Í þeim löndum þar sem persónukjör er notað við almennar kosningar er yfirleitt lítið jafnræði á milli kynja í niðurstöðum kosninga. Þessi staðreynd hefur vafist fyrir mönnum hér á landi þegar þeir hugleiða að taka upp kosningakerfi þar sem kjósendur velja sér beinlínis fulltrúa til þess að annast umboð sitt í ríkis- og sveitarstjórnum, í stað þess að veita flokkum og fylkingum umboð sitt. Þetta kemur meðal annars fram í nýlegu viðtali við Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra. Þetta vandamál skrifast hinsvegar í meira mæli á þjóðfélagsástand í þeim löndum þar sem persónukjör er við líði, heldur en að þetta felist í því hvernig kosningakerfið er. Það er nefnilega alls ekki vandkvæðum bundið að tryggja ásættanlegt jafnræði kynja með aðferðafræði persónukjörs. Ef vilji er fyrir hendi ætti kynjamunur þess vegna ekki að þurfa að standa í vegi fyrir því að taka upp kerfi hér á landi við kosningar þar sem yfirfærsla valds frá borgurum til fulltrúa þeirra er skýr og gefur kjósendum sem besta og fjölbreyttasta valkosti.
Sú aðferð við persónukjör sem mestrar virðingar nýtur og er hvað ábyggilegust er kölluð Single Transferable Vote í mörgum enskumælandi löndum. Hún þykir ábyggileg vegna þess að hún gefur kjósendum kost á að túlka vilja sinn á skýran hátt án þess að séu teljandi möguleikar á að hafa áhrif á kosninguna með því að kjósa gegn vilja sínum, sem er galli á flestum öðrum aðferðum. Hér mætti nefna aðferðina: Eitt yfirfæranlegt atkvæði. Aðferðin var fyrst þróuð á hagnýtan hátt um miðja 19. öld af danska þingmanninum og stærðfræðingnum Carl Andræ og nýtt við kosningar í Danmörku. Aðferðin byggir á því að hver kjósandi raðar frambjóðendum í röð á kjörseðlinum og ákveður þannig í hvaða röð atkvæði sitt færist á milli frambjóðenda. Sá frambjóðandi sem kjósandi velur í fyrsta sæti fær atkvæðið að fullu í fyrstu. Ef hann hefur hlotið fleiri atkvæði en hann þarf til að hljóta kosningu færist umframhluti atkvæðisins yfir á þann næsta í röðinni, og þannig koll af kolli þar til annaðhvort eru ekki fleiri númeraðir á kjörseðlinum eða að atkvæðið er fullnýtt. Á síðari stigum talningarinnar er ljóst hvaða frambjóðendur eiga ekki möguleika á kjöri og þá færast atkvæði þeirra að fullu yfir á næsta valkost.1
Vegna yfirfærslureglunnar geta kjósendur ætíð kosið eftir sannfæringu sinni. Þeir vita að ef sá sem þeir hafa valið fær umframatkvæði, þá gildir atkvæðið til að kjósa fleiri. Þeir vita einnig að ef sá sem þeir hafa valið dettur út, þá gildir atkvæðið áfram í kosningunni. Þetta á ekki við í hlutfallskosningu, eins og er notuð hér á landi, þar sem atkvæði geta orðið óvirk vegna þess að listi fær næstum næg atkvæði til að koma fleirum að, eða fær ekki nægilega mörg til að koma nokkrum manni að. Við þær aðstæður verða atkvæði viðkomandi kjósenda áhrifalaus, atriði sem getur leitt til þess að kjósendur velja frekar að kjósa gegn sannfæringu sinni til að tryggja sér valmöguleika.
Kerfi sem byggja á forsendunni um Eitt yfirfæranlegt atkvæði eru notuð við kosningar í mörgum löndum, en nærtækustu dæmin þar sem það er notað við þingkosningar eru á Möltu og á Írlandi. Í kosningum í þessum löndum eru kostir kerfisins augljósir, og koma sér í lagi fram í því að fólk leyfir sér í reynd að velja þá einstaklinga sem þeim hugnast best (þetta má meðal annars sjá í því hvernig atkvæði yfirfærast í dæminu hér til hliðar frá Írlandi). Þótt margir fylgi flokkalínum við val fulltrúa eru einnig margir sem velja sér greinilega fulltrúa út frá fjölbreyttari forsendum. Þegar kosningakerfið í þessum löndum, eins og á Írlandi, er skoðað, þá er einnig greinilegt að á þeim eru einnig þó nokkrir gallar sem mikilvægt væri að forðast ef kerfið væri tekið upp hér á landi.
Á Írlandi og Möltu eru stærstu ágallarnir tvennskonar; annarsvegar eru kjördæmin lítil, á milli 3 og 5 fulltrúar eru kosnir í hverju kjördæmi, og hinsvegar er hlutur kvenna smánarlega lítill á þingi. Forsendan fyrir litlum kjördæmum er sú að nánd verður mikil við fulltrúana, sem er kostur. Á hinn bóginn fylgir þessu að færri sjónarmið eiga þess kost að eiga sér fulltrúa á þingi á hverjum stað. Segja má að á Írlandi og á Möltu sé áherslan of mikið á nándina við fulltrúana, á kostnað þess að fleiri sjónarmið komi fram á þingi. Þetta þýðir þó ekki að fulltrúar smáflokka eigi ekki möguleika, mjög oft ná þeir kjöri á persónulegum forsendum, sér í lagi í þeim kjördæmum þar sem 5 fulltrúar eru í kjöri. Þó er það svo að tveir stærstu flokkarnir eru að fá um 75-80% þingsæta, um 5-10% fleiri en líklegt væri að þeir fengju ef kjördæmi væru stærri og með fleiri fulltrúa í kjöri. Þó er það svo að þegar persónukjör er reglan við er reglan við Eitt yfirfæranlegt atkvæði þá þurfa kjördæmin ekki endilega að vera mjög stór til að fjölbreyttar skoðanir geti átt sér fulltrúa. Reynslan sýnir að margir eru tilbúnir til að dreifa atkvæðum sínum bæði á stóru og smærri aðilana þegar þess er kostur. Við ákvörðun á stærð kjördæma er skoðuð þá er mikilvægt að þau séu ekki það stór að dragi úr nálægð við fulltrúana, en ekki það lítil að fjölbreyttar skoðanir eigi sér ekki hljómgrunn. Ég gæti ímyndað mér að meðalvegurinn lægi einhvers staðar á milli 7 og 12 þingsæta í hverju kjördæmi við þær aðstæður sem við búum við hér á landi. Ef fleiri en 12 sæti væru í kjördæmi er hætt við að nándin verði allt of lítil. Ef þau væru færri en 7 yrði hætt við að sjónarmið minnihlutahópa ættu erfitt um vik að komast að.
Of lítil kjördæmi eiga sinn þátt í því að hlutur kvenna er eins lítill og hann er á írska þinginu, en þó er helstu ástæðunnar að leita í sinnuleysi bæði kjósenda og flokka fyrir mikilvægi þess að kynjajafnvægi sé komið á. Á Írlandi eru konur einungis 13 % frambjóðenda til þingsins, og enn lægra hlutfall hjá stærstu flokkunum. Þetta þýðir vitaskuld að möguleikar kjósenda á að velja konur eru oft litlir eða jafnvel engir. Írar hafa verið að leita leiða við að leiðrétta þetta, og helstu tillögur fela það í sér að að flokkar eða flokksfélög fái minni ríkisstyrki ef kynjahlutfall er ekki jafnt á framboðslistum. Einnig hafa komið fram hugmyndir um kynjakvóta, en hlotið lítinn hljómgrunn vegna þess að það gæti leitt til þess að vægi atkvæða greidd konum yrði ekki það sama og atkvæði greidd körlum.
Hér á landi er, við núverandi ástand, mun meira jafnræði á milli kynjanna í kosningum, sér í lagi til Alþingis. Það er nokkuð gott samkomulag í þjóðfélaginu um að kynjahlutöll í stjórnun bæði ríkis og sveitarfélaga ættu að vera sem jöfnust, þótt það hafi ekki enn náðst. Þegar menn hafa verið að skoða möguleika á persónukjöri og litið til reynslunnar frá Írlandi þá hefur lágt hlutfall kosinna kvenna þar verið helsti þröskuldurinn í vegi fyrir því að slíkt kerfi yrði tekið upp hér á landi. Ég er hins vegar á því að ef að réttum aðferðum er beitt við innleiðingu persónukjörs ætti það síður en svo að leiða til lakari stöðu kvenna á þingi eða í sveitarstjórnum. Þvert á móti eru allir möguleikar á því að það ætti að vera hægt að efla hlut kvenna verulega, bæði á þingi og í sveitarstjórnum, með innleiðingu reglna um persónukjör samkvæmt hugmyndum um Eitt
yfirfæranlegt atkvæði.
Ef það markmið á að nást að verulega aukið jafnræði náist á milli kvenna og karla í kosningum á Íslandi samhliða innleiðingu persónukjörs þá þarf þrennt til:
-
Í fyrsta lagi þarf að setja reglur um það að jafnmargir af hvoru kyni verði að vera í framboði frá flokkum eða einstaklingum í sérhverju kjördæmi. Þetta myndi tryggja það, ólíkt því sem gerist á Írlandi, að kjósendur ættu möguleika á því að velja sér fulltrúa af hvoru kyni fyrir sig. Flokkar yrðu þá að hafa jafnmarga af hvoru kyni í framboði í hverju kjördæmi svo framboð þeirra teldist löglegt. Einstaklingar sem áhuga hefðu á því að vera í kjöri utan flokka þyrftu þá að sameinast í framboði með einstaklingi af gagnstæðu kyni svo framboð þeirra væri löglegt.
-
Í öðru lagi þyrfti setja reglur um að lögð verði áhersla á það á áberandi hátt á kjörstað að kjósendur dreifi atkvæði sínu jafnt á milli fólks af báðum kynjum. Hér er ekki um það að ræða að binda hendur kjósenda á neinn hátt, heldur að lögð sé skýr áhersla á það að eðlilegt sé að gæta jafnræðis kynja í kosningunni sjálfri. Þetta mætti gera með því að hafa áberandi hvatningu um slíkt á kjörstað, og einnig mætti orða þetta skýrt á kjörseðlinum sjálfum. Þetta atriði, samhliða því að jafnræði er á milli kynja á kjörseðlinum sjálfum, ætti að tryggja réttlátt hlutfall á milli kynjanna við flestar aðstæður. Það þarf þó að tryggja að misrétti geti ekki átt sér stað í undantekningartilvikum, og þess vegna þarf þrautarvara sem dugar, eins og kemur fram í atriði 3:
-
Lokaatriðið til að tryggja jafnræði í persónukjöri, ef aðgerðirnar hér fyrir ofan duga ekki, er að skilgreina kynjakvóta um kosninguna. Ég myndi leggja til að þetta ætti við ef færri en þriðjungur kjörinna fulltrúa væri af öðru hvoru kyninu. Þetta væri einfalt að útfæra í persónukjöri út fráLokaatriðið til að tryggja jafnræði í persónukjöri, ef aðgerðirnar hér fyrir ofan duga ekki, er að skilgreina kynjakvóta um kosninguna. Ég myndi leggja til að þetta ætti við ef færri en þriðjungur kjörinna fulltrúa væri af öðru hvoru kyninu. Þetta væri einfalt að útfæra í persónukjöri út frá Einu yfirfæranlegu atkvæði. Nútímaaðferðir við talningu atkvæða nýta tölvutækni við útreikninga þannig að hægt sé að yfirfæra atkvæðin sem nákvæmast á milli fulltrúa. Þetta þýðir að kynjakvótinn gæti verið skilgreindur í forsendum útreikninga, á sjálfvirkan hátt. Ef sú staða kæmi upp að jafnræði væri ekki á milli kynja samkvæmt fyrstu útreikningum í kosningu, þá myndi kvótareglan fela það í sér að vægi atkvæða fulltrúa þess kyns sem ekki nær inn nægum fulltrúum yrði aukið, á kostnað atkvæða hins kynsins, þar til réttlát úrslit fengjust. Til dæmis um þetta væri kosning í sveitarfélagi með 5 fulltrúa þar sem kjósendur kusu mikið frekar karlmenn en konur. Við óbreytta útreikninga hefðu í þessu ímyndaða tilviki verið kosnir 4 karlmenn og 1 kona. Þetta fæli í sér að útreikningar færu fram á ný og vægi atkvæða kvennanna aukin þar til 2 hlytu klárlega kjör. Í dæminu eins og það er sett fram hér þarf að bæta 20% við vægi atkvæða kvenna til að tryggja öðrum fulltrúa sæti. Slíka reglu mætti á einfaldan hátt setja inn í útreikningsstuðul kosningaúrslita þannig að aðgerðin færi snurðulaust fram, en þó þannig að vel mætti rekja breytinguna.
Þessa aðferðarfræði, að hafa vægi atkvæða mismunandi í undantekningartilvikum, væri erfitt að útfæra í löndum eins og Írlandi vegna þess að þar er engin hefð fyrir mismunandi atkvæðavægi. Hér á landi er það hins vegar kostur að fólk er vant því að atkvæðavægi sé mismunandi. Það getur munað allt að 49% á atkvæðavægi á milli kjördæma í kosningum til Alþingis og í sveitarstjórnarkosningum geta atkvæði greidd stærri framboðum vegið allt að 20% meira en atkvæði greidd smærri framboðum. Hér ætti þess vegna ekkert að vera því til fyrirstöðu að setja inn reglu um misjafnt atkvæðavægi kynjanna þegar niðurstöður í venjulegri talningu fela í sér of mikið misrétti er á milli fulltrúa þeirra. Slík aðgerð yrði mikið minna inngrip í vægi atkvæða heldur en er við lýði í núverandi kerfi, og myndi tryggja að hlutfall kynjanna á þingi og í sveitarstjórnum yrði nokkurnveginn jafnt. Aðferðin er gegnsæ og einföld, og er framkvæmd á sjálfvirkan hátt þegar niðurstöður kosningar eru reiknaðar út. Hún yrði því trúlega minna umdeild en, til dæmis, núverandi reglur um í prófkjörum umfléttulista, þar sem niðurstöður prófkjörs liggja fyrst fyrir, en fólk hefur svo verið fært upp og niður í kjölfarið. Þar er verið að breyta niðurstöðum eftirá, en í þessum tillögum væri breytingin hluti af kosningakerfinu, og þannig að einungis yrði gripið til hennar í undantekningartilfellum.