Nýkrýndur Óskarsverðlaunahafi frá Argentínu, Juan José Campanella, gerði árið 2004 kvikmyndina Luna de Avellaneda, sem á íslensku héti Tungl yfir Avellaneda. Kvikmyndin er gerð tveimur árum eftir að efnahagshrunið varð í Argentínu og fjallar að mörgu leyti um þær spurningar sem blasa við íbúum landsins í kreppunni. Hvernig geta íbúar haldið reisn sinni? Hvernig eiga þeir að bregðast við þeim sem bjóða þeim atvinnu og peninga, hvað sem það kostar?
Myndin fjallar um fólk sem rekur íþrótta- og félagsmiðstöð. Í upphafi myndarinnar er vikið til baka til um 1960, þegar miðstöðin er nýreist, og okkur birt öflugt samfélag vonar og styrks. Í samtímanum er hins vegar greinilegt að miðstöðin hefur átt við kreppu að stríða lengi, viðhald er í ólestri og aðstæður fátæklegar. Aðstandendur miðstöðvarinnar berjast við að halda henni gangandi, enda þjónar hún hagsmunum fátækra íbúa í hverfinu og er miðstöð íþrótta- og félagsstarfs barna og unglinga.
Skuldir sliga reksturinn og þá birtist lausnin í líki frumkvöðuls sem býðst til að kaupa miðstöðina af félaginu sem rekur hana. Hann er framsækinn og er með áform um að breyta félagsmiðstöðinni í spilavíti. Lokasenur miðstöðvarinnar eiga sér stað í kosningu um framtíð hennar. Valkostirnir eru tveir: Annarsvegar að halda áfram við erfiðar aðstæður, að reka miðstöðina í þágu íbúanna og barnanna í hverfinu; Hinsvegar að breyta miðstöðinni í spilavíti, hætta að sinna börnunum og íbúunum sjálfum. Seinni kosturinn hefur það í för með sér að atvinnulausir íbúar í nágrenninu gætu fengið störf við að þjónusta spilavítið og gesti þess, auk þess sem skuldavandi félagsins yrði úr sögunni. Börnunum og virðingu samfélagsins yrði hins vegar fórnað ef sá kostur yrði valinn.
Það er greinilegt að myndin í heild og söguþráður hennar er myndlíking fyrir þær ákvarðanir sem íbúar og samfélög víða um Argentínu hafa þurft að horfast i augu við í kjölfar efnahagshrunsins. Fjársterkir aðilar voru tilbúnir til að koma með allskonar lausnir á vanda íbúanna, lausnir sem buðu upp á fjármagn og atvinnu, en oft með miklum fórnarkostnaði. Mér kemur þetta í huga og þær spurningar sem myndin setur fram þegar öflugir aðilar eru tilbúnir að leysa skulavanda og atvinnuleysi sem íbúar á Suðurnesjum búa við. Þessir aðilar eru tilbúnir með fjármagn og atvinnuskapandi tækifæri fyrir íbúa svæðisins. Þeir gætu fengið vinnu við frekari uppbyggingu hernaðarmannvirkja á svæðinu og við að þjónusta þjálfun málaliða í landi sem hefur hreykt sér af herleysi í ellefu hundruð ár.
Við núverandi aðstæður er skiljanlegt að íbúar á svæðinu skuli sumir líta jákvæðum augum á þennan valkost. Hins vegar er spurningin hvort að siðferðilegu sjónarmiðin og þau samfélagslegu ættu ekki að vega þyngra í þessu máli. Ef stjórnvöld ákveða að taka tilboði herfyrirtækisins, þá mætti kannski spyrja sig hvort ekki væri eðlilegt á næstu stigum að leysa vanda sveitarfélaga á Suðurnesjum með því að breyta Ljónagryfjunni í Njarðvík í spilavíti? Við vitum þegar að aðilar tengdir íþróttahreyfingunni væru tilbúnir að ljá því málefni lið.