Efnahagslíf og -dauði á Íslandi

Stundum getur íslenskan verið heppileg í þýðingu og náttúruleg merking orða komið á óvart. Þetta á til dæmis við þegar reynt er að þýða hugtakið économie libidinale eins og franski heimspekingurinn Jean François Lyotard notaði það í samnefndri bók sem kom út árið 1974.1

1Jean-François Lyotard, Économie libidinale (Paris: Éditions de minuit, 1974).

Bókin er róttækt heimspekirit, og er markmið Lyotards með bókinni að leggja sálrænan og lífrænan grunn að hagkerfi manna, líta á þau út frá forsendum hvata og hegðunar – innanfrá – í stað þess að reyna að setja þeim vísindalegar reglur utanfrá. Hann er í bókinni, beint og óbeint, að vega að og auka við kenningar hagfræðinga eins og Marx, að leggja vísindaheimspekilegan grunn að hugsun hagfræðinnar. Það er í þessu samhengi sem hann setur fram hugtakið économie libidinale, sem bókstaflega mætti þýða sem efnahagur lífskraftsins, og þar komum við aftur að því hvað íslenskan er heppileg í þessu tilviki, því hvað er einfaldara en að þýða économie libidinale en sem einfaldlega efnahagslíf.

Á bak við laufskrúðið má sjá burðargrind háhýsis sem staðið hefur óklárað í 20 ár í norðurhluta Buenos Aires. Ein af arfleifðum herforingjastjórnarinnar í Argentínu þar sem völdin voru meginmálið, en ekki hagsmunir fólks.

En nóg um þýðingar í bili. Ástæða þess að ég er að vekja máls á þessu eru hugleiðingar um íslenskt ástand og íslenskan efnahag, bæði þann lifandi og þann sem tengist stjórnmálum og völdum, í kjölfar hins margumtalaða hruns. Það er nefnilega lygilegt hversu vel hugmyndir Lyotards, skráðar fyrir meir en 35 árum, eiga vel við þegar hegðun og gjörðir íslensku auðmannanna í aðdraganda hrunsins – sem nú eru nokkuð skýrt komin fram í dagsljósið – er skoðuð og metin.

Meginefni Lyotards í Efnahagslífi er að hrekja þær hugmyndir sem settar hafa verið fram í nútíma um það að efnahagsleg hugsun og hegðunarmynstur hafi gengið í gegn um þróun í tímans rás, frá frumstæðri menningu fornaldar, í gegn um peningahugsun endurreisnarinnar, merkantílisma einvaldskonunga barrokktímabilsins, yfir í þróaðan kapítalisma nútímans með áherslu sinni á hagvöxt og skynsemi markaðar sem ræðst af framboði og eftirspurn. Lyotard telur að hér sé um einbera tálsýn að ræða, einkenni þróunarhugsunar nútímans þar sem goðsögnin um stöðuga framþróun og framfarir sé lykilatriði.

Í andsvari við þessari þróunarhugsun nútímans telur Lyotard að efnahagur og þær aðferðir sem maðurinn notar til að lifa og lifa af, sjálfur og í samfélagi, séu nátengd atriði. Hann tekur til þess að í skráðri sögu megi sjá helstu einkenni efnahagskerfis nútímans í reynd, að í raun séu breytingar í viðskiptum og hagrænum þáttum menningar einungis sveiflur sem skýra megi í grundvallaratriðum út frá þeirri hneigð mannsins að skapa og efla líf sem á sama tíma leiðir til eyðileggingar og dauða. Í sálfræðilegum skilningi eru líf og dauði nátengd öfl sem ekki er hægt að skoða hvort í sínu lagi, á sama hátt séu það öfl uppbyggingar og sóunar sem óaðskiljanlega eigi sinn þátt í breytingum á efnahagslífinu, eins og í lífi einstaklingsins. Grunnur kenningar Lyotards gengur út á það að líf og dauði séu alls ekki andstæð öfl, ekki frekar en uppbygging og eyðilegging.

Hin jákvæða ímynd kapítalismans, eins og hann birtist í framsetningu frjálshyggjunnar, er sú að um séu að ræða viðskipti og viðskiptaumhverfi þar sem skynsemi ræður ríkjum. Viðskipti almennt byggi á því að allir aðilar viðskiptaumhverfisins (viðskiptalífsins) séu meðvitaðir um það markmið að efla hagsmuni sína, tekjur og hagnað. Aðilarnir vinni í umhverfi þar sem samkeppni ræður ríkjum og þar sem verð og skipti á vörum, með peninga sem millilið, þróist út frá samkeppni og eftirspurn, sem séu í raun tengd á skynsaman og rökrænan hátt. Á heimspekilegum nótum má segja að þetta feli það í sér að hér sé eitt öflugasta dæmið um skynsemistrú upplýsingastefnunnar, sem að sönnu hefur verið leiðarstef nútímans í hugsun. Vegna þess að hér ræður skynsemin ríkjum stýrir markaðskerfið sér sjálft – það er jú auðséð að allir hljóti að vilja efla sinn eigin hag sem mest, ekki satt? Trúin felur það einnig í sér að þar sem allir vinna markvisst að því að auka eigin arð og eigin hag hljóti það að leiða til þess að hagur allra sem að kerfinu koma eflist. Þetta er hugmyndin um hagvöxt: Kerfið stýrir sér þannig að einkahagur vex, sem leiðir til þess að hagur fjölskyldunnar vex, sem leiðir til þess að hagur samfélagsins vex, hagur þjóðarinnar og að lokum hagur heimsins.

Guð gæfi að svo væri!

Lyotard leiðir að því rök að auk skynseminnar séu fleiri þættir einnig ákaflega ríkir í efnahagslífinu, þættir sem feli í sér önnur og ólík gildi en að bæta hag og að efla tekjur almennt. Hann telur að skýrasta mynd þeirrar efnahagsstefnu felist í svonefndum merkantílisma, sem var lykilatriði í efnahagsstjórn á Vesturlöndum á síðari hluta sautjándu aldar. Þetta er sú stefna sem Colbert, fjármálaráðherra Loðvíks fjórtánda, mælti fyrir og því sú stefna sem réð ríkjum í Evrópu á þessum tímum. Megináherslur merkantílismans eru samkvæmt Lyotard að líta á hagkerfið sem lokað fyrirbæri, endanlegt. Colbert leit þannig á Evrópu þeirra tíma, að um væri að ræða lokað kerfi sem mikilvægt væri fyrir Frakklandskonung að ráða. Lykillinn að því fólst í því að stjórna fjármálunum, í því að ráða yfir megninu af peningaforða álfunnar, sem á þessum tíma fólst í sjóðum úr gulli og silfri. Markmiðið fólst sem sagt í því að tryggja að forði gullsins, peninganna væri í París, að önnur ríki álfunnar, sem og héruð Frakklands, yrðu að skuldsetja sig gagnvart konunglegu bönkunum í París til að geta átt í skynsamlegum viðskiptum sín á milli. Í þessu fólst lokun markaða með tollum, uppbygging innri framleiðslu, og uppsöfnun auðs. Þegar völdum var náð í kerfinu leiddi það síðan til gríðarlegrar sóunar, þeir peningar sem komu inn umfram gullsjóðinn höfðu engan tilgang sem slíkan, voru ekki nýttir í skynsamlega arðsemi og uppbyggingu, heldur í gífurlega yfribyggingu og lúxus í Versölum. Markmiðið var efling innri sjóða í samanburði við sjóði annarra, ekki bæting hags fólks almennt eða uppbygging kerfisins umfram það sem þurfti til að ná völdum.

Lyotard leiðir að því rök að þegar hagkerfið var lokað, og konungurinn ótryggur í sinni stöðu, þá leiddi það til þess að öfundin var sá þáttur sem réði mestu um ákvarðanatökur. Það er í gegn um öfundina sem græðgin kemur síðan fram. Það sem knýr ákvarðanirnar er ekki viljinn til að byggja upp og efla, heldur þráin eftir því að eignast og ná tökum á hlutum, á peningum, á völdum, bara til þess að sóa þeim í kjölfarið. Þeir sem stjórna gera það ekki með sín eigin verk að viðmiði, sinn eigin hag. Það sem er ráðandi í ákvörðunum er samanburðurinn við aðra. Hér dugar ekki hagsýni, framsækni og sköpunarkraftur – skynsamlegir þættir sem byggt gætu upp efnahagslífið á grundvelli hagsældar. Nei, hér er það ráðandi hvöt að komast yfir það sem hinir eiga, að verða stærri en þeir, en ekki með því endilega að stækka sjálfur, heldur með því að sölsa þeirra eigur og auðæfi undir sig. Þar sem öfundin ræður ríkjum er það samanburðurinn sem hefur gildi, ekki skynsemin eða hagsældin. Nærtækasta dæmi merkantílismans er borðspilið Matador. Í því spili eignast menn götur og fyrirtæki sem í upphafi skila hófsömum arði. Hver spilari getur framleitt verðmæti með því bara að spila, í hverjum hring er þetta staðfest með öruggum tekjum. Það væri hagstæðast fyrir alla ef allir hefðu hóflegar eignir og gætu eflt þær hægt og rólega og komið þannig auknum verðmætum inn í kerfið. En það er því miður ekki raunin, því markmið spilsins er merkantílískt, það byggir á því að ná tökum á því sem aðrir eiga, að byggja upp meir en þeir með það eina markmið í huga að ná hinum út úr spilinu. Þegar einn spilari er orðinn stærstur í Matador, þegar flæði fjármagnsins er orðið stöðugt
til hans frá öllum hinum, þá vantar bara að innleiða að hann gæti eytt óhóflega og sóað peningum, því hagur hans ræðst ekki lengur af peningunum sem hann hefur safnað heldur af flæði peninga til hans.

Þegar efnahagslíf Íslands á liðnum áratugum er skoðað, þá er áhugavert að sjá hvernig þessir þættir nútíma kapítalisma, skynsamleg hagnýting og arður, og spil sem byggir á öfund og græðgi, hafa átt mismikla samleið. Hagfræðingar hafa nefnt kvótakerfið í sjávarútvegi sem upphafið að endalokunum, og út frá kenningum Lyotards má það til sannsvegar færa. Sjávarútvegur á Íslandi byggði áður fyrr á því að menn gerðu út báta sína. Því meira sem þeir veiddu, í samanburði við það sem þeir kostuðu til, skilaði meiri framleiðslu og þannig tekjum. Samanburður manna í millum fólst í því hversu mikið menn veiddu út frá því hvernig báti menn voru á og hvernig veiðarfæri menn voru með. Oft var samvinna lítil, ef menn fundu gjöful mið létu þeir ekkert endilega vita af þeim, því ef þeir héldu þeim fyrir sig gátu þeir tryggt sér betri veiði en hinir. Kerfið var hins vegar opið, menn reiknuðu með því að geta aukið hag sinn, veitt sífellt meira með betri tækni og stærri skipum og staðið sig þannig bæði vel fyrir sig og í samkeppninni. Það var því þannig sem útvegurinn byggðist upp á mörgum aðilum í því sem kalla mætti heilbrigða samkeppni í opnu kerfi.

Þetta breyttist hinsvegar þegar veiðarnar hættu að vera sjálfbærar og fóru að leiða til ofveiði. Þá hættu hagkvæmni kapítalismans að virka, það fór að ganga á fiskistofnana og menn fóru vits vitandi að eyða því sem allt kerfið byggði á. Hér var komið kerfi sem hefði átt að skila arði, en var greinilega ekki til frambúðar. Sem betur fer gerðu menn sér grein fyrir því að hinn frjálsi kapítalismi sem áður hafði verið við líði gengi ekki lengur og brugðust við. Því miður, út frá sögu kapítalismans, völdu menn trúlega verstu mögulegu leiðina, leið sem leiddi beint inn í Matadorvæðingu fiskveiðanna, kerfinu var lokað og samanburðurinn snerist ekki lengur um hvað hægt var að veiða á hvað stórum skipum, heldur um það hversu miklu útgerðin gat stjórnað að endanlegum auði, af gullforða kvótans. Það hefði mátt hugsa sér ýmsar aðrar leiðir til lausnar, að menn borguðu gjald inn í kerfið út frá stærð skipa, út frá stærð veiðarfæra, út frá fjölda öngla, eða hvað sem er annað þar sem hagkvæmni hefði getað þróast og eðlileg samkeppni. Þá hefði hlutfallsleg hagkvæmni getað ráðið því hversu mikinn hag menn fengu út úr kerfinu. Það hefði getað leitt til þess að auknar tekjur, framleiðsla, miðað við það sem stofnað var til, hefði verið virðingarverð, samanburðarhæf. Í staðinn völdu menn kerfi sem var eins og sniðið að merkantílismanum, kerfi þar sem lokuð takmörkuð auðlind var til staðar, þar sem öfund og græðgi gat ráðið ríkjum, þar sem menn skuldsettu fyrirtækin með það markmið í huga að ná sem stærstum hluta af kökunni til sín, sem stærstum hluta af kvótanum, án hagkvæmnisjónarmiða. Þetta er það sem gerðist, og fyrir vikið vék hagkvæmishugsun fiskveiðanna fyrir hugmyndinni um yfirráð, uppbyggingu merkantílísks veldis í fiskiðnaði með tilheyrandi sóun.

Þessi hugsunarháttur varð síðan grundvöllurinn að einkavæðingu bankanna. Þar einbeittu menn sér að því í upphafi að koma völdunum til valinna aðila, til aðila sem voru þeim innan handar í iðnaði og innan fiskveiðikerfisins. Bankarnir voru í kjölfarið ekki reknir á grundvelli vaxta og hagsældar, heldur byggðu þeir á reynslu sjávarútvegsveldanna. Hinir nýju eigendur hugsuðu sér þá fyrst og fremst sem tæki í merkantíliskum skilningi, sem tæki til að ná völdum og stjórn inna lokaðs kerfis íslensks efnahagslífs. Inn í þetta valdakerfi soguðust síðan í kjölfarið skipafélögin, flugfélögin, tryggingafélögin, matvöruverslanirnar og fjölmiðlarnir. Málið var ekki endilega að reka þessi fyrirtæki vel eigendunum til hagsældar og til að skila arði sem nýta mætti í uppbyggingu. Málið var ekki að byggja félögin upp á skynsamlegan hátt í gegn um rekstur, heldur einfaldlega í því að stækka þau sem mest – í samanburði við hin félögin sem voru að bítast um sömu kökuna. Þegar völdum var náð þá var það heldur ekki spurning um að reka þau skynsamlega, heldur var áherslan á að sýna veldið sem mest, með sóun og eyðslu.

Þetta kerfi var merkantílismi, samkvæmt Lyotard, í sinni verstu mynd. Þetta sést vel í því þegar bónusgreiðslur til starfsmanna í verðbréfamiðlun voru orðnar meiri en tekjurnar í heild: Markmiðið var ekki að skila hagnaði heldur að fá stærri hluta verðbréfasölunnar inn í veldið. Þetta sést vel þegar bankar fóru að taka þátt í húsnæðislánum þótt stjórnendur vissu að þau væru óskynsamleg: Markmiðið var að ná völdum á húsnæðismarkaði, vera stærri en hinir, óháð hagnaði. Þegar aðstæður  opnuðust síðan utan landsteinanna til aðgerða héldu þessum mönnum síðan engin bönd. Þeir héldu áfram að starfa eins og þeir höfðu gert í litlu tjörninni sinni, fóru að keppast hver við annan í útþenslu og óhóflegum samanburði á innbyrðis stærð, óháð öllum hagkvæmissjónarmiðum. Merkantílísk hugsun var orðin svo allsráðandi að þótt ekki væri lengur um lokað kerfi að ræða létu menn samt eins og svo væri.

Nú þegar verið er að fara ofan í saumana á því sem gerðist, þá er nauðsynlegt að skoða ástandið á fjölbreyttan hátt. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að það eru mörg önnur öfl í gangi heldur en skynsemi sem ráða í tengslum við efnahagslífið, þótt skynsemin sé vitaskuld líka til staðar. Við, og stjórnvöld í umboði okkar, þurfum að vera þess vel meðvituð um að það er mannleg hugsun, mannleg hegðun, mannlegar hvatir, lífsvilji og áhættusækni, sem býr að baki efnahagslífinu. Þetta er að sönnu efnahagslíf og þar býr margt annað að baki, að auki við skynsemi og hagræna hugsun. Við þurfum að vera með opinn huga og skoða efnahagslífið og forsendur þess frá grunni með það í huga, ólíkt því sem stjórnvöld og almenningur hafa gert undanfarinn áratug. Við þurfum á skynsaman hátt að ráðast að rótum vandans. Trúlega þurfum við að breyta kvótakerfinu þannig að hvatt sé til hagkvæmni og skynsamlegrar nýtingar og að merkantílismi geti ekki ráðið þar ríkjujm. Við þurfum trúlega einnig að breyta því hvernig framleiðslu og dreifingu á orku er háttað, þannig að skynsemin sé ráðandi þar en ekki stundarhagsmunir og krafa um einfaldar hagtölur. Við þurfum að gæta þess að búa til umhverfi fyrir banka og lánakerfi þar sem hugmyndir um skynsamlega framleiðslu og ábyrg viðskipti ráða ríkjum, en ekki öfund og græðgi. Og við þurfum að muna að hagkerfi heimsins er og verður sífellt fyrir miklum áhrifum af öfund og græðgi; það þarf að búa þannig um hnútana að þessar tilfinningar verði aldrei framar ráðandi öfl í hagstjórn. Þetta er allt mögulegt ef við lítum raunsætt og af tilfinningu á hlutina, og lærum af mistökum nútímans.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: