Á sýningu Ívars Brynjólfssonar í Listasafni Íslands gefur að líta safn svarthvítra mynda, ferkantaðra, sem birta allar skoðun Ívars á aðstæðum á „karlavinnustöðum” á Íslandi, stöðum þar sem karlar ráða ríkjum og stýra umhverfi sínu. Um er að ræða fjölbreytt myndefni af allskonar verkstæðum og verksmiðjum, auk nokkurra mynda sem teknar eru í húsnæði sértrúarsöfnuða.
Í kafla sem nefnist De la ritournelle og birtist í bók franska heimspekingsins Gilles Deleuze og sálgreinandans Félix Guattari, Mille plateaux (Þúsund sléttur)birtist áhugaverð nálgun á listir og fagurfræði. Þeir leggja út frá því að grundvöllur smekks, gæðamats og sjálfsmats sé helgun svæðis. Þeir telja að þetta eigi almennt við um dýr, þar sé maðurinn ekkert sérstakur að neinu leiti. Grundvöllur og forsenda þess að lífverur helga sér svæði telja þeir jafnframt að liggi í því sem nefna mætti ítrekað stef, eða ritournelle upp á frönsku. Svæði er ekkert fast í hendi, eins og umhverfi, heldur þarf að viðhalda því stöðugt með allskonar merkjagjöf, hvort sem heldur er litum, hljóðum, tónum eða lykt. Það er í ítrekaðri merkjagjöf sem svæðið er skilgreint og oft eru merkin sem notuð eru við helgunina mótsagnarkennd og margslungin. Þeir nefna sem dæmi að í hefðbundnum dansi þjóðflokks í Afríku, þar sem einstaklingar helga sér svæði, er dansað í sikksakk. Sikkið í dansinum getur verið ógnandi, aðvörun, á meðan sakkið er aðlaðandi, daðrandi. Það er því aldrei hægt að festa í hendi hvað ræður við helgun svæðis, heldur á sitt við í hverju tilviki. Það kemur þó ekki í veg fyrir að þeim sem málið kemur við geri sér grein fyrir því að búið sé að helga svæði, þótt öðrum sé það engan vegin ljóst hvað sé á seyði. Þannig geta mörg svæði verið til staðar í sama umhverfi, oft háð hópum og dýrategundum. Hundum er vel ljóst hvernig svæði eru helguð í sínu umhverfi, þótt menn taki sjaldnast eftir merkingum þeirra. Hundar hafa smekk fyrir merkingu annarra hunda — á meðan fólk er fullkomlega smekklaust um svæði þeirra.
Estetíkin, fagurfræðin, eða skynspekin, sem væri meira réttnefni á íslensku, á grunn sinn í því að skoða hvernig smekkur verður til og hvernig hægt sé að leggja mat á skynræna þætti. Sé gengið út frá forsendum þeirra Deleuze og Guattari, þá á hún rætur sínar að rekja til svæðishelgunar, til þeirrar nauðsynjar í dýrlegu og mannlegu samfélagi að hafa smekk fyrir því hvernig svæði eru helguð og hversvegna. Hundar sem ekki eru smekkhundar eiga án efa minni möguleika á að komast af. Það gefur auga leið að þeir væru sífellt að koma sér í vandræði ef þeir skildu ekki hvernig ítrekun á svæðum annarra hunda kemur fram. Það má velta því fyrir sér hvort hið sama eigi ekki við í samfélagi manna.
Þegar litið er á smekk sem forsendu svæðishelgunar, þá er ljóst að skynspeki sem einungis lítur til einhverskonar viðmiðs um almenna fegurð hlýtur að vaða í villu. Sum svæði eru án efa helguð á grundvelli fegurðar, og á þá trúlega við að hverjum finnst sinn fugl fagur. En einnig er líklegt að aðrar forsendur ráði stundum þegar svæði er helgað, ef til vill forsendur sem sumir hafa smekk fyrir, en aðrir ekki. Það er þessi spurning sem vaknar þegar litið er yfir myndir Ívars af vinnustöðum karlmanna.
Þegar stakar myndir eru skoðaðar fær maður tilfinningu fyrir umhverfi sem mörgum myndi ekki þykja sérlega aðlaðandi. Yfirleytt er um hagnýtt umhverfi að ræða, greinilegt að ekki er verið að sóa tíma eða peningum í neitt fínerí. Það sem birtist í myndunum eru þeir hlutir sem þörf er á við vinnu dagsins, misskipulega uppsett. Eina skrautið í myndunum, fyrir þá sem smekk hafa fyrir því, eru dagatalamyndirnar af ungum fáklæddum stúlkum sem bregður fyrir í stöku mynd.
Þetta er ekki fegurð sem slík, ekki þegar ein og ein mynd er skoðuð. Þegar, hinsvegar, rennt er yfir sýninguna; Þegar myndirnar fara að mynda samhengi í heild, þá rennur samt á mann einhverskonar illur bifur: Það er eitthvað samhengi í myndunum, það er einhver tenging, og mann grunar að það sé eitthvað gildi í umhverfinu sem maður sjálfur hefur ekki endilega smekk fyrir. Út frá þeim félögum Deleuze og Guattari þá er það engin spurning að það sem á sér stað í þessum myndum, ef við lítum á þær sem fulltrúa þess umhverfis sem þær birta okkur, ef við lítum á skoðun Ívars sem marktæka, það sem á sér stað er einhverskonar svæðishelgun. En þessi svæði er á sama tíma einhverskonar menningarkimi, það eru ekki allir sem hafa smekk fyrir þeirri fegurð sem þarna býr, ef við köllum það fegurð sem er háð smekk. Þegar rennt er yfir myndirnar og heildarmynstrið greint, þá er samt augljóst að þær merkingar sem eru í gangi mynda einhverskonar heild, og út frá því getum við gefið okkur að þeim sem þetta kemur við sé gefinn smekkur fyrir þessum sömu merkingum.
Ívar hefur farið um bakherbergin, sem allir sjá en fáir í raun taka eftir. Í þessum herbergjum hafa menn helgað sér svæði á ítrekaðan hátt, en fyrir flestum eru þær merkingar ósýnilegar vegna þess að þeir hafa ekki smekk fyrir þeim. Við skoðun og birtingu Ívars á þeim umhverfum sem um er að ræða, í ítrekun hans á þeim svæðisbundnu merkingaratriðum sem birtast, þá fer myndin að koma í ljós, að framkallast. Þótt við skiljum ekki endilega hvað á í hlut, þótt við höfum ekki smekk fyrir því sem á sér stað, þá skilst okkur samt að um smekksatriði er að ræða, að það sem okkur þykir óskipuleg og illa hönnuð óreiða er trúlega svæðishelgun sem fylgir smekk annarra.Ívar hefur farið um bakherbergin, sem allir sjá en fáir í raun taka eftir. Í þessum herbergjum hafa menn helgað sér svæði á ítrekaðan hátt, en fyrir flestum eru þær merkingar ósýnilegar vegna þess að þeir hafa ekki smekk fyrir þeim. Við skoðun og birtingu Ívars á þeim umhverfum sem um er að ræða, í ítrekun hans á þeim svæðisbundnu merkingaratriðum sem birtast, þá fer myndin að koma í ljós, að framkallast. Þótt við skiljum ekki endilega hvað á í hlut, þótt við höfum ekki smekk fyrir því sem á sér stað, þá skilst okkur samt að um smekksatriði er að ræða, að það sem okkur þykir óskipuleg og illa hönnuð óreiða er trúlega svæðishelgun sem fylgir smekk annarra.
Þar sem ég er eina manneskja hér á landi mér vitanlega með sérstakt próf í fagurfræði vil ég mótmæla ítrekuðum tillögum þínum að nafnabreytingu á þessari undirgrein heimspekinnar. Skynspeki þykir mér t.d. ekki gott orð (og óþarfi að endurtaka “mistökin” í þýðingunni á “philosophie”). Þá sé ég engin rök fyrir því að “skynspeki” sé á einhvern hátt betra eða meira lýsandi fyrir viðfangsefni fagurfræðinga en orðið fagurfræði. Fagurfræði býr vissulega ekki yfir þeirri tvöföldu merkingu sem “estetkín” hefur fyrir þá sem þekkja uppruna orðsins í grísku og tengsl þessi við skynjun, en merking þess hefur alveg sömu skírskotun á t.d. frönsku og í íslensku, s.s. til fegurðar. Þótt fegurðin sé ekki eina viðfangsefni fagurfræðinga er skynjun það ekki heldur. Orðið “fagurfræði” getur vissulega verið villandi en uppruni þess sér skýringar sem tengjast viðfangsefni þeirra sem gerðu listir að sérstöku viðfangsefni innan heimspekinnar. Sjálfri þykir mér það skömminni skárra en skynspeki eða skynfræði (sem er líka viðfangsefni sálfræðinga).
“Fagurfræðingur” hljómar vissulega svolítið ankannalega, en skynfræðingur eða skynspekingur!? Hjálp! Þá vil ég heldur kenna mig við hreina og klára heimspeki.
Ekki spurning að skynspeki er heldur ekki gott orð, og gott að fá komment frá þér á það. Og það er alveg rétt að estetík eins og það er í almennri hefur í för með sér viðlíka einföldun í vísun og fagurfræði. Ef mig misminnir ekki kvartaði Kant einmitt yfir útvötnun hugtaksins þegar fyrir 1790 þegar hann var að vinna verk um það vald sem fylgir dómgreindinni og tekur á fagurfræðilegum álitamálum í víðum skilningi. Sama á við um önnur lykilhugtök nútímaheimspeki, eins og creativity sem mjög fljótlega hafði tekið á sig víðtæka alþýðumerkingu strax um 15 árum eftir að Whitehead reyndi að skilgreina það sem lykilhugtak í heimspeki sinni. Nú er það hugtak orðið hálfgert skrímsli sem varpað er fram hvenær sem þarf að krydda ófrumlegar ráðagerðir.
Það er vitaskuld þess vegna sem heimspekileg umræða reynir yfirleytt að skilgreina forsendur sínar og hugtök áður en hún beitir þeim, og möndl mitt með skynspeki er mjóróma tilraun í þá veru. Það er hinsvegar mikilvægt þegar slík hugtök eru notuð að ræða þau og skilgreina í hvert sinn þannig að umræðan falli ekki í almennan farveg þar sem menn álíta að samkomulag sé um notkunina. Og vitaskuld hljóta allir sem ræða heimspekileg málefni, af hvaða meiði sem þau eru, að kalla sig heimspekinga fyrst og fremst, hver sem séráherslan er. Það er ekki hægt að ræða fagurfræði, og hvað þá listheimspeki, án þess að taka fyrst fyrir grundvallarsjónarmið heimspekinnar og aðkomu manns (eða konu) að þeim.
Ég sé alveg ekki hvernig breyting á orðinu sjálfu – fagurfræði í skynspeki hjálpar til við að skilgreina hugtakið? Ef merking hugtaksins breytist þá þarf að skilgreina hvað í því felst og hugsanlega hvernig breytingin varð. Við búum ekki til nýtt hugtak (orð) yfir list þótt listin (hugtakið) sé ekki alltaf sú sama heldur reynum að skilgreina hvað við eigum við þegar við tölum um list. Það má því draga í efa að það eitt að skipta úr orðum hjálpi til við að skilgreininga tiltekið hugtak, a.m.k. í þessu tilfelli. Nær væri að reyna að átta sig á hvað við eigum við í dag þegar talað er um fagurfræði. Það gæti líka verið gagnlegt að gera greinarmun á fagurfræði sem grein í heimspeki og því sem kallað er fagurfræði listamanna þótt hið síðara sé viðfangsefni hinna fyrrnefndu.
Ef þú vilt nota orðið skynspeki, myndi ég hafa áhuga á að vita hvaða tilgangi það þjónar í þessu tilviki ef það vísar áfram í það sem kallast estetík á ensku/frönsku/þýsku osfrv? Þýðir það ekki að hugtakið er áfram það sama (þegar það hefur verið skilgreint), og að það eina sem hefur breyst er birtingarmynd þess, orðið, í tungumálinu?
Kannski er það trú Íslendinga á að orð séu og eigi að vera “gagnsæ” sem býr að baki þinni tillögu að skynspeki og tillögu Halldórs Björns sem vill kalla fagurfræði skynfræði. Mín spurning er þá sú hvort “skyn” sé meira lýsandi en “fagur” sem forskeyti á sömu fræðin?
Verðum við ekki bara sætta okkur við þá staðreynd að það eru ekki öll orð og hugtök “gagnsæ” og að íslenskan er t.d. að glata gangsæi sínu, það gerist óhjákvæmilega þegar þjóðfélagið tekur stökkbreytingum.
Gera heimspekingar ekki eimitt ráð fyrir því að orð séu “þykk” og að þess vegna sé þörf á að skilgreina hugtök? Hún fæst ekki við nýyrðasmíð fyrst og fremst þótt þetta tvennt þurfi ekki að útiloka hvort annað.
Er sammála þér í þessu, að vitaskuld er betra að nýta hugtakið fagurfræði og skilgreina þegar það á við, í stað þess að fara í orðhengilshátt. Þótt æskilegt sé að hugtök og þýðingar séu gagnsæ, þá er það vitaskuld svo að allar slíkar hugmyndir um gagnsæi tungumálsins eru í grunninn tálsýn. Það getur verið gagnlegt og mikilvægt að ræða og gagnrýna nýþýdd hugtök sem ekki hafa fengið festu, en trúlega er ráðlegra með þau eldri, sér í lagi þau sem fara vel í munni, að halda í þau en ræða frekar merkingu þeirra og skilgreina. Kannski við hæfi að vitna aðeins í lokaskilgreiningu Deleuze á fagurfræði í umfjöllun hans um gagnrýna heimspeki Kants:
Með tilliti til þess að fegurðin er þannig leiðarhnoð skilnings okkar á skynbragði, skynjun og breytni, þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að kalla estetíkina fagurfræði, nú sem fyrr?
Áhugaverð umfjöllun Hlynur. Svæðin er einnig hægt að skoða sem rými í skilningi Michel Foucault. sjá grein hans “Um önnur rými” Ritið:1/2002. Foucault fjallar þar um Heterótópíur (önnur rými) og nánar um kreppu-heteropíur og Heteropíur sem kenna má við frávik. Sýning Ívars Brynjólfssonar er í anda Foucault merkileg tilraun til að véfengja það rými sem við lifum í.