7/4 > 2010?!?

Ljóslitlifun er nafn á sýningu sem nýverið var opnuð í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur. Hafþór Yngvason safnstjóri sá um skipulag sýningarinnar. Sýningin er misjöfn að gæðum og uppsetning sérkennileg (en meir um það siðar), en áberandi er val á sýnendum, sem ég tel einkennilegt á samtímasýningu í dag: Á sýningunni má sjá verk 7 karla og 4 kvenna.

Mynd af verki eftir Söru Riel á Ljóstillífun frá 2009.

Áhugavert er í þessu samhengi að lesa skrif sýningarstjóra um sýninguna. Tilgangur sýningarinnar, að sögn hans, er að: „kynna hóp ungra íslenskra listamanna sem hafa lagt stund á málaralistina á síðustu árum.”1

1 Sjá grein á vef Listasafns Reykjavíkur: http://listasafnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/tabid-2237/3530_read-18760

Gott og blessað, ekki verra að kynna hóp listamanna. Síðar kemur þó fram að ekki er um eiginlegan hóp listamanna að ræða: „Listamennirnir
ellefu sem leiddir eru saman á sýningunni mynda ekki hreyfingu og það
er tilgangslaust að reyna að troða þeim í snyrtilega flokka”2

2 Sama

. Þetta er semsagt tilbúinn hópur, sem þá safnstjórinn hefur valið saman, já, já. En hvað skyldi hafa ráðið valinu? Jú, þar kemur fram að: „Listamennirnir á Ljóslitlífun voru
valdir vegna þeirra sjónrænu einkenna sem tengja þá og þeirra girnda
sem verk þeirra tjá.”3

3 Sama

Gott og blessað, sjónræn einkenni, hvort ætli að hann eigi við einkenni málverka þeirra, eða útlit listamannanna sjálfra? Hvaða girndir eru þetta eiginlega, er það málið? Í fréttatilkynningu er þessu að nokkru svarað: „Engu að síður eru verkin ekki einsleit. Sum eru grófgerð og
tilfinningaþrungin en önnur hófstillt og öguð, með vandlega dregnum
formum og mynstri.”4

4 http://listasafnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/tabid-2182/3368_read-1544/date-1475/

Þannig að verkin eru ólík útlitslega, ætli það hafi verið sjónræn einkenni listamannanna sem skiptu máli, „gerfi” á kynjamáli, eða hvað? Safnstjóri segir einnig að: „Einn
tilgangur sýningarinnar er að votta brennandi áhuga yngri kynslóðar
listamanna á Íslandi á því að mála á tímum þar sem innsetningar,
hljóðlist og vídeó virðast allsráðandi.”5

5 http://listasafnreykjavikur.is/desktopdefault.aspx/tabid-2237/3530_read-18760

Skemmtilegt, það á að vekja málverkið til lífsins. Þótt flestir umræddra listamanna vinni samhliða með innsetningar, hljóðlist og vídeó, þá er mikilvægt að taka einn þátt listar þeirra úr því samhengi. Fínt, málverkið lifi!

En hvað er það við þessa röksemdafærslu sem útskýrir hvers vegna svona fáar konur voru fyrir valinu? Ég þekki fjólmargar konur sem eiga það til að vinna á áhugaverðan hátt með skæra liti og form, sem virðist vera yfirhugmynd sýningarinnar. Og konur eru ekki endilega þekktar fyrir það að vera afhuga girnd þegar kemur að myndlist (þótt mér þyki orðaval sýningarstjóra hér helst til óvarlegt, girnd er of litað lúterskum velsæmisfordómum á Íslensku, hafi sýningarstjóri ætlað að ræða um desire þá hefði ég frekar notað orðið þrá, en það er útúrdúr). Margar ungar konur túlka tilfinningar í myndlist á óbeislaðan hátt, ekki síður en ungu mennirnir á sýningunni.

Ég vil gera þá kröfu að þeir sem veita opinberum liststofnunum á Íslandi forstöðu séu almennt gagnrýnir á það hvernig þeir velja í sýningar sínar, að þeir líti í eigin barm áður en þeir raða saman listamönnum og velti því fyrir sér hvort undirliggjandi fordómar hafi teljandi áhrif á val listamanna. Á sýningu eins og þessari, þar sem hugmyndafræðin er opin og allar leiðir færar, þá er engin áberandi ástæða fyrir því að úr hópi yngri listamanna landsins hafi óvart orðið fyrir valinu 7 drengir og 4 stúlkur. Þegar sýningarstjóri velur listamenn saman eftir annarsvegar þeim sjónrænu einkennum sem tengja þá og þeirra girnda sem verk þeirra tjá þá er engin ástæða fyrir því að konur séu í minnihluta, þótt þær hafi verið það í tímum Cézannes. Af þeirri kynslóð listamanna sem verkin á sýningunni eru valin eftir eru konur í miklum meirihluta. Það eru margar sem nýta sér sér skæra liti og áberandi teikningu. Það er leitt að þeirra hlutur sé ekki meira áberandi á sýningunni.

Hvaða girndir er Hafþór annars að tala um?

5 thoughts on “7/4 > 2010?!?

  1. Kíktu á þennan hlekk Hlynur, http://www.moma.org/interactives/exhibitions/2007/comic_abstraction/flash.html
    Þetta er fyrirmyndin að Ljóslitlifun. Sýningin var haldin í MOMA. Minnir á tíma þegar listfræðingar voru að setja saman hóp listamanna sem stóðu fyrir eitthvað manifestó. Áhugaverðar pælingar sýningarstjóra, samt pínu barnalegar á köflum -aðallega þetta með að listamenn séu að rannsaka poppkúltúrinn með því að mála poppkúltúrmyndir. þeir eru auðvitað bara hluti af poppkúltúrnum og nota það myndmál. Eru ekkert endilega að rannsaka hann.
    Þessi sýning í Hafnarhúsinu er á svipuðum nótum og MOMA sýningin. Máski frásagnarkenndari og kven- og karlhlutföllin eru líka nokkuð svipuð.
    Hins vegar finnst mér forvitnilegast að sjá hvernig teiknimyndavæðingin ríður yfir frásagnaformið.
    Ég veit ekki hvaða girndir Hafþór talar um, nema að hann sé að tala um einhverskonar neyslumenningu eða Disneyvæðingu. Að “stuffa” sig með gerviheimi, þú veist -sjónvarpsglápi og tölvuleikjum. Baudrillard heitinn var nefnilega ekki fjarri sanni, fegurðin fallegri en fegurð þegar við klæðum hana Disneybúningi. Hvort sem það er í málverki eða skemmtigarði. Í þessu tilfelli er það reyndar hið afmyndaða sem er fegrað. Alveg eins og froskurinn í The princess and the frog. Froskurinn er svo sætur að allar prinsessur mundu kyssa hann í spað. Samt á maður að halda að prinsessunni þyki hann ógeðfelldur.

  2. Nokkuð skondið, og allsvakaleg reyndar framsetningin á þessari sýningu í MOMA. Þarna er verið að poppa hlutina upp í sýningarsamhenginu á dálítið örvæntingarfullan hátt. Hræddur um að Baudrillard hefði fílað þetta, það er rétt hjá þér. Skellti „girnd“ í Google-þýðingu og fékk út “lust”, sem er ekki fjarri lagi. Setti svo “lust is a vice” til baka og fékk þá niðurstöðuna „Lust er varaformaður“, sem er ekki heldur fjarri lagi og ályka skynsamlegt og hugmyndavinnan í kringum þessar tvær sýningar. Þetta er ánægjulegt því það gerist sjaldnar og sjaldnar að þýðingarnar gefi manni skemmtileg móment!

  3. Ég hafði reyndar gaman að Ljóslitlifun. Elska þetta teiknimyndasamhengi. En “gaman” er þá líka töfraorðið, enda snýst þetta um visst skemmtanagildi. Að því leytinu í takti við þróun mála í listinni.

  4. Satt er það, þótt forsendur, umgjörð og uppsetning sé að mörgu leyti meingöllaðar, þá er sýningin engu að síður áhugaverð og margt skemmtilegt í gangi.

  5. Það er nú undarleg umfjöllun þegar samsýning 11 listamanna kalla einungis á vangaveltur um kynjahlutfall og krufningu á orðinu girnd. Orðið girnd er í raun vöntun og von, sama hversu oft við googlum það og látum miskilningin túlka það…. það sem ég held að Hafþór sem sýningastjóri hafi verið að segja með orðinu girnd er hversu áríðandi málverk sem myndlist er fyrir þessum ungu myndlistarmönnum sem þarna stíga á svið, óháð kynjahlutfalli og litanotkun… Og kannski það að málverkið þjóni enþá þeim tilgangi að vera braut einfaldrar jafnt sem flókinnar sköpunargáfu burt séð frá því hvort að það (sé enþá lifandi eða ekki), Það er vandasamt verk að halda utanum og þá sérstaklega að gefa góða innsýn inní eithvað sem er jafnt opið og þessi sýning. Ég verð þó að segja að allt er þetta afskaplega fljótafgreitt með moma og skrípóabstrakt, en staðreynd málsinns er að hér eru 11 listamenn, sem hversu fjarrænt og það hljómar, eiga eithvað sameiginlegt, og væri því gaman að sjá þessa umræðu um hvað það er. Hversvegna er hægt að byggja svona sýningu á hinu litla íslandi, ( og virðast það vera fjöldin allur af konum sem eru að vinna að ámóta hlutum). Er hugsanlega ákveðinn undirtónn sem hér hljómar sem er erfitt að takast á við… Ég held að það sé einmitt það sem sýningastjóri þessarar sýningar glímdi við. Þessvegna verð ég að hrósa Hafþóri fyrir að taka ákvörðun að setja hælin niður. Hann bendir okkur þó á það, þó svo að þessi sýning sé gölluð, að hér er ákveðið element í list Íslands sem við listamennirnir þurfum að ræða. Ég verð að segja að þó svo að þetta sé sundurlaust hugtak þá er einhver sjónræn og huglæg samstaða sem á sér stað. Ef hópsýningar í Listasölum bæjarinns geta gert jafnt óljóst konkret statement og hér á sér stað, þá get ég nú ekki annað en fagnað því og vonað að fleyri geri hið sama í stað þess að míga í sitt eigið horn og halda að það sé eithvað einka… Er ekki einmitt málið að finna hvar listin flæðir saman og getur leitt okkur inn í hin megin höf heimsálfanna. Kannski er þetta jafn einfalt og það… Við byrjum að mála sem listamenn og á endanum er málverkið það erfiðasta sem við tökumst á við, og þegar við gerum það vel þá berstrípar það okkur. Allavega, ég naut þess að finna þennan frumkraft sem þarna átti sér stað, og þó svo að vissir angar þessa krafta voru fyrirsjáanlegir og klysjukenndir, þá gáfu aðrir loforð um meira, og er það þar sem þessi umræða á að fara frekar en toganir um orð og uppsetningu. Svo að við komum aftur af orðinu “girnd”, ef málverkið er ekki að gera það og listamennirnir eru ekki graðir, þá vona ég að það séu fullt af hornum til að pissa í sem eru prívat..

Skildu eftir svar við Hlynur Helgason Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: