Óréttmæt úrslit kosninga

Til að framsal fullveldis einstaklinga til fulltrúa sinna í lýðræðiskerfi sé réttlátt skiptir miklu máli að þær reglur sem lúta að framsalinu séu óhlutlægar og mismuni ekki kjósendum út frá vali sínu. Það kerfi sem notað er á Íslandi við að reikna út fjölda sæta með tilliti til atkvæða flokkanna er hins vegar gallað. Það leiðir til þess að í flestum kosningum á Íslandi hljóta atkvæði kjósenda sem velja stærri flokkana meira vægi en atkvæði þeirra sem velja smærri flokkana. Ef menn kjósa að halda áfram að nota hlutfallskosningu sem byggir á flokkalistum á Íslandi, með þeim vandkvæðum sem henni fylgir, þá er það lágmarkskrafa að aðferðin við það að reikna út sæti flokka út frá atkvæðatölu sé leiðrétt þannig að engum sé mismunað.

Dæmi um beina hlutföllun út frá aðferð Websters. Hér eru raunverulegar tölur úr kosningunum 2010 notaðar. Smellið á mynd til að sjá hana á læsilegan hátt.

Aðferðir við hlutföllun atkvæða hafa verið við lýði frá upphafi lýðræðis á Vesturlöndum, þær voru fyrst þróaðar í Bandaríkjunum fyrir rúmum 200 árum. Hugmyndin byggir á því að hver flokkur, eða listi, hljóti sæti á þingi eða í stjórn í hlutfalli við þau atkvæði sem hann fær. Hver kjósandi kýs einn lista og ef lýðræðið er réttlátt þarf að tryggja að hvert atkvæði hafi sem næst sama vægi í vali fulltrúa. Þegar um hlutfallskosningu er að ræða og takmörkuð sæti í boði hefur þetta í för með sér að það þarf að námunda fjölda atkvæða að þeim sætum sem eru í boði. Ef til dæmis er verið að kjósa um 11 sæti í bæjarstjórn þá er byrjað á því að deila í heildartölu atkvæða með 11 og sú tala síðan notuð til að deila í þann fjölda atkvæða sem hver listi hefur fengið. Sú tala er síðan námunduð upp eða niður að næstu heilu tölu og þannig fæst sá fjöldi sæta sem listinn fær. Þegar þessari aðferð er beitt getur hins vegar verið að heildarfjöldi sæta út frá námundun sé einu sæti fleiri eða færri en þau sæti sem í boði eru eftir því hvernig atkvæðin dreifast. Þegar það gerist þarf að hækka eða lækka atkvæðatöluna sem deilt er með þar til réttur fjöldi sæta næst. Í töflunni hér til hliðar er þessari aðferð beitt á atkvæðatölur í Hafnarfirði annarsvegar og á Akureyri hinsvegar í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Upphaflegi reiknistuðullinn í Hafnarfirði var 900 atkvæði á hvert sæti. Á töflunni sést að sá stuðull leiddi upphaflega af sér 12 sæti, eða einu of mörg. Það þurfti hins vegar einungis að auka stuðulinn um eitt atkvæði til að fækka sætum í rétta tölu, eða 11. Á Akureyri var upphaflegi stuðullinn 836. Námundun út frá honum leiddi einungis af sér 10 sæti, eða einu færri en í boði voru. Til að fá út niðurstöðu með 11 sætum þurfti að lækka stuðulinn um 23 atkvæði, eða niður í 813. Þá var hægt að útdeila 11 sætum til listanna sem voru í framboði.

Þessi aðferð við hlutföllun sem notuð var í dæminu hér fyrir ofan var meðal annars þróuð af bandaríska þingmanninum Daniel Webster snemma á 19. öld fyrir þingkosningar í Bandaríkjunum. Aðferðin er einföld og skilar sér í því að gott samræmi er á milli hlutfalls atkvæða í kosningu og hlutfalls sæta sem listi fær úthlutað. Þegar reikningar fara fram handvirkt getur framkvæmdin þó verið nokkuð seinvirk. Vegna þessa þróuðu menn aðferðir þar sem deilt er í atkvæðin með hækkandi stuðli, eins og 1, 2, 3 o.s.frv., og sæti ákvörðuð með því að finna hæstu niðurstöðutölurnar. Þegar 11 eru í kjöri eru 11 hæstu stuðlarnir notaðir til að ákvarða hvaða listi fær hvaða sæti. Þetta er sú aðferð sem notuð er í Alþingis- og sveitarstjórnarkosningum á Íslandi. Aðferðin var upphaflega þróuð af belgíska stærðfræðingnum Victor d’Hondt á síðari hluta 19. aldar til notkunar í þingkosningum í Belgíu. Kosturinn við aðferðina er að hún er einföld, deild er í atkvæðatölu hvers flokks með stighækkandi tölu og niðurstöður fengnar með því að bera saman útkomuna, þ.e. hversu mörg hlutfölluð atkvæði eru á bak við hvert sæti. Gallinn við þessa aðferð er hins vegar sá að hún er ónákvæm á þann hátt að stærri flokkar fá yfirleitt hærra hlutfall sæta en atkvæðatala þeirra segir til um á meðan minni flokkar fá lægra hlutfall. Þessi munur eykst með auknum mun á fylgi.

Á Vesturlöndum hafa vegna þessa verið þróaðar aðrar aðferðir við hlutföllun sem ekki hygla stórum flokkum á þennan hátt. Franski stærðfræðingurinn André Saint-Laguë þróaði í upphafi 20. aldar aðferð sem skilaði sömu niðurstöðu og aðferð Websters og er álíka einföld í framkvæmd og aðferð d’Hondt. Munurinn er einfaldlega sá að í stað þess að hækka deilitöluna um einn í hvert skipti er hún hækkuð um tvo, s.s.: 1, 3, 5, 7 o.s.frv.

Þessi aðferð var meðal annars tekin upp við útreikninga á niðurstöðum kosningar í Svíþjóð árið 1952.1

1Um þróun kosningaaðferða á Norðulöndum má benda á: Bernard Grofman, The evolution of electoral and party systems in the Nordic countries (New York: Agathon Press, 2002).

Danska aðferðin er hins vegar ein af þeim sem fer lengst í að styðja við smærri flokka. Þar er munurinn á deilistuðlunum 3, s.s. deilt er í atkvæðatöluna með stighækkandi tölu þar sem 3 er á milli: 1, 4, 7, 10 o.s.frv. Ef sætum er úthlutað með þessari aðferð er vægi smærri flokka áberandi meira en þeirra stærri. Það má greina í muninum á d’Hondt aðferðinni og þeirri dönsku grundvallarafstöðumun til þess hvernig afstaða kjósenda birtist í kosningum. Ef d’Hondt aðferðinni er beitt þá er verið að reyna að hafa áhrif á niðurstöðuna á þann hátt að stóru flokkarnir fái aukin völd í hendur og þurfi ekki að taka tillit til þeirra smærri við ákvörðunartöku. Ef dönsku aðferðinni er beitt, þá er áherslan á það að sem flestir hópar eigi sér fulltrúa í stjórn. Það hefur þau áhrif að valdamestu flokkarnir geta síður beitt valdi sínu á kostnað þeirra minni og að raddir fleiri sjónarmiða eiga sér fulltrúa á þingi eða í sveitarstjórn.

Í ljósi þessara sjónarmiða er greinilegt að sú aðferð sem best túlkar hlutfallstölu kjósenda yfir í hlutfall sæta er réttlátust, að minnsta kosti ef horft er til meðalhófs. Ef litið er til réttar kjósanda, þá er það hans réttur að reynt sé að stilla hlutföllun þannig af að hvert atkvæði hafi sama vægi, að svo miklu leyti sem það er unnt. Þegar d’Hondt aðferðin er notuð, eins og á Íslandi, fá kjósendur stærri fylkinganna meira vægi í kjörinu en þeir sem kjósa þá minni. Ef danska aðferðin er notuð fá hinsvegar kjósendur minni flokkanna meira vægi en kjósendur þeirra stærri. Út frá forsendum framsals fullveldis, sem er hornsteinn lýðræðisins, þarf því að gera þá kröfu að þeim aðferðum sé beitta við kjör fulltrúa sem eru hvað óvilhallastar.2

2Sjá meðal annars: Kenneth Benoit, “Which Electoral Formula Is the Most Proportional? A New Look with New Evidence,” Political Analysis 8, no. 4 (n.d.): 381-388.

Rannsóknir hafa sýnt að aðferð Saint-Laguë er sú sem veitir listum sæti á þann hátt sem mest er í samræmi við stuðning kjósenda. Það er á þeim rökum sem eðlilegt er að krefjast þess að ef Íslendingar ætla að halda áfram að nota listaaðferðir við kosningar til þings og sveitarstjórna, þá verði aðferðum við útreikning sæta breytt í átt til meira réttlætis.

 Til að útskýra mál þetta betur er gott að skoða nokkur dæmi úr nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum. Þar er misjafnt hversu mikil áhrif skekkjunnar í d’Hondt kerfinu hafa. Í Reykjavík hefðu sæti skipast á nákvæmlega sama veg hvort sem d’Hondt aðferðinni eða Saint-Laguë aðferðinni hefði verið beitt. Því má segja að umboð flokkanna í Reykjavík sé ótvírætt.

Því miður á hið sama ekki við í öðrum stærstu sveitarfélögum landsins. Í þeim flestum eru áhrif skekkjunnar sem felast í útreikningum samkvæmt d’Hondt kerfinu þau að stærri listarnir hafa fengið fleiri sæti en þeim bar og minni listarnir færri.

Í Kópavogi er misræmið út frá SLI% stuðli mjög mikið þegar niðurstöður eru fengnar með aðferð d’Hondt. Misræmið minnkar mjög mikið ef aðferðum Saint-Laguë væri beitt. Smellið á mynd til að sjá hana á læsilegan hátt.

Í Kópavogi fékk stærsti flokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, úthlutað 4 sætum af 11 í bæjarstjórn út frá reglum d’Hondt. Ef hlutföllun hefði verið réttlátari hefði flokkurinn einungis fengið 3 fulltrúa og Næst besti flokkurinn átti í raun að á tvo í stað eins. Skekkjan í kerfinu leiddi hér til þess að Sjálfstæðisflokkurinn fær aukafulltrúa á kostnað Næst besta flokksins.

Hér eru niðurstöðurnar úr Hafnarfirði. Hér er greinilegt hvað misvægið minnkaði mikið ef hlutfallatölum Saint-Laguë væri beitt.

Í Hafnarfirði er þetta enn afdrifaríkara. Þar fá bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur 5 fulltrúa. Ef útreikningar hefðu byggt á réttlátari forsendum hefði hvor um sig einungis átt að fá 4 fulltrúa. Vegna skekkjunnar í því kerfi sem notað var við hlutfallsreikninga misstu framsóknarmenn sinn eina fulltrúa í bæjarstjórn og Vinstri græn annan þeirra sem þeir hefðu með réttu átt að fá.

Hér er skýrt hvernig hreinn meirihluti Lista fólksins byggir á skekkjunni í útrikningum.

Á Akureyri eru niðurstöðurnar hins vegar afar afdrifaríkar. Þar fær Listi fólksins hreinan meirihluta í bæjarstjórn, 6 sæti, eða tæp 55% sæta, með einungis 45% atkvæða. Hér er afar greinilegt hvernig kerfið gefur þeim stærri aukin völd. Í réttlátara kerfi hefði Listi fólksins einungis átt að fá 5 sæti en Sjálfstæðisflokkur tvö. Með því að d’Hondt aðferðinni er beitt við hlutföllun atkvæða má því segja að Listi fólksins hafi haft eitt sæti í bæjarstjórn af kjósendum Sjálfstæðisflokksins.

Hreinn meirihluti sjálfstæðismanna er ekki réttmætur eins og sjá má hér.

Í Mosfellsbæ er það sama upp á teningnum. Þar veldur óréttlát aðferð við hlutföllun atkvæða því að Sjálfstæðisflokkur fær hreinan meirihluta, 4 sæti, með minna en helming atkvæða. Þar missa Framsóknarmenn það sæti sem þeir hefðu með réttu átt að fá til Sjálfstæðismanna.

Þótt engin spurning sé um að Sjálfstæðisflokkur eigi rétt á hreinum meirihluta á Reykjanesi, þá er hins vegar ekki réttlátt að gallað kerfi gefi honum aukafulltrúa á kostnað Vinstri grænra. Smellið á mynd til að sjá hana á læsilegan hátt.

Í Reykjanesbæ hlaut Sjálfstæðisflokkur 7 sæti af 11, eða tæp 64% sæta með einungis um 53% atkvæða. Ef meðalhófs hefði verið gætt hefði flokkurinn einungis átt að fá 6 sæti, hreinan meirihluta, en þá hefðu kjósendur Vinstri grænna fengið sinn réttmæta fulltrúa í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.

Þessi dæmi sýna vel þau gífurlegu áhrif sem óréttlát skipting sæta í sveitarstjórnum hefur. Í öllum stærstu sveitarfélögunum, utan Reykjavíkur, veldur óréttlát reikniregla því að vægi þeirra sem kjósa smærri listanna er minna en þeirra sem kjósa þá stærri. Oft hefur þetta þau áhrif að flokkar ná hreinum meirihluta þannig að að stjórn bæjarfélagsins koma ekki þau ólíku sjónarmið sem fylgja því að ólíkir flokkar þurfa að komast að samkomulagi um áherslur. Oft leiðir þetta einnig til þess að kjósendur minni flokkanna missa fulltrúa sinn í bæjarstjórninni. Að teknu tilliti til þess að klárlega eru til staðar mikið betri aðferðir við skiptingu sæta, þá er það að vissu leyti hneyksli að þessum úreltu aðferðum skuli enn vera beitt hér á landi. Kjósendur eiga kröfu um það að bestu aðferðum sé beitt við yfirfærslu fullveldis þeirra til kjörinna fulltrúa.

Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að sú leið sem best treysti rétt kjósenda til að yfirfæra fullveldi sitt yfir á fulltrúa sína á lands- og sveitarstjórnar stigi væri að taka upp kosningu sem byggði á einu yfirfæranlegu atkvæði, sú leið leiddi af sér persónulegri kosningu þar sem vægi hvers atkvæðis væri hið sama, þar sem réttindi kjósandans til að velja sér fulltrúa eru í forgrunni, en ekki réttindi flokka til valda. Breyting á kerfi dugar ekki ein sér til að byggja upp trúverðugt pólítískt kerfi hér á ný, en það er hins vegar lágmarksforsenda fyrir slíku kerfi að aðferðir við kosningar séu eins réttmætar og réttlátar út frá réttindum hvers einstaks borgara og kostur er á. Vegna þessa verður að snúa baki við aðferðum sem á kerfisbundinn hátt möndla með vilja kjósenda og bjaga niðurstöðuna á þann hátt sem gert var í nýafstöðnum kosningum í Hafnarfirði, Kópavogi, Akureyri, Mosfellsbæ og Reykjanesbæ. Það er á forsendum valdsins sem vægi kjósenda stærri flokkanna er meira í útreikningi en hinna smærri, ekki á forsendum rétts kjósenda til að velja sér fulltrúa.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: