Samhengisverk úr samhengi

Það var annaðhvort 8. eða 9. apríl árið 1917 sem sýningarnefnd The Indepentents listsýningarinnar í New York áttu á hatrammri deilu yfir hlut sem Richard Mutt hafði sent inn sem sýningargrip. Gripurinn var hlandskál, ætluð karlmönnum á almenningssalernum, fest á bakinu á stöpul og hroðvirknislega merkt, stórum stöfum, R. Mutt. Nefndin átti í mestu erfiðleikum með að sætta sig við að sýna svo klúran grip á sýningu sem átti að hefja nútímalist til vegs of virðingar, og gerði sér engan veginn grein fyrir því að sjálfur formaður nefndarinnar, virtur franskur myndlistarmaður, var sá sem stóð fyrir verkinu í þeim tilgangi að fletta klæðum af smáborgaralegum hugmyndum aðstandenda sýningarinnar.

Símskeytið sem Robert Rauschenberg sendi sem listaverk á portrettsýningu í Galerie Iris Clert í París árið 1961.Símskeytið sem Robert Rauschenberg sendi sem listaverk á portrettsýningu í Galerie Iris Clert í París árið 1961.

Árið 1961 sendi Robert Rauschenberg símskeyti til Galerie Iris Clert í París með textanum “This is a portrait of Iris Clert, if I say so.” Skeytið var framlag Rauschenbergs til sýningar á portrettverkum sem Iris stóð fyrir í galleríi sínu, en jafnframt innlegg í umræðu um tilgang og takmörk listarinnar sem listamenn voru ekki endilega ráðandi afl í að móta.

Frá vörpun Krzyzstof Wodiczkos á framhlið Suður-Afríska sendiráðsins í Lundúnum árið 1985.

Árið 1985 varpaði pólski listamaðurinn Krzysztof Wodiczko hakakrossmerki í um tvo tíma á framhlið Suður-Afríska sendiráðsins í Lundúnum. Upphaflega hafði staðið til að varpa mynd af sprengju á súlu Nelson sjóliðsforingja á Trafalgartorgi, en Wodiczko ákvað á síðustu stundu að skipta um skyggnu og nýta sér tækifærið sem bauðst í návígi við sendiráð ríkisins sem enn hélt stefnu sinni um aðskilnað kynþátta til streitu.

Þessir þrír viðburðir eru með mikilsverðari atburðum í sögu þeirrar tegundar listar sem hefur að markmiði að hafa með inngripi í ákveðna atburðarás bein áhrif á það samhengi sem listin er sýnd í. Í fyrri tilvikunum tveimur var samhengið aðstæður og stofnanir listmenningarinnar sjálfrar. Þar hafa slík verk oft verið áhrifaríkust, þótt vitaskuld séu fjölmörg dæmi um samhengisbundna list sem hefur verið unnin í samhengi sem telst utan hins almenna samhengis listarinnar. Þriðja tilvikið er ágætis dæmi um slíkt, þar sem listamanni er boðið að sýna í almennu samhengi og nýtir tækifærið til að hafa áhrif á það samhengi á annan hátt en stjórnvöld ætluðu honum í upphafi.

Eins og sjá má á þessi tegund listar þó nokkuð langa sögu. Forsendur hennar byggja á því að tilgangur listarinnar sé almennt að hafa áhrif á samfélag sitt og samhengi. Listin getur oft á tíðum heft slík áhrif með hefðbundnum meðulum, en einnig er það hlutverk listarinnar að hafa áhrif á annan máta en gengur og gerist. Þessi þrjú listaverk sem rakin eru hér að ofan eru af þeim meiði, þar sem aðferðin við listsköpunina mótast af því markmiði sem listamaðurinn setur sér og byggir á þeim aðstæðum sem eru fyrir hendi þegar verkið er gert og sýnt.

Nú á dögum er fjöldi góðra listamanna sem hefur tileinkað sér, öðru fremur, aðferðir sem þessar. Þessir listamenn gera góð og sterk verk, ýmist inn í samhengi liststofnana eða úti á meðal almennings, og þá út frá forsendum annarra stofnana samfélagsins. Eins og gefur að skilja eru verk þessi ekki endilega skýrt aðgreind frá því samhengi sem þau eru unnin inn í, þau eru ekki römmuð inn á hefðbundinn hátt, ef svo má segja. Stundum, eins og í tilviki Duchamps, kemur listrænt gildi og áhrif þeirra ekki glögglega fram fyrr en löngu eftir að atburðirnir sem þau tengdust eru liðnir. Stundum, eins og í tilviki Rauschenbergs, byggir listræn virkni verksins að mestu á framsetningu listamannsins sjálfs, að hann setji það fram sem listaverk og skilgreini þannig samhengi þess í verkinu sjálfu. Stundum, eins og í tilviki Wocziskos, verður verkið að listaverki einungis vegna þess að sá sem gerði það er viðurkenndur listamaður og verkið ósjálfrátt túlkað í því samhengi.

Þegar um hefðbundin listaverk, sem vinna inn í hefðbundið listsamhengi, er að ræða, þá er engin þörf á því að velta því fyrir sér hvort um listaverk er að ræða, heldur geta menn snúið sér beint að fagurfræðilegri umræðu um gildi þeirra og gæði, sem eru orð sem fjalla, í einfölduðu máli, um áhrif þeirra. Þegar listaverk eru unnin á annan hátt, eins og á við um þau þrjú verk sem talin eru hér að ofan, þá er, á hinn bóginn, nauðsynlegt að skoða heildarsamhengi þeirra áður en hægt er að meta þau með fagurfræðilegum mælikvörðum. Þá vakna upp spurningar um á hvaða hátt þau eru listaverk, og hvernig þau eru það. Að vekja slíkar spurningar er einmitt eitt af markmiðum listamannanna sem í hlut eiga, þær eru einmitt mikilvægur hluti þess samhengis sem þeir eru að vinna inn í. Þegar búið er að reyna að svara þeim, að einhverju marki, þá er hægt að snúa sér að hefðbundnari umræðu um gildi þeirra og gæði.

Frá sýningu Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar á verkinu ‘Lobbyists’ í Nýló í september 2010.

Í Nýlistasafninu sýna þau Libia Castro og Ólafur Ólafsson núna verkið Lobbyists, en það verk byggir einmitt á forsendum áðurnefndrar samhengislistar um áhrif sín og viðtökur. Verkið er að stofni til heimildarmynd, afbrigði fréttaskýringarmynda, um svokallaða lobbíista sem starfa við Evrópuþingið. Í verkinu fylgjumst við meðal annars með lobbíista Greenpeace, auk þess sem verkið veitir okkur innsýn í heim og verklagshætti annarra lobbíista á þinginu. Sem heimildarmynd er myndin þokkalega áhugaverð, sér í lagi fyrir þá sem áhuga hafa á miðstjórnarvaldi Evrópusambandsins eða eiga hagsmuni sína undir því valdi. Hún hefði trúlega að mestu leyti fallið ágætlega inn í almenna dagskrá gagnrýnna sjónvarpsstöðva í Evrópu eða Ameríku, og ekki er ósennilegt að viðtökur hennar þar hefðu reynst jákvæðar. Að hljóðrás sögumanns er söngluð að meira eða minna leyti hefði ef til vill þótt nokkuð óvenjulegt á slíkum vettvangi, en þó ekki svo að það hefði haft teljandi áhrif.

En Ólafur og Libia hafa valið mynd sinni annan farveg; í stað þess að leita á mið gagnrýnnar fjölmiðlunar sýna þau sköpunarverk sitt á vettvangi gagnrýnnar listar. Þau gera því þá kröfu að verkið sé ekki metið sem fjölmiðlaverk, heldur sem listaverk. Þar staðfæra þau verkið úr almennu samhengi fjölmiðlunar og færa það inn í sértækt samhengi listsýningar. Með þeirri aðgerð breyta þau forsendum verksins og umgjörð, gera það samhengislistaverki, ef svo má segja, og þar af leiðandi undirorpið umræðu um gildi og forsendur myndarinnar sem listaverks, auk þess sem það verður einnig undirorpið fagurfræðilegu mati á gæðum sínum.

Í texta sem fylgir sýningunni eru ýmsar góðar upplýsingar um feril verksins og aðstæður. Þar kemur fram að það byggi á rannsóknum listamannanna á þeim aðstæðum sem kynntar eru í verkinu, og að hljómsveitin Hjálmar og breska leikkonan Catherine Delton hafi í sameiningu unnið hljóðrásina. Einnig kemur fram að verkið hefur hlotið góðar viðtökur og verðlaun við sýningar í Hollandi, þannig að ljóst er að á þeim slóðum er almennt mat manna að verkið hafi nokkurt fagurfræðilegt og listrænt gildi. Í sýningartexta kemur einnig fram að sýningin á verkinu sé frumsýning þess á Íslandi, sem er orðalag sem sjaldnast er notað um myndlistarverk, þótt það sé almennt notað um kvikmyndir og leikverk.

Það er kannski það sem veldur erfiðleikum við sýningu og móttöku verksins hér á landi. Um er að ræða samhengislistaverk, sem virðist vera gert út frá samhengi umræðu á meginlandi Evrópu, vera svar við aðstæðum á þeim slóðum. Það má vel ímynda sér að það spili skemmtilega inn í heita umræðu um Evrópumál í Hollandi, til dæmis. Framsetning þessa samhengisverks er hinsvegar þannig hér á landi að ekki virðist á hreinu í hvaða samhengi það er hugsað, það er ekki skýrt á hvaða hátt þessi heimildarmynd, með myndlistarlegum áherslum, gæti átt í samspili við allt aðra umræðu um þessi mál hér á landi.

Það á almennt við um listaverk sem byggja á samhengi að eðli þeirra er að mörgu leyti staðbundið, tengt þeim aðstæðum og samhengi sem þau eru búin til í. Vegna þessa er oft erfiðleikum bundið að flytja þau úr því samhengi inn í annað samhengi, ólíkt til dæmis flestum kvikmyndum þar sem forsendan er sú að þær falli inn í almennt samhengi. Slíkar kvikmyndir er hægt að sýna á mörgum ólíkum stöðum og við ólíkar menningaraðstæður án þess að innihald þeirra og áhrif veikist að neinu marki. Það hvarflar að manni að við yfirfærslu Lobbyists inn í íslenskt myndlistarsamhengi hafi staða og eðli verksins sem listaverks að sumu leyti gleymst, því aðstæður við framsetningu og sýningu verksins hér eru mikið frekar eins og um kvikmyndaverk væri að ræða, en þau er yfirleitt auðveldara að sýna óháð samhengi.

Samhengislistaverk eru, sem fyrr segir, gerð fyrir ákveðið samhengi, og byggja stöðu sína sem listaverk á því samhengi. Þetta felur í sér að þegar þau eru flutt yfir í ólíkt samhengi og ólíkar aðstæður, þá krefst það þess að talsverð vinna sé lögð í yfirfærsluna þannig að verkið meiki sens í því umhverfi sem það er fært í. Þessi þáttur hefur því miður brugðist við sýningu á Lobbyists Ólafs og Libiu í Nýlistasafninu. Vegna þessa virkar verkið ekki sem skyldi. Á Nýló skortir það einfaldlega þann stuðning og aðlögun sem það þyrfti miðað við breytt samhengi. Vegna þessa er framsetningin of veik til þess að hægt sé að skoða verkið alvarlega út frá listrænu samhengi. Spurningar um hvort það er listaverk og hvernig vakna í raun ekki þegar verkið er skoðað í Nýló. Vegna þessa verður verkið einungis þokkalega áhugaverð heimildarmynd, en skortir greinilega að vekja þær knýjandi spurningar sem maður ímyndar sér að það hafi ef til vill gert þegar það var sýnt í Hollandi. Hér vakna þær ekki, og þess vegna eru þær knýjandi ástæður ekki til staðar sem þyrfti til þess að ástæða væri til að fjalla um verkið út frá fagurfræðilegum forsendum. Meira að segja hljóðrásin, sem að sögn er fyndin og áhrifarík á sýningum í Hollandi, verður hér á landi veikburða tilraun til að gera nokkuð hefðbundna heimildarmynd að listaverki. Hér virkar hún einungis sem listrænn mannerismi.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: