Það sem fólk hefur áhuga á er ekki á dagskrá

Í niðurstöðum skýrslu um áhugasvið almennings í tengslum við menningu og afþreyingu sem birtist í Fréttablaðinu í dag kemur fram að mjög margir sækja listasöfn eða myndlistarsýningar og að mjög mörgum finnst einnig umfjöllun um menningu og listir eftirsóknarverð í fjölmiðlum. Sá hópur er mun stærri en þeir sem sækjast, svo dæmi sé tekið, eftir íþróttarumfjöllun í fjölmiðlum. Í kynningu frá Jóhönnu Jóhannsdóttur dagskrárstjóra Sjónvarps á málþingi SÍM, Sambands íslenskra myndlistarmanna, um myndlist og fjölmiðla á síðasta laugardag kom fram að suma mánuði er ekkert um myndlist í sjónvarpinu. Í stærsta dagblaðinu, Fréttablaðinu, er það einnig iðulega svo að lítil umfjöllun er um myndlist. Það vaknar því upp spurning um það hverju sætir að þessir fjölmiðlar skulu ekki sinna þessari umfjöllun betur, sér í lagi þegar liggur fyrir að áhugi er á henni.

Sjónvarpstæki, ótengt, enda reiknar áhorfandi ekki með því að þar birtist neitt um myndlist.

Þegar rætt var um grasrótarmiðla á ráðstefnunni kom Einar Falur Ingólfsson umsjónarmaður Lesbókar Morgunblaðsins, með áhugaverðan punkt í þessu samhengi. Hann telur ljóst að jákvætt sé að aukin umfjöllun  á sérsviðum fari fram á grasrótarmiðlum. Hins vegar benti hann á að þeir miðlar þjóni sérhæfðum og þröngum hópi fólks – til þess að sinna miðlun á ákveðnum sviðum til almennings þurfi að skapa vettvang í fjölmiðlum, eins og dagblöðum eða viðurkenndum dagskrármiðlum.

Það er ljóst að sumir fjölmiðlar hafa ekki lagt sig fram við að skapa slíkan vettvang, þrátt fyrir áhuga fólks. Þess vegna sækir fólk ekki í þessa fjölmiðla til að fá upplýsingar um myndlist heldur leitar annað. Fjölmiðlarnir hafa ekki virkjað þennan markaðshóp, ef svo má segja. Það kom einnig fram í máli Einars Fals að til að breyta fjölmiðlahegðun fjólks þarf tíma, Það er ekki hægt að koma með myndlistarumfjöllun í miðli sem hefur ekki sinnt henni og ætlast til þess að hún fái skyndivinsældir, þrátt fyrir áhuga fólks. Það þarf að byggja upp áhorfið, lesanda- eða áhorfendahópinn með markvissum aðgerðum í nokkuð langan tíma.

Það er þetta sem fjölmiðlar eins og Sjónvarpið og Fréttablaðið hafa vanrækt. Þeir hafa byggt á því formi sem þegar er í fjölmiðlunum, á þeim væntingum sem þegar eru gerðar til fjölmiðlanna. Þegar þeir hafa svo sýnt tilburði til að fjalla betur um myndlist og menningu þá hefur hvorki lesturinn né áhorfið orðið mikið. Þetta telja þeir til marks um lítinn áhuga, en átta sig ekki á því að áhorf og áhuga þarf að byggja upp.

Í könnun á áhuga í fjölmiðlum kemur fram að áhugi karla á íþróttum er mikið meiri en áhugi kvenna. Þótt einungis minnihluti fólks hafi áhuga á íþróttum í fjölmiðlum, þá er sá hópur að stórum hluta til karlar. Þetta er áhugavert í ljósi þess að einn fyrirferðamesti pósturinn í fjölmiðlum eins og Fréttblaðinu og Sjónvarpinu eru íþróttir. Sá hluti karlmanna sem hefur áhuga á íþróttum getur treyst því að eiga daglega aðgang að talsvert miklu efni um þær. Þar þarf ekki að byggja upp lestur eða áhorf. Að þessu leyti má segja að áherslur fjölmiðlanna séu karllægar, fjölmiðlahefðin er karllæg og þessir stóru miðlar gera litla sem enga gagnrýni við það. Enda er það svo að lestur og áhorf á íþróttum er nokkuð stöðugt, enda á fólk (lesist karlar) von á því að finna íþróttir í fjölmiðlum. Karlar (lesist karlar og konur með karllægar áherslur) hafa byggt upp lestur og áhorf á þessu sviði, þrátt fyrir að almennur (lesist óháð kyni) áhugi sé mun minni en á sviði lista.

Ef byggja á upp myndlistarumfjöllun sem fólk les eða horfir á þá er um langtímaverkefni að ræða. Langtímaverkefni sem skilar hagnaði með tímanum, það er enginn spurning. Það má segja að menn séu að kasta miklum tekjumöguleikum á glæ með því að sinna þessu ekki þegar liggur fyrir hversu mikill áhuginn er.

Það er ljóst að til þess að efla myndlistarumfjöllun í stærstu fjölmiðlum, og svara þannig áhuga almennings um hana, þarf átak. Það þarf að brjóta upp hegðunarmynstur áhorfenda og lesenda og byggja upp ný mynstur í samræmi við áhuga. Ríkisfjölmiðli ber beinlínis skylda til að gera slíkt. Það er einnig að vissu leyti hneisa að stór fjölmiðill eins og Fréttablaðið skuli ekki leitast við að birta efni í samræmi við áhuga lesenda sinna. Það kemur til með að leiða til tilkostnaðar til að byrja með, á meðan lesendur og áhorfendur eru að átta sig á breyttum áherslum, en það kemur einnig til með að skila sér í betri tekjum með tímanum þegar meirihluti fólks (lesist konur og karlar með meiri áhuga á listum en íþróttum) hefur vanist þeirri hugsun að ef til vill sé einhver umfjöllun um áhugamál þeirra í miðlum sem telja sig þjóna hagsmunum almennings.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: