Andrea Maack og fegurð í samtímalist

Í bók sinni um fegurð fjallar breski heimspekingurinn Roger Scruton um hversdagslega fegurð sem birtist t.d. í því hvernig lagt er á borð fyrir rómantískan kvöldverð eða vel slegnum og snyrtum garði.  Scruton telur að hversdagslegri fegurð sé best gerð skil gegnum tísku og segir:

 

Tíska er leiðavísir fyrir fagurfræðilegt val sem veitir einhverskonar tryggingu fyrir því að aðrir munu samþykkja það.  Og hún gefur fólki leyfi til að leika sér með útlit, að senda skilaboð út í samfélag ókunnugra sem þeir geta borið kennsl á, og vera í útlitslegu samræmi í heimi þar sem útlit skiptir máli.[1]

 

Fegurð viðkemur allri hönnun hvort sem hún snýr að vörum, nytjahlutum eða framsetningu listarverka.   Myndlistarmenn sem stíga inn á svið tískuheimsins höfða beint til ímyndar listneytandans, oft með „list til að klæðast” sem þeir framleiða undir eigin vörumerki. Dæmi um það eru Jón Sæmundur sem framleiðir undir vörumerkinu Dead og Hrafnhildur Arnardóttir sem framleiðir undir merkinu Shoplifter.  

 

List Andreu Maack er af þessu meiði og ræðst hún beint í hjarta hátískunnar.  Andrea framleiðir fatalínur og notar nafn sitt sem vörumerki eins og hver annar hátísku hönnuður sem er sitt eigið fyrirtæki.  Hún framsetur list sína sem tískuvörulínu og miðar jafnvel framleiðsluna við árstíðir, eins og tíðkast í tískuheimi og tekur þannig íróníska afstöðu til myndlistariðnaðarins, en árstíðir eru einnig hluti af sýningaráætlunum gallería sem líkt og tískuvöruverslanir skipta út árstíðalínum fyrir sumar, vetur, vor og haust og eiga sína árstíðabundnu háannatíma og deyfðartíma.

 

Andrea hefur framleitt þrjár tegundir af árstíðabundnum ilmvötnum í samvinnu við Franska ilmvatnafyrirtækið apf aromes & parfumes og eru þau nú öll til sýnis í Spark design space við Klapparstíg (gamla i8 sýningarrýmið) undir yfirheitinu Eau de Parfum.  Sýningin er, eins og aðrar sýningar hennar, sett fram eins og kynning á ilmvötnunum.

Andrea glímir við fegurð í samtímanum og tískuheimurinn er myndmálið sem hún notar til að miðla henni og um leið tryggja að aðrir samþykki hana.  Andra sýnir okkur hvaða hlutverki fegurð gegnir í samtímalist og hvernig hún er notuð sem umbúðir til að klæða listina. 


[1] Scruton, Roger, Beauty, Oxford University Press, New York, BNA, 2009, bls. 93.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

%d bloggers like this: