Opið bréf til SÍM, Myndstefs og Listasafns Reykjavíkur um höfundarréttarmál

Talsverð umræða hefur orðið um höfundarréttarmál myndlistarmanna undanfarið vegna framgangs Listasafns Reykjavíkur í því að biðja listamenn um leyfi til birtingar á myndum af verkum þeirra á vef sínum. Í því samhengi tel ég margt vera réttlætanlegt íafstöðu listasafnsins, að því gefnu að safnið skýri afstöðu sína til almannahagsmuna. Því til rökstuðnings hef ég tekið saman nokkra punkta – áherslur – um þessi mál almennt:

1.     Það er frumforsenda í höfundarréttarmálum að við sem listamenn fáum eðlilega hlutdeild í þeim tekjum sem skapast af afurðum verka okkar í ýmsum afritum á prenti, í hljóði og á netinu. Þetta er það sem talsmenn okkar á sviði höfundaréttar eiga að vinna að.

2.     Opinber listasöfn eru styrkt úr almennum og opinberum sjóðum og almennt séð skapast af starfsemi þeirra ekki tekjur einstaklingum til haga. Birting þessara safna af ljósmyndum af verkum myndlistarmanna í takmörkuðum gæðum á vefsíðum er ekki starfsemi sem skapar listasöfnunum tekjustofn.

3.     Starfsemi opinberra listasafna hefur undanfarin ár stundum orðið þeim hætti að um sé að ræða sambland almannahagsmuna og einkahagsmuna.  Hér komu upp dæmi þar sem segja má að stofnanir í opinberri eigu hafi verið hagnýttar í almannatengslaskyni til að styrkja og efla ímynd viðkomandi fyrirtækja. Þetta er  vísir að óeðlilegu samspili einkahagsmuna með almannafé, eða sem hefur í umræðunni verið nefnt public-private scandal.

4.     Ég tel ljóst að þegar ímynd listasafns er eingöngu notuð í almannaskyni sé, út frá liðum 1 og 2 hér fyrir ofan, ekki um að ræða neinar tekjur stofnunarinnar að ræða af birtingu mynda af verkum listamanna.

5.     Ég tel að sama skapi að í þeim tilvikum þegar myndir af verkum listamanna eru birtar í samhengi við ímynd eða vörumerki einkafyrirtækja sé nýting myndanna notuð ímynd fyrirtækjanna til hagsbóta, út frá lið 3 hér að ofan. Þá er um að ræða óeiginlegar tekjur viðkomandi fyrirtækja af myndbirtingunni.

6.     Í ljósi ofangreinds þá vil ég hvetja til þess að SÍM og Myndstef reki höfundarréttarbaráttu sína á skýran hátt út frá því að ekki sé sótt eftir endurgjaldi frá opinberum aðilum sem birta myndirnar einungis í þágu almannahagsmuna, heldur einungis þegar um einkaaðila er að ræða og samvinnu einkaaðila og opinberra aðila.

7.     Ef Listasafn Reykjavíkur ætlar að birta myndir af verkum listamanna á vefsíðu sinni án endurgjalds, sem væri eðlilegt út frá því sem kemur fram hér að ofan, þá þykir mér jafnframt eðlilegt að biðja um að það verði gert á þann hátt að hagsmunaárekstrar í anda pubic-private scandal komi ekki upp. Í þessu tilviki er því forsendan sú að Listasafn Reykjavíkur birti ekki vörumerki einkafyritækis á vefsíðu sinni þar sem birtar eru myndir af verkum listamanna. Eins og er er merki Vífilfells birt í fæti á vefsíðu safnsins – þar verða til hagsmunaárskstrar.

8.     Ef lauslega er rennt yfir listasöfn í nágrannalöndunum þá er misjafnt á hvaða hátt stuðningur fyrirtækja við listasöfn birtist. Oft er hann án hagsmunaárekstra. Louisanasafnið í Danmörku og Moderna museet í Svíþjóð auglýsa ekki fyrirtæki á vefsíðum sínum og eru því að því leyti yfir slíka hagsmunaárekstra hafin, eins og á við um Listasafn Íslands hér á landi. Kiasmasafnið í Finnlandi og Tate Modern safnið í Englandi birta hins vegar merki einkafyrirtækja á vef sínum, eins og Listasafn Reykjavíkur gerir, og því nýta einkaaðilar vefsíðurnar sér til hagsbóta til að styrkja ímynd fyrirtækisins.

9.     Það er rík ástæða fyrir SÍM að berjast fyrir auknum hagsmunum myndlistarmanna á Íslandi. Að mínu mati þurfum við að berjast fyrir verkefnasjóði upp á tugi og helst hundraða milljóna á ári, auk eflingar listamannalauna þannig að þau séu bæði fleiri og taki einnig til kostnaðar við vinnustofu og efniskostnaðar. Við skulum leggja áherslu á þetta.

10. Ég tel hins vegar að við eigum ekki að fara fram á greiðslu frá opinberum aðilum, nema þegar um er að ræða hagsmunaárekstra. Við ættum þvi, að óbreyttu, ekki að ætlast til greiðslna frá söfnum sem eru hafin yfir hagsmunaárekstra, eins og Listasafni Islands. Hvað Listasafn Reykjavíkur áhrærir, þá ættum við að setja þeim úrslitakosti: Annaðhvort að safnið, fyrir hönd Vífilfells, greiði höfundaréttargjald af myndbirtingu á vef safnsins, eða að það fjarlægi merki fyrirtækisins af vef sínum

Með vinsemd og virðingu,
Hlynur Helgason,
heimspekilistamaður.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: