Land þitt er ekki til

Um Feneyjatvíæringinn
og sýningu Ólafs Ólafssonar og Libiu Castro

Víðsjá | RÚV | 5. október
2011

UPPLÝSING er yfirskrift Feneyjartvíæringsins sem opnaði í byrjun júní á þessu ári. Titill sýningarinnar ILLUMI-NATIONS er þannig skemmtilegur orðaleikur er vísar ekki bara til þess að lýsa upp og útskýra, heldur einnig til upplýstra og meðvitaðra þjóða, jafnt sem til hins mikilvæga eiginleika listarinnar að vera í senn upplýsandi og gefandi reynsla fyrir áhorfendur. En það er einmitt eitt af einkennum Tvíæringsins að þar koma saman -með reglulegu millibili- myndlistarmenn frá yfir ólíkum löndum, með mismandi bakgrunn og reynslu í farteskinu, þar sýna þeir verk sín og sjá önnur, um leið og þeir setja þau í samhengi og samtal við umheiminn.

Feneyjatvíæringurinn á sér langa sögu sem nær aftur til ársins 1895. Til hans var stofnað í kjölfar Heimssýninga 19. aldarinnar og allt frá upphafi hefur honum verið ætlað að vera upplýsandi um það sem hæst er á baugi í myndlist á heimsvísu hverju sinni. Sýningin er ein af þeim mikilvægustu slíkra sýninga í heiminum dag, þar sýna listamenn frá um nítíu þjóðlöndum og til Feneyja koma árlega ríflega hálf milljón manna gagngert til að berja sýninguna augum.

Upphaflega fylgdi hún módeli heimssýninganna, að því leyti að þar byggðu stórþjóðirnar sína þjóðarskála, þar sem valdir fulltrúar hverrar þjóðar fyrir sig sýndu verk sín. Á síðari árum hefur þessi áhersla á þjóðernið að mörgu leiti vikið, ekki síst fyrir tilstilli hins merka og áhrifaríka sýningarstjóra Harald Szeemann, en árið 1980 braut hann Þjóðarskála- eða Ólympíuleikahugmyndina upp með því að stofna til utanáliggjandi sýningar með ungum og upprennandi listamönnum síns tíma. En hættan við þjóðarskálana er einmitt sú sem blasir við -svo að segja hverju sinni- að þeir verði líkt og grafhýsi fyrir myndlist gærdagsins.

Ólafur Ólafsson og Libia Castro, Land þitt er ekki til (Feneyjar), 2011. Inngangurinn í íslenska skálann í þvottahúsi Zenobio hallarinnar eða Armenska skólans í Feneyjum.

Strax á öðrum áratugi tuttugustu aldar höfðu fútúristarnir varað við þessari hættu, en þeir töldu þessa smáborgaralegu þjóðrembu og keppnisanda sem birtist í þjóðarskálunum standa í vegi fyrir framtíðinni og lögðu til að þeir yrðu brenndir ásamt öðrum liststofnunum er gerðu ekki annað en að viðhalda óbreyttu ástandi í listinni.

En líkt og í svo mörgu tók skipulag Tvíæringsins á sig nýja mynd á sjöunda og áttunda áratug tuttugustu aldar, þegar tekið var upp á því að vinna út frá sameiginlegri yfirskrift, sem hafði í för með sér að mismunandi og óskyldar sýningar Tvíæringsins hlutu einbeittari og sterkari heildarsvip undir titlum eins og: List og umhverfi, Draumar og átök, Varanleiki mannkyns, o.s.frv.

Önnur meginbreyting á uppbyggingu Tvíæringsins átti sér síðan stað undir stjórn Szeemann á árunum 1999 og 2001, þegar hann var yfirsýningarstjóri, en þá lagði hann allan ítalska skálann undir alþjóðlega sýningu listamanna er leit algerlega framhjá spurningum um uppruna og þjóðerni. Tilhögun sem hefur haldist ætíð síðan, þó nú sé minnimáttarkennd Ítala nóg boðið og þeir hafi á síðustu tveimur sýningum verið með sinn eigin þjóðarkála á sýningarsvæðinu í Skotfærageymslunni, eftir að þeir glötuðu lyklavöldum í skálanum sem þeim var ætlaður á aðalsýningarsvæðinu í Görðunum, þar sem meginhluti þjóðarskálanna er saman kominn.

Ólafur Ólafsson og Libia Castro, Íslenska stjórnarskráin, 2011. Kyrrmynd úr myndbandinu (45.mín.) sem tekið var upp af RÚV í Hafnarborg fyrr á þessu ári.

Íslendingar tóku ekki þátt í sýningunni fyrr en árið 1960, þegar þeir Jóhannes Kjarval og Ásmundur Sveinsson tóku þátt fyrir okkar hönd. Lengi vel var skáli okkar á besta stað á aðalsýningarsvæðinu í Görðunum, en í síðustu þrjú skipti hefur íslenski skálinn -líkt og svo margir aðrir- verið til húsa á mismunandi stöðum í borginni. Að þessu sinni er sýning þeirra Ólafs Ólafssonar og Libiu Castro -ásamt nokkrum öðrum sýningum- til húsa í Zenobio höllinni eða Armenska skólanum, sem er virðuleg heldrimannahöll frá 17. öldinni.

Á stundum verður heimsókn á Tvíæringinn yfirþyrmandi upplifun fyrir sál og líkama, þar sem reikað er á milli fjölbreyttra og ólíkra sýninga, þar sem margslungin myndlist ólíkrar afstöðu og miðla hrúgast upp í vitundunni og erfitt getur reynst að greina á milli þess sem skiptir máli. Oftar en ekki hefur Tvíæringurinn þó sýnt fram á mikilvægi sitt sem vettvangur breytinga og nýjunga í listinni, hann er mikilvægur gluggi til sýningar og samræðu á því sem hæst er á baugi hverju sinni, ásamt því að vera ómetanlegt tækifæri til að bera saman myndlist ólíkra listamanna, þar sem samsláttur og misklíð fjölbreyttra hugmynda allstaðar að úr heiminum er sett í samhengi.

Íslenska framlagið — sýning þeirra Ólafs og Libiu — er skipulögð af Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar, undir stjórn Dorotheu Kirch og í sýningarstjórn Ellenar Blumenstein. Sýningin opnaði sem fyrr sagði í byrjun júní og mun standa til loka nóvember, að hún verður tekin niður og flutt til Íslands, þar sem hún mun opna fyrir gesti Listasafns Íslands í upphafi árs 2012.

Ólafur Ólafsson og Libia Castro, Land þitt er ekki til (Berlín), 2011. Gunnar Snorri Gunnarsson sendiherra, málar eftir númerum í bústað sínum í Berlín.

Ólafur og Libia hafa unnið saman að verkum sínum frá því árið 1997 er þau kynntust við Frank Mohr listaskólann í Hollandi. Í list sinni hafa þau tekist á við þau samfélagslegu-, persónulegu-, pólitísku- og efnhagslegu öfl sem ráða hversdagslegum athöfnum okkar í samtímanum. Verk þeirra hafa vakið mikla athygli og þau hafa sýnt víða á undanförnum árum, jafnt hérlendis sem á alþjóðlegum söfnum og sýningum, ásamt því að fá viðurkenningar fyrir fjölbreytt samvinnuverkefni sín.Ólafur og Libia hafa unnið saman að verkum sínum frá því árið 1997 er þau kynntust við Frank Mohr listaskólann í Hollandi. Í list sinni hafa þau tekist á við þau samfélagslegu-, persónulegu-, pólitísku- og efnhagslegu öfl sem ráða hversdagslegum athöfnum okkar í samtímanum. Verk þeirra hafa vakið mikla athygli og þau hafa sýnt víða á undanförnum árum, jafnt hérlendis sem á alþjóðlegum söfnum og sýningum, ásamt því að fá viðurkenningar fyrir fjölbreytt samvinnuverkefni sín.

Verk þeirra Ólafs og Libiu eru íhugul, oftar en ekki spretta þau af rannsóknum og athugunum af samfélagsfræðilegum toga, þar sem augu þeirra beinast að hlutverkum okkar í kerfi hins síðkapitalíska neysluheims. Þau takast m.a. á við spurningar eins og söguleg skilyrði, sjálfsmyndir, þjóðerni, hagkerfi og afleiðingum þeirra á hugmyndir okkar og atferli.

Þau nýta sér ýmsa miðla við framsetningu verka sinna, jafnt ljósmyndir, málverk, myndbönd, hljóð, texta og margmiðlun, sem innsetningar, gjörninga og inngrip. Þannig sækja verk þeirra í arfleið Fluxus-, Hugmynda- og Venslalistar, þar sem fagurfræði tengsla, samskipta og þátttöku er sett á oddinn.

Ólafur Ólafsson og Libia Castro, Land þitt er ekki til (Feneyjar), 2011. Frá flutningi gjörnings við opnun sýningarinnar In Deconstruction í júní.

Oftar en ekki eru verk þeirra í beinu sambandi við það samfélag og umhverfi sem að þau sýna í hverju sinni, jafnvel þannig að mörk listar og lífs eiga það til að þurrkast út með virkri þátttöku áhorfenda eða annarra samverkamanna. Á undanförnum árum hafa þau m.a. gert verk í samvinnu við tónskáld og kóra, ólöglega innflytjendur og ráðherra, klækjarefi og ummönnunaraðila, þar sem meginmarkmið þeirra hefur verið að vekja áhorfendur til umhugsunar og vera þeim jafnt upplifun sem hvatning til verka í sínu daglega lífi og umhverfi.

Þegar sýning þeirra Ólafs og Libiu í Feneyjum er skoðuð, rekst maður fyrst á verkið Land þitt er ekki til sem er hluti af seríu verka sem þau hafa unnið að síðan árið 2003. Verkið birtist hér í þremur útgáfum; í fyrsta lagi sem stórir bláleitir neon-ljósastafir ofan við innganginn að íslenska skálanum, þar sem skrifað stendur upp á ítölsku Il tuo paese non esiste eða Land þitt er ekki til. Ásamt ljósastöfunum eru tvær aðrar útgáfur verksins á sýningunni; annarsvegar málverk sem sendiherra Íslands í Berlín, Gunnar Snorri Gunnarsson gerði eftir númeruðum leiðbeiningum listamannanna og hinsvegar skrásetning á gjörningi sem framkvæmdur var við opnun sýningarinnar þar sem Ásgerði Júníusdóttur mezzo-sopran er siglt um í Gondola eftir síkjum Feneyja, syngjandi á nokkrum tungumálum við undirleik tveggja hljóðfæraleikara, yfirlýsingu þeirra Ólafs og Libiu um að Land þitt sé ekki til í raddsetningu Karolínu Eiríksdóttur tónskálds.

Íslenska stjórnarskráin er síðan meginverk sýningarinnar, en það byggir einnig á samvinnu við tónskáldið Karolínu og var upphaflega flutt árið 2008, en hér er það sýnt eins og það var unnið í samvinnu við Íslenska Ríkisútvarpið Sjónvarp og Menningarmiðstöðina í Hafnarfirði, þar sem verkið var bæði flutt á tónleikum og sýnt sem myndbandsverk fyrr á þessu ári, ásamt því að það hefur þegar verið sýnt í Íslenska Ríkissjónvarpinu.


Ólafur Ólafsson og Libia Castro, Særing fornra drauga, 2011. Skissa að hljóðverki Ólafs og Libiu á þaki íslenska skálans.

Þriðja verkið Særing fornra drauga er hljóðverk sem sýnt er upp á þaki skálans og er margradda hljóðskúlptúr er byggir á textabrotum úr forn grískri stjórnspeki, bókmenntum og heimspeki, þar sem tvö pör lesa textann á meðan þau njóta ásta. Við fyrstu sýn lætir verkið ekki mikið yfir sér, en við nánari hlustun verður árekstrar ástarleikjanna og textans til þess að vekja okkur til umhugsunar um mótsagnir líkamsnautna og valdsboða, þar sem fornir lagabókstafir opnast fyrir manni í gersamlega nýju samhengi.

Sýning þeirra Ólafs og Libiu á Tvíæringnum í Feneyjum ber yfirskriftina In Deconstruction eða Í afbyggingu og þannig vísar titill hennar óhjákvæmilega til túlkunaraðferða franska heimspekingsins Jacques Derrida -sem fann upp hugtakið- en aðferð hans felur m.a. í sér að leita uppi og raska rótgrónum og gefnum undirstöðum eða hugmyndum er liggja vestrænni heimspeki, fræðum og menningu til grundvallar. Reyna þar með að draga fram mótsagnir þeirra og gera þær sýnilegar svo við getum betur tekist á við það verkefni að skapa nýjar tengingar og byggja upp nýja samfélagssátt sem er laus undan tregablöndnu oki hefðanna og heldur okkur sem föngnum í heimi vanafestu og sinnuleysis.

Á sinn hátt dregur einfaldur viðsnúningur Ólafs og Libiu fram fáránleika og óréttlæti heimsins; því hvað er fáránlegra sem yfirskrift yfir þjóðarskála en Land þitt er ekki til eða Diva á miðjum Canal Grande að syngja um óréttlæti heimsins? Útfærsla verkanna og samhengið sem þau eru sett fram í -ekki síst Íslensku stjórnarskrárinnar við efnahagshrun og þá brotnu hugmyndafræði er lá henni til grundvallar- opna augu áhorfenda fyrir erfiðum kýlum og leyndum meinum íslenskrar samfélagsgerðar. Í það minnsta fór ég út af sýningunni með hangandi haus, því ég var nú búinn að átta mig á því að Land mitt er ekki til!

Einar Garibaldi Eiríksson

 

Krækjur: 

http://www.labiennale.org/en/art/index.html

http://www.libia-olafur.com/

http://www.cia.is/Projects/Venicebiennale/

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: