Tónlistin og vandinn við hið ómetanlega

Í sögu nútímans hafa tónlistarmenn oft þurft að berjast fyrir réttmætri hlutdeild í þeim tekjum sem tónlistin hefur átt þátt í að afla. Á undanförnum árum hefur þó færst í vöxt að tónlistarmenn hafa gert kröfur um skattlagningu ríkisins á ákveðin svið, og um að tekjur af þessum skatti renni beint til þeirra sem tekjur, sem dulinn styrkur. Þarna hefur orðið til eignatilfærsla þar sem réttmætið er byggt á órökréttum grunni. Þetta er jafnframt eitt einkenni um þann síaukna vanda sem hið ómetanlega veldur íóheftum markaðsbúskap.

Federico Hoffman spilar á gítar við opnun í Formosa galleríi í Buenos Aires. Ómetanleg upplifun í samfélagi við vini sína og áhorfendur.

Tónlistin hefur síðastliðna öld gengið í gegn um ótal tæknibreytingar sem valdið hafa miklum sveiflum í möguleikum listamanna til að geta sinnt list sinni. Á stundum hafa tæknibreytingarnar orðið til þess að auka möguleika manna á tekjum, og á því að geta á
sjálfbæran hátt sinnt list sinni, en síðan hafa áföllin dunið yfir og kippt fótunum undan annars gróskumiklum tónlistariðnaði. Eins og um aðrar listgreinar, þá er gildi tónlistar í eðli sínu ómetanlegt – til að
skapa tekjur getur hún ekki byggt á sjálfri sér, heldur hefur þurft að búa til allskonar viðskiptamódel í kring um tónlistina til að tryggja afkomu hennar. Segja má að tónlistin sé í eðli sínu hvað hreinust í ómetanleik sínum, hún er
tímabundin, óáþreifanleg – nautn hennar byggir eingöngu á því sem gerist meðan flutningurinn á sér stað.

Í sögulegu tilliti er það undantekning að tónlistarmenn hafa getað treyst á eigin framleiðslu til að tryggja afkomu sína. Fyrr á öldum voru þeir, eins og flestir listamenn, háðir því a höfðingjar hefðu mætur á list þeirra, og héldu þeim þar með uppi þannig að þeir gætu sinnt list sinni. Alþýðutónlistarmenn byggðu hins vegar á velvild hlustenda sinna, að fólk vildi láta eitthvað af hendi rakna fyrir að hlusta á þá, ekki ósvipað og búlgörsku tónlistarmennirnir sem spiluðu á torgum höfuðborgarsvæðisins fyrir nokkru. Á sama hátt hafa þeir sem stunda viðskipti oft ráðið til sín tónlistarmenn til að skapa stemmingu þannig að þeir gætu selt annan varning, eins og til dæmis áfengi. Einnig hafa formlegir tónleikar, eins og aðrir sviðsviðburðir, oft verið eftirsóttir og fólk viljað borga sig inn á slíka atburði til að njóta listarinnar. Allir þessi möguleikar eru enn fyrir hendi, og dygðu trúlega til að hald uppi jákvæðu tónlistarlífi ef ekkert annað kæmi til.

Á hinn bóginn þá er ljóst að tónlistarmenn almennt sætta sig ekki við þessar hefðbundnu leiðir, enda hefur tækni nútímans gert tónlistarmönnum mögulegt að framfleyta sér, á stundum, á annan hátt. Þannig hafa aðrir miðlar oft getað gefið tónlistarmönnum ágætis tekjur, og oft mikið meiri en ofangreindur hefðbundinn vettvangur getur skilað af sér. Allir þessir tæknimiðlar hafa hins vegar verið svikulir, og oftast einungis dugað í skamman tíma í senn. Þá hafa boðist nýir möguleikar, en oftar en ekki hefur reynst þörf á að verja eldri tekjumöguleika á meðan breytingar hafa átt sér stað. Stundum hefur slík vörn verið réttlát og skilað sér í endurskilgreiningu á höfundarrétti, þannig að tekjur frá þeim sem græddu á tónlistinni, en bjuggu hana ekki til, hafa skilað sér til höfundanna og flytjendanna sjálfra. Á öðrum tímum hefur einnig verði farið offari, og verið beitt óréttmætum aðferðum til að tryggja hag tónlistarinnar, eða eigum við ef til frekar að segja tónlistariðnaðarins.

Ég ætla að leyfa mér að rekja þessa þróun á undanförnum rúmum hundrað árum, áður en ég fjalla nánar um stöðuna sem nú er upp komin, og sem ógnar, enn einu sinni, öryggi tónlistarinnar. Staða sem er einungis ein birtingarmyndin enn á þeim vanda sem snýr að hinu ómetanlega.

Möguleikar og vandmál fjöloföldunar á tónlist

Fyrsti fjölföldunarmiðillinn sem nýttist tónskáldum til tekjuöflunar var prentmiðillinn. Með tilkomu hans áttu vinsæl tónskáld þess kost að þurfa ekki að treysta í eins miklum mæli á höfðingsskapinn. Með því að prenta vinsæla tónlist og selja gátu tónskáld náð inn þó nokkrum tekjum. Þessi leið leiddi hinsvegar fyrsta vandann af sér, sem byggði á því að óprúttnir aðilar áttu það til að afrita tónverkin, prenta og selja nótur annarra án þess að tónskáldin sjálf fengju neinar tekjur af því. Þetta var í raun sami vandi og henti rithöfunda og grafíska listamenn. Það þurfti mikla baráttu til að leysa þennan vanda, en tókst þó að lokum að gera það á réttlátan máta, þannig að þeir sem höfðu hag af því að selja nótur annarra þurftu að deila tekjum sínum með höfundi. Þetta var leysanlegt vandamál, þar sem að hluti af tekjum annarra af því ómetanlega skiluðu sér til höfundanna. Þetta var góð lausn, sem tryggði hag seljendanna og dreifingu tónlistarinnar, en hvatti einnig til útgáfu nótna í auknum mæli.

Næsta tæknin sem skók tónlistina var óneitanlega upptökutæknin. Þessi tækni gerði það að verkum að hægt var að dreifa tónlist mikið víðar en áður, nú þurfti fólk ekki lengur að treysta á annaðhvort eigin flutning, eða á að ráða tónlistarmenn til flutnings tónlistar ef það vildi njóta hennar. Þetta var hættuleg nýjung, svona fyrst á litið. Ef fólk átti þess kost að hlýða oft og mörgum sinnum á gæðaflutning tónlistar, en þurfti bara einu sinni að greiða fyrir hljómhólkinn eða hljómplötuna, þá var hætta á því að eftirspurn eftir lifandi flutningi tónlistar minnkaði stórum. Sem betur fer fór ekki svo, heldur leiddi hin nýja tækni til þess með tímanum að áhugi manna á því að hlýða á tónlist jókst til mikilla muna. Enn hafði fólk áhuga á að hlýða á lifandi flutning, en auk þess var fólk tilbúið til að kaupa upptökur og safna þeim. Einfalt var að yfirfæra reglurnar um prentunina yfir á upptökurnar, og ná þannig inn tekjum á réttlátan máta frá þeim sem hlaut hagnað af því að selja upptökurnar.

En nú fóru málin að flækjast, og næsta tæknibylting reyndist ekki eins einföld að leysa. Niðurstaðan var sú að sumpart fundu menn réttlátar lausnir við vandanum, en því miður varð raunin sú á sumum stöðum að lausnirnar urðu óréttlátar að miklu leyti.

Kostir og gallar óefnislegrar dreifingar tónlistar

Þegar útvarpið kom til var ljóst að umhverfi tónlistarmanna breyttist mikið. Nú gat allur almenningur hlustað á tónlistina af einungis einu eintaki. Sem betur fer hafði þetta þegar fram liðu stundir ekki slæm áhrif á hag manna af hljómplötusölu. Fólk vildi hlusta á uppáhaldstónlistina þegar því sýndist, án þess að þurfa að treysta á dagskrá útvarpsins. Þessvegna jókst plötusala frekar en hitt eftir að útvarpið var orðið almenningsmiðill. Þó var ljóst að útvarpsstöðvar, eins og tónleikasalaeigendur, fengju tekjur af því að spila tónlistina. Vinsælar stöðvar seldu auglýsingar sem var tekjuöflun sem byggði óbeint á tónlistarflutningnum. Tónlistariðnaðinum tókst að semja um réttmætan hlut í þessum tekjum útvarpsstöðvanna til handa aðilum sínum, það sem á Íslandi eru kölluð STEF-gjöld.

Því miður áttu tónlistarmenn á Íslandi eftir að ganga lengra í þessum málum. Að lokum náðu þeir fram lagabreytingum sem segja má að hafi verið fyrsta stigið í að sækja tekjur vegna tónlistar á óréttmætan hátt. Fram að þessu, eins og ég hef rakið, byggðu kröfur tónlistariðnaðarins um greiðslur á því að hljóta hluta af þeim tekjum sem seljendur eða flytjendur hlutu og ljóst var að var að meira eða minna leyti vegna tónlistarinnar. Þegar tónlistariðnaðurinn fékk því framgengt að fjölmargir aðilar sem ekki byggðu á tónlistarflutningi um tekjur sínar, heldur vildu einungis eins og allur almenningur geta hlustað á tónlist í vinnunni, urðu að greiða skatt til tónlistarmanna, þá varð fyrsta óréttmæta gjaldtakan til. Það er ansi langt gengið ef menn vilja halda því fram að hárskerar eða klæðskerar eða matvörukaupmenn eða leigubílstjórar hljóti að einhverju marki auknar tekjur við það að hafa útvarpið í gangi. Tekjur þeirra byggja á allt annarri þjónustu sem þeir veita. Þegar þeir hafa útvarpið í gangi spila þeir, eins og almenningur, dagskrá stöðvanna, auk allra auglýsinga, sem aðrir, og þar á meðal tónlistarmenn, hljóta sannarlega tekjur af. Þegar þessir aðilar voru krafðir um gjald voru í fyrsta sinni rofin tengsl réttmætra tekna flytjenda og seljanda við gjaldtökuna. Þarna var í raun bæði verið að rukka útvarpsstöðvarnar og þann sem setti útvarpið í gang um sama hlutinn, tvisvar, en einungis útvarpsstöðvarnar fengu tekjurnar.

Þróun óréttmætrar skattlagningar á vegum tónlistariðnarinns

Á síðari árum má segja að vandi tónlistarinnar og tónlistariðnaðarins við að tryggja hag sinn og tekjur hafi aukist til mikilla muna. Þessvegna hafa kröfur um óréttmæta skattlagningu oft fengið hljómgrunn. Fyrst er að telja sérstaka tolla sem lagðir voru á upptökutæki. Hér var því slegið fram að til að vernda tónlistarmenn og tónlistariðnaðinn þyrfti að skattleggja upptökubúnað sem almenningur keypti sér umfram önnur tæki, einungis vegna þess hægt var að þennan búnað til að taka hágæðaafrit af tónlist. Það sama átti við um geisladiska, þeir voru allir skattlagðir vegna þessa möguleika. Nú er lagt til að skattur verði lagður á allar nettengingar, vegna þess að það er hægt að nota þær til að brjóta höfundarréttarlög.

Það er þetta sem er núverandi vandi þessarar greinar, og tengist því að tekjuöflun til ómetanlegrar listar er aldrei trygg, og getur aldrei verið stöðug. Efni sem er huglægt og gert til unaðar, getur virkað eins og iðnaðarvara tímabundið, en eins og dæmin sýna þá þarf ætíð að treysta á aðra þætti en markaðinn til að viðhalda greininni. Í öllum þessum dæmum, skattlagningu upptökutækja, skattlagningu útvarpseigenda, skattlagningu geisladiska, og í hugmyndum um skattlagningu nettenginga, er í raun verið að láta eins og þar sé um að ræða réttmæta kröfu um þátttöku í tekjum án þess þó að þeir sem eiga að greiða hafi tekjur af því sem verið er að skattleggja. Í raun felst í öllum þessum aðgerðum krafa um styrk til að halda uppi tónlistarsköpun.

Þegar þessi gjöld eru lögð á, þá er reynt að blanda saman óskyldum atriðum. Annarsvegar er sérstök skattlagning ríkisins á ákveðna tækni; Hinsvegar er um að ræða styrk ríkisins til tónlistar. Með því að tengja þessi ólíku atriði er reynt að fela styrkinn og láta eins og hann sé réttlátar tekjur tónlistarmanna fyrir höfundarrétt sinn. Gallinn er bara sá að í þessum dæmum um gjaldtöku í samtímanum er sú að þeir sem eiga að greiða – fyrir útvarpið sitt, fyrir diskana sína, fyrir upptökutækin sín eða fyrir nettenginguna – hafa ekki neinar sannanlegar tekjur af atferli sínu. Stór hluti þessara aðila nýtir ekki búnaðinn til að sækja sér höfundarvarið efni. Þeir sem gera það – vitandi að það er ólöglegt – eru samt ekki að hafa neinar tekjur af atferli sínu. Það sem þeir gera er að njóta þessar ómetanlegu listar, eitthvað sem aldrei er, sem betur fer, hægt að færa til tekna.

Gjöld þessi, sem lögð eru á tengingarnar og búnaðinn, tengjast þannig ekki réttmætt neinni kröfu listamanna á viðkomandi aðila. Þessi gjöld eru í raun skattlagning ríkisins á ákveðna vöru, á ákveðinn búnað. Það er ekkert óeðlilegt við það. Ríkið hefur fullt leyfi til að stofna til skattheimtu. Þegar lögð eru gjöld á þennan búnað þá er það því í raun skattur sem tengist ekkert höfundarétti. Það er heldur ekkert óeðlilegt við það að ríkið styðji við tónlistarmenn eða tónlistariðnaðinn. Í raun væri eðlilegt að almenningur þyrfti að styðja við tónlistarsköpun, og í raun sýnir sagan að tónlist sem sjálfbær iðnaður er undantekning, heppni sem átti sér stað á vissu tímabili í kring um miðja 20. öld. Ríkinu, almenningi, ber að styðja tónlistarmenn, eins og aðra listamenn, í vandkvæðum sínum þegar tekjumöguleikar þeirra hafa rýrnað eins og dæmin sanna.

Það er hinsvegar rökleysa að telja að tónlistarmenn eigi einhverja eignarréttarvarða kröfu á fólk sem á útvarp, á fólk sem kaupir upptökutæki, á fólk sem brennir gögn á diska í tölvunni sinni, eða á fólk sem er á Facebook á netinu. Þeir tilburðir að reyna að tengja skattlagninguna og styrkina beint eru rökleysa frá grunni. Þessi rökleysa er í besta falli óréttlát, en getur, þegar málið snýr að samskiptatækjum, haft þá óheppilegu aukaverkun að skerða samskipta- og tjáningarfrelsi fólks, nokkuð sem er hættulegt þegar verið er að reyna að styrkja veika innviði lýðræðis.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: