst síðan niður listann og á þátt í kjöri annarra sem eru minna vinsælir.

Dæmi um kosningu „óvinsælla”

Ef við skoðum nú dæmi, eins og Sverrir nefnir, um kjósanda sem velur
frambjóðendur sem lítinn stuðning hafa í fyrstu sætin, þá sem einungis njóta stuðnings „fámenns hóps persónulegra kunningja”. Sverrir ýjar að því að hætta sé á því að atkvæði slíks kjósanda, sem kýs á þennan hátt samkvæmt sannfæringu sinni, hafi „ekki vægi” í kosningunni. Ímyndum okkur að þessi kjósandi sé sérlega aumingjavænn og velji óvinsæla frambjóðendur í fyrstu 10 sætin, frambjóðendur P, Q, R, S, T, U, V, X, Y og Z. Siðan ímyndum við okkur að hann velji M í ellefta sæti og N í það tólfta. Gefum okkur síðan a enginn af þessum, frá P til Z, fái næg atkvæði til að hljóta kjör. Það sem gerist við þetta, í yfirfæranlegu atkvæði, er að þessir aðilar detta allir út úr kosningunni, eins og þeir hefðu ekki verið í kjöri. Í þessu tilviki myndi atkvæði kjósandans ferðast niður listann, allt þar til það yrði til að styðja við kjör frambjóðanda. Þegar P til og með Z hafa verði felldir úr kjörinu vegna lítils stuðnings, þá endar atkvæði þessa kjósanda allt hjá M, sem er ellefti í röðinni. Þetta atkvæði verður því mikilvægur hluti í því að M er kosinn með 110% atkvæða. Við það nýtist 91% af atkvæði þessa kjósanda við að kjósa M, og restin, eða 9%, fer yfir til N. Algerlega andstætt við það sem Sverrir ýjar að, þá hefur atkvæði þessa kjósanda fullt vægi í kosningunni, þótt hann hafi einungis valið „vini og vandamenn” í fyrstu sætin.

Svo til öll atkvæði hafa vægi

Það eru þessar forsendur við yfirfæranlega atkvæðið, að það hættir í raun ekki að virka fyrr en það hefur haft eitthvað að segja, sem gerir það að verkum að þessi aðferð hentar hvað best í kosningum þar sem ætlast er til að kjósendur kjósi eftir sannfæringu sinni á milli einstaklinga. Í þessu kerfi er þessvegna, gagnstætt því sem Sverrir heldur fram, lítill hvati til að kjósa taktískt, vegna þess að kjósandi sem forgangsraðar fulltrúum af samviskusemi getur einmitt treyst því, óháð því hvaða aðferð hann notar við að velja sína fulltrúa í fyrstu sætin, að atkvæðið hafi sitt að segja í kosningunni. Og, gagnstætt því sem Sverrir heldur fram, þá getur skipt máli, eins og í dæmunum hér að ofan, hvernig kjósandinn raðar frambjóðendum neðar á lista sínum. Þegar hann velur vinsæla frambjóðendur þá nýtist stærri hluti atkvæðis hans neðar. Þegar hann velur óvinsæla kemur atkvæðið einnig til með að ferðast niður listann þar til það finnur fyrir frambjóðanda sem hefur í raun not fyrir atkvæðið.

Sem slík er þessi aðferð við persónukjör mikið betri við að túlka vilja kjósenda en flestar aðrar aðferðir. Hún hentar til dæmis mun betur en allar þær aðferðir sem notaðar hafa verið hingað til við prófkjör hér á landi. Þær aðferðir, þar sem atkvæðið dreifist, en færist ekki á milli, hvetja einmitt kjósendur til að kjósa taktískt, illskásta kostinn til að tryggja að atkvæðið hafi vægi. Það á ekki við um þá aðferð sem valið var að viðhafa við Stjórnlagaþing. Það er nauðsynlegt að minna á það og leiðrétta þessvegna þann misskilning sem kemur fram í máli Sverris. Hann er í raun að hræða fólk til að kjósa taktískt, einmitt þegar þess er alls ekki þörf.En, eins og Sverrir nefnir, þá er það ekki endilega aðferðin við kosninguna sem kemur til með að skipta mestu máli þegar upp er staðið. Vitaskuld er hætta á því að þegar 500 eru í kjöri verði nálægð kjósenda afar lítil við frambjóðendurna og að þeir verði frekar fyrir valinu sem eru ekki endilega hæfastir á þetta þing, heldur eru einfaldlega þekktir fyrir annað. Það er annar handleggur, hvernig kjósandi getur í lýðræðiskerfi náð að kynnast frambjóðendum það vel að hann geti í raun kosið af ábyrgð. Þar eru stór kjördæmi, með miklum fjölda frambjóðenda, vondur kostur. Við það hverfur því miður nálægðin sem persónukjörinu er ætlað að stuðla að. Vonandi tekst þinginu að finna örugga leið til kosninga til þings og ríkisstjórnar í framtíðinni þar sem lýðræðisþátttaka almennings er sem best tryggð, óháð fjárhagslegum bakhjörlum frambjóðenda, eða hvað þeir eru virkir í samkvæmislífinu.

En, eins og Sverrir nefnir, þá er það ekki endilega aðferðin við kosninguna sem kemur til með að skipta mestu máli þegar upp er staðið. Vitaskuld er hætta á því að þegar 500 eru í kjöri verði nálægð kjósenda afar lítil við frambjóðendurna og að þeir verði frekar fyrir valinu sem eru ekki endilega hæfastir á þetta þing, heldur eru einfaldlega þekktir fyrir annað. Það er annar handleggur, hvernig kjósandi getur í lýðræðiskerfi náð að kynnast frambjóðendum það vel að hann geti í raun kosið af ábyrgð. Þar eru stór kjördæmi, með miklum fjölda frambjóðenda, vondur kostur. Við það hverfur því miður nálægðin sem persónukjörinu er ætlað að stuðla að. Vonandi tekst þinginu að finna örugga leið til kosninga til þings og ríkisstjórnar í framtíðinni þar sem lýðræðisþátttaka almennings er sem best tryggð, óháð fjárhagslegum bakhjörlum frambjóðenda, eða hvað þeir eru virkir í samkvæmislífinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: