Saga abstraktlistar er ekki saga abstraktlistar

Wassily Kandinsky — Composition IV, 1911

Það er almennt talið og oft sagt í listasögubókum, að Vassilíj Kandinskíj eigi heiðurinn að fyrsta abstrakt málverkinu árið 1911 (sjá mynd tv. Komposisjón IV, 1911).  Svo má vel vera út frá einhverjum gefnum forsendum um eðli abstraktlistar.

 

Mig langar hins vegar að segja hér frá annarri sögu abstraktlistar með öðrum frumkvöðlum en Kandinskíj.

 

Önnur saga abstraktlistar

Georgiana Houghton fæddist á Las Palmas, Kanarí árið 1814. Hún var af bresku foreldri og fluttist aftur til Bretlands sem barn þar sem hún nam síðan listir. 

Árið 1851 lést yngri systir hennar og upp frá því hætti hún allri hefðbundinni myndlistariðkun og sökkti sér í spíritisma.  Hún hóf að sækja miðilsfundi og 10 árum síðar tók hún aftur að eiga við listina en á allt öðrum forsendum.  Hún vildi nýta listræna hæfileika sína til að rannsaka og komast í tengsl við handanheima.

 

Houghton notaði teikningu til að koma sér í trans og hefur aðferðin verið kölluð automatismi (surrealistar, s.s. André Masson og André Breton, tóku þessa aðferð aftur upp af öðrum ástæðum snemma á 20. öldinni).  Myndirnar eru í eðli sínu abstrakt þótt í einhverjum þeirra megi greina andlitsform (sjá mynd tv. frá c.a. 1862), þá eru aðrar án nokkurrar hlutlægrar skýrskotunar.

 Houghton hélt reglulega sýningar á verkum sínum heima hjá sér, en árið 1871 sýndi hún á annað hundrað vatnslitamyndir í The New British gallery.

 

Um svipað leyti og Georgiana Houghton gerði abstraktverk sín var franski rithöfundurinn Victor Hugo í samskonar þönkum.   Hugo sótti miðilsfundi og settist gjarnan að teikningu að loknum fundi því hann taldi sig þá best tengdan yfir í handanheim.  Hugo teiknaði abstrakt myndir (sjá mynd t.h. Blekteikning, dagsetning ókunn) og sumar þeirra heyra undir automatisma

Vincent Van Gogh segir frá teikningum Hugos í bréfi til bróður síns árið 1880 og hrýfst nokkuð af þeim, en er þá aðallega að tala um myndir hans af gotneskum kirkjum.  Það segir okkur, engu að síður, að teikningar hans voru komnar í umferð og voru til sýnis þar sem listamenn gátu borið þær augum.  Victor Hugo lét eftir sig um 4000 myndir þegar hann lést árið 1885 og þær hafa verið sýndar víða og þá fyrir aldamótin 1900.

 

Hilma Af Klint fæddist í Svíþjóð árið 1862 og lærði listir í akademíunni í Stokkhólmi.  Hún hóf snemma að kynna sér spíritisma og kynntist verkum Houghtons og Hugos, en þau voru í hávegum höfð innan spíritískra hreyfinga um gjörvalla Evrópu í þá daga.

 

Hilma Af Klint byrjaði að teikna og mála automatisma árið 1896, en færði sig fljótt yfir í settlegra abstrakt myndmál og geometríu. Hún hélt sýningu á abstraktmyndum árið 1907 (sjá mynd, t.v. frá árinu 1907) sem hún sagðist gera þegar hún væri í trans eða miðilsástandi og opin inn í aðrar víddir.

Hilma Af Klint var meðlimur í Guðspekifélaginu og Mannspekifélaginu og fór oft til Þýskalands til að hitta Rudolf Steiner, vin sinn og lærimeistara.  Þar kynntist hún Vassilíj Kandinskíj sem var í áþekkum félagskap. Kandinskíj var þá expressjónískur landslagsmálari að leita nýrra leiða í listinni. 

 

Hvers vegna er saga abstraktlistar ekki saga abstraktlistar?

Hvers vegna er Vassilíj Kandinskíj yfirleitt gefið heiðurinn að vera frumkvöðull abstraktlistar?

 

1)  Houghton, Hugo og Klint var skítsama um listasöguna og listheiminn.  Þau voru að kanna spíritisma (Kandinskíj var reyndar að því líka en hann var ekki að tala um trans og miðilsfundi eða að einhver æðri vitund málaði í gegnum hann).

 

2)  Victor Hugo var ekki fagmaður í myndlist.  Hann var rithöfundur sem teiknaði líka.

 

3)  Georgiana Houghton og Hilma af Klint voru fagmenn í myndlist en þær voru líka konur í karlægum listheimi sem töluðu um trans, miðilsfundi og að einhver æðri vitund málaði í gegnum þær. 

6 thoughts on “Saga abstraktlistar er ekki saga abstraktlistar

 1. Öll góð list frá mínum sjónarhóli er gerð þegar maður er tengdur hinni guðdómlegu samvitund (ég veit ekki hvað þetta er kallað á íslensku en heitir Virata á Sanskrít).
  Af þessu leiðir að hún ætti því að höfða meira til hjarans en heilans, það skiptir meira máli en hvort hún er ný eða gömul,Fígúratíf eða abstrakt.
  Þetta eru annars skemtilegar hugleiðingar, ég hef annars alltaf þótt skemtileg þessi sögn um að Pollok hafi sótt þína málunar aðferð til indíána sem slettu málningu á jörðinna við trúarlega tilbeislu gerð,en mér sýnist að það sem índíánar kölluðu Andanmikla svari til þess sem ég kalla guðdómlega samvitund.
  Kveðjur Daði.

 2. takk fyrir áhugaverða grein Ransú, ég vissi ekki af Georgiönu né V. Hugo en sögu og framlag Hilmu af Klint þekkir maður betur. Alltaf gaman að skoða ástæður fyrir því að sumum er fleygt burt af spjöldum Sögunnar.
  Daði, er indjána-tengingin við Pollock ekki viðtekin? Mér skilst að Pollock hafi verið undir áhrifum frá sandteikningum Indjána og hafi alist upp á Indjánasvæði, nálægt Mexikó.
  Kannski hann hafi rætt Indjánalist við Holger Cahill/Svein K Bjarnason, sem skaut yfir hann verndarvæng með styrkveitingu New Deal..

 3. Indjána-tengingin er ekki bara viðtekin í list Pollocks heldur er henni hampað, samt ekki vegna ritúalískra eða trúarlegra markmiða með sandteikningum indjána, heldur vegna þess að hún sker á viss Evróputengsl og gerir list Pollocks heimatilbúna frá rótum frumbyggja Ameríku. Pollock átti jú að vera 100% Amerískur málari tengdur Amerískri náttúru.
  Í bíómyndinni um Pollock, þar sem Ed Harris leikur meistarann, er listamaðurinn orðinn svo tengdur náttúrunni eftir að hann er fluttur úr borginni að lítil dýr laðast að honum líkt og í Disneymyndinni um Mjallhvíti og dvergana sjö. Upp frá því fer hann að sletta.
  Í raunveruleikanum kynntist Pollock slettutækninni hjá Hans Hoffman, en þessi “ritúall” að leggja strigann á gólfið er sennilega eitthvað sem hann tileinkar sér frá sandteikningum indjána.
  Að vissu leyti er Pollock að glíma við automatisma í slettumyndum sínum sem eiga ættir að rekja til Houghtons og Hugos mun fremur en t.d. abstrakt málverka Kandinskíjs.

 4. Eg velti stundum fyrir mer hvort heilaskann mundi syna einhvern mun a stadsetningu heila virkninnar i peim sem stundudu automatisma eda hja listamanni sem er i godu flaedi, astand sem flestir listamenn pekkja og lidur best i…eda..?
  ( nae ekki isl stofum her inn)

 5. Góð grein Ransú, takk.
  Ég pæli töluvert í að gera mynd. Þá birtast í hugskotinu listaverk fortíðar, árþúsunda saga, fjölfaldaðir hlutir síðustu alda og mörg hundruð hillu m af listgreiningu. En líka ásýnd listasögu sem vill ekki raða sér í kerfi eða goggunarröð, –óbærileg fjölbreytnin.
  Í nýlegu viðtali við professor við hin virta Zokei listaháskóla í Tokyo kom fram að sjálfsprottin hæfileiki barna, að teikna og hugmyndaheimurinn sem því tengist, sé á allt öðru plani nú en áður. Myndir fæðast ekki lengur áreynslulaust og greinilegt er að börn allt að háskóla stigi gera miklu minna að því að teikna en áður. Guð laun fyrir mynd á fleti. Abstrakt virkar þegar það virkar.

 6. Takk fyrir góða grein.
  Mér þótti hún skemmtileg í ljósi þess að nýlega rakst ég á grein sem birt var í Heimskringlu árið 1942 þar sem Finnbogi Hjálmarsson rifjar upp kynni sín af Sölva Helgasyni.
  Þar segir hann að Sölvi hafi dregið mynd upp úr tösku sinni sem átti að vera af sjálfri eilífðinni. Mynd þessi var af hringjum í öllum litum í bland við punkta og stjörnur. Svona sagði Finnbogi frá lýsingu Sölva á myndinni:
  „Þessi punktur hérna, er nú jörðin sem við lifum á, sagði Sölvi, og studdi pennastönginni sinni á punkt sem var næstur honum út í yzta hringnum. En þegar við förum hingað alfarin, þá förum við yfir á þessa stjörnu hérna, og svona köstumst við í sveiflu eilífðarinnar í óteljandi aldaraðir, þar til aðdráttarafl allra krafta sveiflar okkur eins og mustarðskorni eða ari sólargeislans inn á þessa stóru stjörnu hérna”
  Það eru nokkrar heimildir fyrir því að Sölvi hafi unnið myndir upp úr guðspeki hugmyndum Emanuels Swedenborgs. Miðað við þessa lýsingu er hægt að ímynda sér að Sölvi hafi hér fyrstur Íslendinga daðrað við dulspekilegar abstrakt myndir og það langt á undan Baldvini Björnssyni og Finni Jónssyni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: