Sýningarhald og kyn

Kynning á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík árið 2010 bendir til þess að enn sé ástæða til að minnast á kynbundna mismunun í vali á listamönnum á opinberar sýningar hér á landi. Þetta er þó ekki algilt, víða eru hlutir í góðu lagi, en þar sem potturinn er brotinn er ástæða til að vekja máls á þessu, einu sinni enn. Í þetta sinnið er ætlunin að taka á þessu á uppbyggilegan máta, og gera tilraun til að kynna fyrir þeim sem vinna við að skipuleggja opinberar sýningar á hvaða hátt þeir geta unnið til að koma í veg fyrir að við val á listamönnum sé mismunað eftir kyni og tryggja á sama tíma að um marktæka birtingu á myndlistarsamhengi samtíman sé að ræða. Þegar mismunun eftir kyni á sér stað er nefnilega líklegt að samsvarandi skekkja á skilningi samhengisins komi fram.

Á sýningunni Raunveruleikatékk sem sett er upp á vegum Listahátíðar í miðbæ Reykjavíkur er mikil slagsíða á milli kynja. Æsa Sigurjónsdóttir er sýningarstjóri og það virðist vera hugmynd hennar um íslenskan listveruleika að velja 9 karlmenn til að taka þátt, en aðeins 3 konur. Á sýningunni Efnaskipti í Listasafni Reykjanesbæjar er hinsvegar þveröfugt uppi á teningnum. Aðalsteinn Ingólfsson hefur valið 5 konur á sýninguna en engan karlmann. Það er honum þó til málsbótar að sýningin er hugsuð sem þáttur í stærra ferli, sýning 3 karlmanna á síðasta ári var hugsuð sem hinn hluti verkefnisins. Þótt gera megi athugasemdir við sýningarhugmynd sem skiptir kynjunum upp á þennan hátt, þá er hlutfall kynjanna í heildarverkefninu vel ásættanlegt. Í Norræna húsinu hafa þau Spessi og Katrín Elvarsdóttir skipulagt sýninguna Núna – The Present Now, og þar er kynjahlutfall prýðilegt – 3 konur og 3 karlmenn. Það sama má segja um hlutföll á sýningunni Þekkjast þekkinguna í stjórn Ingarafns Steinarssonar og Ólafar Gerðar Sigfúsdóttur í Listasafni Árnesinga. Þau hafa valið 10 konur og 5 karlmenn til að sýna, sem er fyllilega í samræmi við kynjaskiptinguna í íslenskri myndlist í dag. Ekki hefur enn komið fram hverjir eru sýnendur á sýningunni Annað auga í Listasafni Reykjavíkur en í grein sýningarstjóra, Birtu Guðjónsdóttur, koma þó fram nöfn 7 karla og 6 kvenna þannig að út frá því má búast við þokkalegu jafnvægi kynjanna á sýningunni. Það stefnir því í að vera mun betra en á annarri sýningu í safninu sem fyrr hefur verið rætt um.

Það er nefnilega þannig í íslenskum listveruleika, eins og Ólöf Gerður mannfræðingur virðist gera sér ansi vel grein fyrir, að virkir þátttakendur í íslensku listalífi eru mun fleiri konur en karlmenn. Ef sýningarstjóri telur að hann hafi fingur á púlsi atburðanna þá ættu að minnsta kosti jafnmargar konur að vera þátttakendur í sýningum á samtímalist og karlar, og það er ekkert óeðlilegt við það að þær séu allt að tvöfalt fleiri. Þetta er veruleikinn í íslenskri myndlist í dag og sem betur fer eru það margir sýningarstjórar sem virðast vera meðvitaðir um þetta og skipuleggja sýningar sínar með það í huga. Þetta er sá raunveruleiki sem Æsa hefði mátt tékka betur á áður en hún gekk frá lista yfir sýnendur í Raunveruleikatékki.

Ef smellt er á myndina má fá fram stærri útgáfu sem er bæði læsilegri og sem má prenta út og hengja upp á vegg.

Ég hef vegna þessa ákveðið að koma til aðstoðar þeim sýningarstjórum sem eiga það til að klikka á þessu – að því er mér virðist – augljósa máli. Ég hef búið til örlítinn leik – eða flæðirit eins og það heitir í fyrirtækjum og stofnunum – þar sem menn geta tékkað sig af þegar þeir skipuleggja sýningar. Ég mæli með því að þeir sem eiga erfitt með þetta prenti þetta út og hengi upp á áberandi stað á skrifstofunni. Ef þessu ferli er fylgt ættu menn að vera nokkuð öruggir á því að mismuna ekki listamönnum eftir kyni framvegis þegar þeir skipuleggja sýningar á samtímalist. Samhliða því ættu sýningarnar að vera meir í sambandi við raunveruleikann, þótt sjálfsagt þurfi þó meira til!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: