Saga abstraktlistar er ekki saga abstraktlistar

| 6 Comments

Kandinsky_Komposition_IV_1911.jpgÞað er almennt talið og oft sagt í listasögubókum, að Vassilíj Kandinskíj eigi heiðurinn að fyrsta abstrakt málverkinu árið 1911 (sjá mynd tv. Komposisjón IV, 1911).  Svo má vel vera út frá einhverjum gefnum forsendum um eðli abstraktlistar.

 

Mig langar hins vegar að segja hér frá annarri sögu abstraktlistar með öðrum frumkvöðlum en Kandinskíj.

 

Önnur saga abstraktlistar

 

georgiana.jpgGeorgiana Houghton fæddist á Las Palmas, Kanarí árið 1814. Hún var af bresku foreldri og fluttist aftur til Bretlands sem barn þar sem hún nam síðan listir. 

Árið 1851 lést yngri systir hennar og upp frá því hætti hún allri hefðbundinni myndlistariðkun og sökkti sér í spíritisma.  Hún hóf að sækja miðilsfundi og 10 árum síðar tók hún aftur að eiga við listina en á allt öðrum forsendum.  Hún vildi nýta listræna hæfileika sína til að rannsaka og komast í tengsl við handanheima.

 

Houghton notaði teikningu til að koma sér í trans og hefur aðferðin verið kölluð automatismi (surrealistar, s.s. André Masson og André Breton, tóku þessa aðferð aftur upp af öðrum ástæðum snemma á 20. öldinni).  Myndirnar eru í eðli sínu abstrakt þótt í einhverjum þeirra megi greina andlitsform (sjá mynd tv. frá c.a. 1862), þá eru aðrar án nokkurrar hlutlægrar skýrskotunar.

 Houghton hélt reglulega sýningar á verkum sínum heima hjá sér, en árið 1871 sýndi hún á annað hundrað vatnslitamyndir í The New British gallery.

 

Hugoabstrakt.jpgUm svipað leyti og Georgiana Houghton gerði abstraktverk sín var franski rithöfundurinn Victor Hugo í samskonar þönkum.   Hugo sótti miðilsfundi og settist gjarnan að teikningu að loknum fundi því hann taldi sig þá best tengdan yfir í handanheim.  Hugo teiknaði abstrakt myndir (sjá mynd t.h. Blekteikning, dagsetning ókunn) og sumar þeirra heyra undir automatisma

Vincent Van Gogh segir frá teikningum Hugos í bréfi til bróður síns árið 1880 og hrýfst nokkuð af þeim, en er þá aðallega að tala um myndir hans af gotneskum kirkjum.  Það segir okkur, engu að síður, að teikningar hans voru komnar í umferð og voru til sýnis þar sem listamenn gátu borið þær augum.  Victor Hugo lét eftir sig um 4000 myndir þegar hann lést árið 1885 og þær hafa verið sýndar víða og þá fyrir aldamótin 1900.

 

klimt ten biggest 07.jpgHilma Af Klint fæddist í Svíþjóð árið 1862 og lærði listir í akademíunni í Stokkhólmi.  Hún hóf snemma að kynna sér spíritisma og kynntist verkum Houghtons og Hugos, en þau voru í hávegum höfð innan spíritískra hreyfinga um gjörvalla Evrópu í þá daga.

 

Hilma Af Klint byrjaði að teikna og mála automatisma árið 1896, en færði sig fljótt yfir í settlegra abstrakt myndmál og geometríu. Hún hélt sýningu á abstraktmyndum árið 1907 (sjá mynd, t.v. frá árinu 1907) sem hún sagðist gera þegar hún væri í trans eða miðilsástandi og opin inn í aðrar víddir.

 

Hilma Af Klint var meðlimur í Guðspekifélaginu og Mannspekifélaginu og fór oft til Þýskalands til að hitta Rudolf Steiner, vin sinn og lærimeistara.  Þar kynntist hún Vassilíj Kandinskíj sem var í áþekkum félagskap. Kandinskíj var þá expressjónískur landslagsmálari að leita nýrra leiða í listinni. 

 

 

Hvers vegna er saga abstraktlistar ekki saga abstraktlistar?

 

Hvers vegna er Vassilíj Kandinskíj yfirleitt gefið heiðurinn að vera frumkvöðull abstraktlistar?

 

1)  Houghton, Hugo og Klint var skítsama um listasöguna og listheiminn.  Þau voru að kanna spíritisma (Kandinskíj var reyndar að því líka en hann var ekki að tala um trans og miðilsfundi eða að einhver æðri vitund málaði í gegnum hann).

 

2)  Victor Hugo var ekki fagmaður í myndlist.  Hann var rithöfundur sem teiknaði líka.

 

3)  Georgiana Houghton og Hilma af Klint voru fagmenn í myndlist en þær voru líka konur í karlægum listheimi sem töluðu um trans, miðilsfundi og að einhver æðri vitund málaði í gegnum þær. 

Athugasemdir / Comments

Hér er möguleiki á að gera athugasemd við færsluna.
Til að skilja eftir skilaboð er boðið upp á að sannvotta sig með ýmsu móti,
með Livefyre, Twitter, Facebook, Google+, LinkedIn, eða OpenID.

About this Entry

This page contains a single entry by Ransu published on February 21, 2010 9:30 PM.

Júróvisjónkjólalist was the previous entry in this blog.

Siðferði listamannsins is the next entry in this blog.

Find recent content on the main index or look in the archives to find all content.

Categories

Pages

Powered by Movable Type 5.2.2