Veröldin er líkt og tónverk sem byggist á hlutföllum og töktum, smáum sem stórum. Hin fornu trúarbrögð, jarðartrúin, byggðist á athöfnum endurfæðingar þar sem hlutföllin endurskapa sig í sífellu. Heimsmyndirnar sem markaðar voru í land við helgun lands, voru markaðar samkvæmt þessum hlutföllum. Hlutföllin og takturinn eru byggð inn í mann fólkið líkt og taktur hjartans eða lengd dags og nætur, heimsmyndirnar eru því allar eins í veröldinni. Við Íslendingar þurfum að segja þessa frétt því menningarsvæði og höfuðborgir um allan heim eru byggð á afmörkuðum landsvæðum þessarar tegundar og eru flestar borgir heimsins því skipulagðar samkvæmt æfa fornum heimsmyndum sem Einar heitinn Pálsson fræðimaður uppgötvaði í launmáli Njálu. Komin var mörg þúsund ára hefð fyrir heiðnum trúarbrögðum við upphaf Íslandsbyggðar. Má því ætla að landnámsmenn hafi gengið fumlaust til verks þegar þeir mældu á Rangárvöllum síðustu heimsmynd af þessu tagi í veraldarsögunni. Við mælingu heimsmyndarinnar á Rangárvöllum var þar með bundinn endi á mörg þúsund ára þróunarsögu helgisiða mannkynsins, því lönd og eyjar sem numin voru eftir árið þúsund voru helguð Kristi hinnar nýju trúar.
Myndlestur íslenskra skinnbóka og samanburður við útlönd getur varpað ljósi á uppbyggingu menningarsvæða veraldar. Táknin velkjast þar um líkt og í málverki. Bók mín, Stærð veraldar, er púra formfræði, nátengd myndlist. Það má líta á myndlæsi sem nýtt tæki til að lesa menningarsöguna. Ég held að Listaháskóli Íslands eigi að stofna Goðfræðideild.
Pétur H.