Nú er runnin upp síðasta sýningarvika merkilegrar sýningar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Þetta er sýningin sýningin “Mitt Frakkland – Ljósmyndir André Kértesz” og er viðburður sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Fyrir þessa sýningu fær Ljósmyndasafn Reykjavíkur enn einn “þumalfingurinn á loft” og nú fyrir að færa okkur sýningu á heimsmælikvarða.
Kértesz er löngu viðurkenndur sem eitt af stóru nöfnunum innan ljósmyndasögunnar, en nafn hans er líka eitt af hinum erfiðari innan þeirrar sögu, ekki aðeins vegna hins ungverska uppruna, heldur ekki síður vegna þess að hann var stöðugt að endurnýja sig sem listamaður. Það hefur því reynst erfitt að staðsetja hann innan hefðbundinna skilgreiningaramma ljósmynda- og listasögunnar, þó fáir velkist orðið í vafa yfir mikilvægi verka hans fyrir framþróun ljósmyndarinnar á 20 öld. Ferill hans var vægast sagt köflóttur, þar sem verk hans ferðuðust ört á milli kastljóss athyglinnar yfir til hins djúpa myrkurs gleymsku og afskiptaleysis. Eftir á að hyggja sér maður glöggt hversu heiðarlega hann kom fram við listræna sýn sína og sannfæringu, með því að fylgja henni staðfastlega án þess að hlaupa á eftir meginstraumum tíðarandans hverju sinni.
Það hefði verið hægðarleikur að setja upp stórkostlega sýningu á úrvali verka Kértesz frá mismunandi tíma ferils hans, en hættan er að sýningarsalur Ljósmyndasafnsins hefði ekki verið nægjanlega stór til að gera fjölbreyttum efnistökum hans tæmandi skil. Slík sýning hefði að öllum líkindum orðið tætingsleg og ekki náð að varpa skýru ljósi á myndhugsun hans. Það er því aðdáunarvert að sjá þetta úrval Parísarljósmynda hans frá þriðja og fjórða áratugnum, þar sem hann reikaði um strætin með nýja Leicu á milli handanna, einn af fyrstum svokallaðra götuljósmyndara. Fram að þessum tíma hafði ljósmyndavélin aðeins getað ferðast um borgarlandslagið kyrfilega njörfuð á þrífæti og höfðu þær tæknilegu skorður vitaskuld sín áhrif á það hvernig myndin af borginni birtist í höfðum okkar. Verk André Kértesz opnuðu því algerlega nýja sýn á rými borgarinnar sem leikvöll hversdagslegra athafna og samskipta, þar sem lítilmótlegar fyrirmyndir og einskinsverðir atburðir breyttust í einlægt og kröftugt tungumál um hlutskipti borgarbúa.
Eftirminnilegar myndir þessa tímabils sýna okkur m.a. hrikalegar afleiðingar hildarleiks fyrri heimstyrjaldar, þar sem örkumla fórnarlömb stríðsins takast á við nýjan veruleika, án þess að Kértesz geri úr þeim upphafnar hetjur eða fórnarlömb í augum okkar. Önnur verk eru af formrænni toga, svo sem mynd frá vinnustofu málarans Mondrians, þar sem tónar, áferð og myndbygging líkt og enduróma til okkar kenningum og verkum þessa mikla hugsuðar og listamanns hinnar óhlutundnu myndlistar.
Það er mikill fengur af þessari sýningu, þar sem sérstök unun fylgir því að skoða gaumgæfilega raunveruleg blæbrigði verka André Kértesz, án þess að þurfa styðjast við misgóðar eftirprentanir þeirra líkt og maður á að venjast. Ég hvet alla til að drífa sig á þennan listræna stórviðburð áður en það er um seinan!