Örstuttur pistill um formannsslag í SÍM

Nú stendur yfir slagur á milli listamannanna Hlyns Hallssonar og Hrafnhildar Sigurðardóttur um embætti formanns í SÍM. Svo býr við að kosningabarátta hefur verið með líflegra móti og báðir frambjóðendur verið duglegir að tjá sig á opinberum vettvangi. Þetta er kærkomin nýjung, því hingað til hefur það verið svo að þegar einhver spenna hefur hlaupið í formannskjör samtakanna þá hafa umræður og skoðanaskipti farið að mestu fram á bak við tjöldin. Nú er hún hinsvegar opin og skilmerkileg þannig að félagar ættu að geta tekið upplýsta ákvörðun um annan hvorn frambjóðanada.

Hlynur Hallsson er sitjandi formaður, og þessvegna er eðlilegt að Hrafnhildur sæki að honum með ákveðnum málflutningi. Hrafnildur byrjaði umræðuna með skilmerkilegum yfirlýsingum um stefnu og markmið og Hlynur svaraði fimlega fyrir sig, setti fram sín eigin markmið og hugmyndir um framtíð samtakanna auk þess að svara þeim punktum þar sem augljóst var að gagnrýni Hrafnhildar sneri gegn honum. Allt fór þetta fram í rituðu máli á vettvangi sambandsins.

Hrafnhildur brást þá við á nýstárlegan hátt með því að birta stuttar kvikmyndir á vefnum (sem hún kallar reyndar „myndbönd”) þar sem hún á möguleika á að ná beinskeytara sambandi við félagsmenn. Þetta er sniðuglega til fundið, að nýta myndrænan miðil til að ná til myndlistarmanna, nútímalegt og sýnir tæknilega getu.

Walter Benjamin.

Þetta minnir mig í eitt mikilvægasta framlag Walter Benjamin til bæði fagurfræði og samfélagsmála í hárbeittri greiningu hans á þróun stjórnmála á millistríðsárunum. Í grein sinni Das Kunstwerk im Zeitalter seiner technichen Reproduzierbarkeit, sem ég vil þýða á íslensku sem Listaverkið á tímum tæknilegrar birtingarmöguleika sinna, kemst hann að þeirri niðurstöðu í lokin að birtingarmynd fasismans fælist í því sem hann kallar fagurfræðivæðingu stjórnmálanna. Hann vill bregðast við þessu á beinskeyttan hátt og kallar því eftir stjórnmálavæðingu listarinnar sem andsvar frá hendi kommúnista, sem hann taldi vera skoðanabræður sína.

Benjamin dó því miður á sorglegan hátt í upphafi seinni heimstyrjaldarinnar og náði því ekki að fylgjast með því þegar stjórnmál í heild, kommúnistar, demókratar og verkamannaflokkar, auk fasista, urðu vettvangur fagurfræðilegra ákvarðana og skoðanaskipta – undir lok 20. aldar má segja að fagurfræðivæðing stjórnmálanna hafi orðið svo til alger með samsvarandi fagurfræðivæðingu efnahagsmála, eins og franski félagsfræðingurinn Jean Baudrillard greindi á svo áhrifaríkan hátt.

Það má því segja að það sé löngu orðið tímabært að samtök myndlistarmanna fylgi almennri þróun í stjórnmálunum og innleiði fagurfræðilega aðferðafræði í baráttu til stjórnar. Myndbirting Hrafnhildar í baráttunni fylgir því almennri þróun stjórnmálanna. Hins vegar er leitt að enn eru fáir til að svara kalli Benjamin, um að listin sjálf stjórnmálavæddist. Ýmsar hreyfingar hafa orðið í þá átt í listasögunni og má telja að eitthvað hafi áunnist í baráttunni, þótt ekki sé það áberandi á vettvangi stjórnmálanna. Snorri Ásmundsson kom með skemmtilegt inngrip í forsetakosningar fyrir nokkrum árum, sem telja mætti prýðis tilraun í þessa veru. Hann bauð sig fram í kosningunum sem listrænan gjörning og sýndi með því fram á hvað kosningabarátta andstæðinganna var lituð af fagurfræðilegum áherslum.

Það er að vissu leyti leitt að Snorri skyldi ekki blanda sér í baráttuna sem nú er að ljúka hjá SÍM.

3 thoughts on “Örstuttur pistill um formannsslag í SÍM

 1. Einn kollegi okkar kom að tali við mig um daginn og lýsti áhyggjum sínum yfir því að “hið ótrúlegasta fólk” ætlaði að kjósa Hrafnhildi eða væri allavega ekki búið að taka ákvörðun. Og svo spurði hann einmitt “hver er þessi Hrafnhildur eiginlega?”
  Mér dettur í hug kvikmynd sem ég sá fyrir mörgum árum, The Best man, sem fjallar um forsetaframboð í BNA. Tveir frambjóðendur sem taldir eru sigurstranglegastir, leiknir af Henry Fonda og Cliff Robertson, takast svo hart á og reyna að fella hvorn annan á ýmisskonar slúðursögum að þriðji forsetaframbjóðandinn, sem aldrei sást í myndinni og hafði sig ekki frammi líkt og hinir, er kosinn, Einn blaðamaður segir einmitt “who the hell is he?”
  Hrafnhildur lét mikið vita af sér og sýndi vissa “prómót” fagmennsku í baráttunni, sem hún þurfti þar sem hún er ekki jafn þekkt á meðal listamanna og Hlynur. Ég velti því fyrir mér hvort það hafi ekki komið henni til góðs að vera “óþekkt” og óbundin nokkrum hópi og margir listamenn hafi verið tilbúnir að kjósa einhvern í formennsku sem það þekkir ekki vegna þess að þeir vilja eitthvað “óþekkt” fyrir nýja tíma, nýja Ísland. Liggur við að segja þetta antí-popúlískan sigur.

 2. Jú, það er rétt hjá þér, og kannski er þett i til marks um möguleika grasrótarmiðlunar í nútímanum. SÍM er lítil félag, og aðgengi að félagsmönnum tiltölulega gott í gegn um póstlista og vefi félegsins. Hins vegar er spurning hvort maður geti ekki daðrað við þá útópíu að í almennum stjórnmálum komi allir til með að sitja við sama borð í framtíðinni, að það þurfi ekki lengur 4 milljónir til þess að vekja athygli á sér í prófkjöri í 20.000 manna kjördæmi, heldur geti allir nýtt sér frjálsar opnar veitur án kostnaðar og þannig náð því að fanga athygli og koma stefnumiðum sínum fram. Í útópíu væri það skref í átt til raunverulegs lýðræðis.

 3. Stjórnmálavæðing listarinnar finnst mér merkilegt að íhuga og í því samhengi hugmyndir Antonio Gramsci og hugmyndir um menningarlegt forræði (egemonia)
  Hugmynd Gramsci felst í að ráðandi þjóðfélagshópur nái tökum á samfélaginu í gegnum þær stofnanir sem hann skapar og þannig nær hann að festa sín eigin gildi sem almenn gildi.
  “En sérhver „grundvallandi”þjóðfélagshópur sem verður til í sögunni úr fyrra framleiðslukerfi, sprettur fram sem tjáning á þróun kerfisins, hefur fundið sér, í það minnsta eins og sagan hefur þróast hingað til, félagslega flokka [categorie sociali] sem þegar voru til staðar og birtust þaðan í frá sem fulltrúar fyrir samfellda sögulega framvindu sem meira að segja flóknustu og róttækustu breytingar á félagslegum og pólitísískum formum fengu ekki rofið.”(bls 145, Gramsci “Menntamenn” í Ritið 2-3/2009.
  “Eitt mikilvægasta einkenni hvers þess hóps sem stefnir á vit yfirráða er barátta hans fyrir því að vinna hinu hefðbundnu menntamenn „hugmyndafræðilega” á sitt band og sölsa þá undir sig, en hraði og áhrifamáttur þessarar liðsöfnunar og landvinninga eykst samhliða því að viðkomandi hópur elur með sér sína eigin náttúrulegu menntamenn” (Gramsci, “Menntamenn”í Ritið 2-3/2009 bls 147)
  merkilegt já og þannig má eflaust rekja ástæður þess að málsvarendur menningar og lista eru ekki öflugt teymi innan stjórnmálanna. Þeir eru bara of fárir sem koma úr listageiranum. En vonum að þar verði breyting á. í útópíu okkar listamanna væri Alþingi og samfélagið allt yfirfullt af “menntamönnum”, í skilningi Gramsci, sem kæmu úr röðum listamanna og gætu þannig komið af stað samfelldri sögulegri framvindu og þróun innan menningar og lista.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: