Eins og að skera úr sér hjartað og ætlast til þess að heilinn dæli sjálfur til sín blóði

Listir hafa fylgt manninum frá örófi alda og eru einn af hornsteinum mannlegs samfélags. Með hjálp listarinnar hefur maðurinn tjáð tilgang og merkingu mannlegrar tilveru og mótað umhverfi sitt. Í listiðkun öðlast einstaklingurinn lífsfyllingu og finnur tilfinningum sínum og hugmyndum farveg. Skólinn er samfélag og þar leika listir sama hlutverk og í þjóðfélaginu í heild sinni“.[1]

Með þessum orðum hefst inngangur að listgreinakafla aðalnámskrár grunnskóla á Íslandi. En í aðalnámskrá, sem er opinber leiðarvísir um hvað skuli kennt í skólum,  er gengið út frá því að listnám fái staðfastan sess í skólum og er það rökstutt m.a. með því að telja til eftirfarandi atriði:

• Listnám stuðlar að alhliða þroska einstaklingsins.

• Listnám eflir sköpunargáfu þar sem listir reyna jafnt á ímyndunarafl og rökhyggju.

• Listnám veitir tækifæri til að þroska fjölbreyttan og persónulegan tjáningarmáta.

• Listnám eflir sjálfsmynd og sjálfsskilning sem er grundvöllur farsældar í lífi og starfi.

• Listnám eykur tilfinningaþroska, félagsþroska og meðvitund um fagurfræði.

• Listnám þjálfar hæfni til þátttöku í menningu samfélagsins.

• Listir eru einn helsti áhrifavaldur samfélagsins.

• Listir eru mikilvæg atvinnugrein.

• Listir eru kveikja hugmynda og nýsköpunar í efnahagslífi og samfélagi manna.

• Listir móta og endurspegla sjálfsmynd og gildismat samfélagsins.[2]

Í aðalnámskrá er i raun merkilega mikil áhersla lögð á listnám.  Svo mikil að ef allir skólar færu eftir markmiðum sem námskráin setur í listkennslu og nemendur myndu ljúka grunnskóla með samskonar þekkingu á listum og lagt er til að nemendur öðlist þá þyrftum við ekki listaháskóla á Íslandi.  Við getum því gefið okkur það að markmið aðalnámskrárinnar séu ekki fyllilega marktæk og að víðs vitandi sé skotið yfir markið, væntanlega til að hvetja til ríkari listkennslu í skólakerfinu en raun ber vitni.  Það virðist samt ekki duga.

Í opinberum gögnum um hlutföll lista í skólakerfinu virðast listgreinarnar spila talsverða rullu.  Hins vegar miðast slík gögn jafnan við allt það sem börnin búa til með höndunum, s.s. þegar þau teikna landakort í landafræði eða kubba borg í samfélagsfræði.  Mér til stuðnings vísa ég í línurit frá Hagstofu Íslands sem ég rakst á í grein eftir Brynjar Ólafssonar aðjúnkt við Menntavísindasvið HÍ, í Netlu sem sýnir að í 1. bekk barnaskóla eru listir og handmenntir nálægt 40% af öllu náminu en þegar komið er í 10. bekk eru listir og handmenntir komnar niður í um 6%.[3]    Þetta virðist mikill munur á milli aldursskeiða,  en segir þó ekkert um stöðu eða hlutföll listgreinanna, heldur segir línuritið okkur að börn fá að „föndra” meira með námsefnið í raungreinatímum eftir því sem þau eru yngri.

Hugmyndin um að nýta listir í raungreinakennslu er reyndar góð og gild og gefur börnum jafnt sem fullorðnum nemendum möguleika á að nálgast námsefni sitt með skapandi hætti.  Ráðamenn á sviði mennta hjá ríki, borg og bæjum eru gjarnir á að skreyta sig með slíkum hugmyndum.  Enda gera margir mikilsmetnir fræðimenn um menntunarmál samtímans (Elliott W. Eisner, Howard Gardner, Ken Robinson o.fl.) ráð fyrir því að nýta listirnar sem kennsluaðferð, þó með ólíkum áherslum.  Hætta er hins vegar á því, þegar mælikvarði á listnámi í skólum miðast við allt það sem er gert í höndunum, að skólayfirvöld skeri á listgreinarnar en ýti þess heldur undir listsköpun í raungreinum.  Að börnin teikni fleiri landakort í landafræði og kubbi fleiri hús í samfélagsfræði.

Ég er reyndar mjög hlynntur því að listir séu notaðar sem kennsluaðferð í raungreinum, en til þess þarf kennara sem hafa grunn að baki til að nota listirnar, eða samstarf kennara sem geta teflt saman raungreinum og listum.  Það er að mínu mati stefnan sem skólar þurfa að taka til að víkka út svið menntunar og miðað við helstu kenningar í kennslufræði samtímans liggur þessi stefna fyrir.  Okkur ber hins vegar að gæta að niðurskurður skólanna bitni ekki á listgreinunum sjálfum og að hlutföllum lista í samræmi við aðalnámskrá sé ekki haldið á floti á fölskum forsendum þar sem listir eru notaðar sem kennsluaðferð raungreina.  Því ef listir eru ekki kenndar sem námsgreinar tapast þekking og kunnátta sem á annað borð þarf til að nota listir sem kennsluaðferð raungreina.  Það er í raun eins og að skera úr sér hjartað og ætlast til þess að heilinn dæli sjálfur til sín blóði.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: