Ég blaðaði í gegnum Fréttablaðið þann 2. sept og rakst þar á auglýsingu frá Veiðiportinu þar sem ung stúlka stendur í bíkíníi úti í á og heldur á veiðistöng. Ekki er þetta fyrsta auglýsingin sem ég hef tekið eftir með þessu sniði og verður væntanlega ekki sú síðasta. Það sem slær mig að sjálfsögðu er sú setning sem er ríkjandi á þessum tímum „sex sells”. Augljóslega eins og sjá má á auglýsingunni er það einmitt málið. Ég tók ekki eftir tilboðunum sem sagt er frá á þessari heilsíðu auglýsingu heldur velti því fyrir mér hvort að þetta væri eina leiðin til að fá fólk þessa dagana til að kaupa veiðistangir. Einnig velti ég fyrir mér hvort femínistafélagið væri hætt að skipta sér af auglýsingum af eins miklum krafti og þeir gerðu fyrir fermingarbækling Smáralindar um árið, með ungu stúlkunni í „klámfenginni líkamsstöðu með opinn munn“. Fullorðin kona í þessu tilfelli og allt það… þá á ég samt erfitt með að sjá hvað bíkíní hafa nokkuð með veiðimennsku að gera. Einnig er ekki að hægt að finna viðkomandi bíkíní á heimasíðu Veiðiportsins sem ég hélt að væri vanalega tilgangur auglýsinga; að sýna varning sem hægt er að kaupa…kannski ný auglýsingaaðferð sem ég greinilega er að missa af.
Myndbirting kvenlíkamans í gegnum tíðina er að mínu mati afar áhugaverð, allt frá því að vera dáður sem frjósemistákn, í það að vera falinn undir gífurlegu magni klæða vegna siðsemi, til aðdáunar bústinna kvenna á hungurtímum til dagsins í dag þar sem barist er fyrir virðingu kvenna og réttindum annars vegar en hinn hlutinn flaggar líkamshlutum í gróðar- og sýningarskyni.
Ég hlakka mikið til að sjá sýningu Mel Ramosar hér á landi og ádeilu hans á kvenlíkamanum sem markaðsvöru í fjölmiðlum. Vangavelturnar einnig í tengslum við sýninguna Með viljann að vopni í Listasafni Rvk. Stefnan liggur þangað á morgun…