Hvað á að kalla þetta?

Ég hef lúmskt gaman af stóra kjólamálinu vegna þess að það bregður nýju ljósi á annað fárviðri sem gekk yfir síðasta sumar. Þá ákvað meirihlutinn í Reykjavíkurborg að fatahönnuður skyldi hljóta einu listamannalaunin sem höfuðborgin hefur efni á að veita en um langt árabil hefur borgarlistamaður verið valinn úr röðum myndlistarmanna, tónskálda og rithöfunda. Við Ágúst Guðmundsson, sem þá vorum áheyrnarfulltrúar listamanna í menningar- og ferðamálaráði borgarinnar, mótmæltum breytingunni enda ekki úr neinum ósköpum að moða fyrir okkar umbjóðendur. Auk þess er það fráleitt í verkahring stjórnmálamanna að skera úr um hvað hugtakið listamaður inniber.

Í framhaldi af mótmælum okkar reis upp hópur listamanna (velflestir landskunnir, sumir jafnvel heimsfrægir) og fór mikinn í fjölmiðlum. Við Ágúst vorum sökuð um gamaldags þröngsýni, hroka og smásálarhátt fyrir að halda því fram að hönnun sé ekki það sama og list og fátt virtist lágkúrulegra og úreltara en að draga fólk í dilka faglegra skilgreininga. Nú er hinsvegar komið annað hljóð í strokkinn, allavega í Listaháskólanum. Svo vitnað sé beint í fagstjóra fatahönnunar er vandi fatahönnuða einmitt fólginn í því að ,,[s]amfélagið virðist ekki skilja að fatahönnun er fag og þar er um sérþekkingu að ræða…”

Ég ætla mér ekki að ganga neitt ægilega hart fram við innheimtustörf fyrir umræddan hóp listamanna en mér finnst að meirihlutinn í borgarstjórn eigi þeim skuld að gjalda fyrir dyggilegan stuðning, ekki síst Listaháskóla Íslands því framvarðasveit skólans lá sko ekki á liði sínu þegar kom að því að lýsa frati á okkur Ágúst.

Listaháskólinn er nú lentur í nokkrum vandræðum með tvo Júróvisjónkjóla. En þar sem menn þar á bæ tala í dag kinnroðalaust um hönnun sem sérstakt fag finnst mér líklegt að þeim hugnist sú hugmynd mín að fá hlutlausa utanaðkomandi sérfræðinga til að kveða upp úr um deiluna. Þá spyr ég: Er ekki tímabært að stjórnmálamennirnir endurgjaldi skólanum stuðninginn frá síðasta sumri? Hvernig væri að meirihlutinn í borgarstjórn dæmdi kjólana? Þeirra þekking á fatahönnun er jú öllum kunn! Þá þurfum við hin ekki að velkjast lengur í vafa um hvort þeir séu ljótir eða ekki.

Nú kann einhver að segja sem svo að svona fyrirgreiðslupólitík heyri fortíðinni til. En það er bara alls ekki rétt. Gamla fyrirgreiðslupólitíkin er enn í fullu gildi og verður á meðan stjórnmálamenn vasast í hlutum sem þá skortir þekkingu á. Val borgarlistamanns hefur oft borið keim af henni. Nýjasta dæmið blasir við. Síðasta sumar var núverandi kosningastjóri borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins í fullu starfið við að sinna hagsmunamálum hönnuða.

Þegar niðurstaða er fengin um kjólana er aðeins einni spurningu ósvarað: Hvað kallast það þegar virðuleg stofnun ræðst á einstakling með ásökunum um vondan smekk? (Við Ágúst vorum kurteis í garð hönnuðarins sem nú er borgarlistamaður.) Nú er enginn hópur listamanna með stórt hjarta að tala um hroka og smásálarhátt og ekki margir sem verja Birtu í Júníform. Hvort er hér á ferð akademísk víðsýni, umburðarlyndi eða fagleg gagnrýni? Ég er ekki alveg viss en gaman væri að fá fram góðar tillögur að einkunnarorðum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: